Tónlistarfélagskórinn

4. nóvember árið 1943 var haldinn stofnfundur félagsins Samkór Tónlistarfélagsins á heimili Ólafs Þorgrímssonar hrl. að Víðimel 63 í Reykjavík. Í 2. grein laga fyrir félagið segir svo:

Tilgangur félagsins er fyrst og fremst að flytja úrvalstónverk sígildra eða nútímameistara fyrir kóra og hljómsveit og að kynna hin bestu íslensku tónverk, sem fram koma á þessu sviði. (54)

Undir lög félagsins skrifuðu með eigin hendi 55 stofnfélagar. Söngstjóri kórsins var Victor Urbancic. Þessi kór var að vissu leyti sjálfstæð stofnun þótt hann væri stofnaður að tilhlutan Tónlistarfélagsins þar sem hann hafi sín eigin lög og sjálfstæða stjórn. Á aðalfundi Tónlistarfélagsins hafði hr. Ólafur Þorgrímsson verið kosinn formaður kórsins. Var hlutverk hans að starfa sem tengiliður milli kórsins og Tónlistarfélagsins. Í fyrstu aðalstjórn kórsins voru kosnir Sigfús Halldórsson og Sigríður Þorsteinsdóttir. Einnig skipaði kórinn með sér sérstaka raddstjóra. Aðalstjórnin var skipuð þremur mönnum, eins og kvað á um í 4. grein laganna, en þar segir að félagið kjósi 2 menn í stjórn en Tónlistarfélagið einn mann og sé hann jafnframt formaður.

Kórinn hafði heimild til að starfa sjálfstætt, en skuldbatt sig jafnframt til að flytja ýmis verk á vegum Tónlistarfélagsins. 5. 6. og 7. grein félagsins hljóðuðu þannig:

§ 5
Tónlistarfélagið leggur félaginu til söngstjóra, endurgjaldslaust, og heldur uppi kennslu fyrir meðlimi kórsins í nótnalestri og öðru sem að söng lýtur, eftir því sem við verður komið.
§ 6
Verkefnum kórsins ræður söngstjóri í samráði við stjórnina, nema þegar sungið er fyrir Tónlistarfélagið, þá ræður stjórn þess í samráði við söngstjóra.
§ 7
Heimilt er félaginu að halda sjálfstæða hljómleika eða á annan hátt að koma fram sérstaklega ef fulltrúi Tónlistarfélagsins í stjórninni og söngstjóri samþykkja, og á félagið sjálft allan afrakstur af slíkri starfsemi.

54 Úr gerðabók Samkórs Tónlistarfélagsins.
Klausan “ef fulltrúi Tónlistarfélagsins í stjórninni og söngstjóri samþykkja” segir nokkuð um stöðu kórsins. Það var hefð í Tónlistarfélaginu að enginn sem ráðinn var á vegum Tónlistarfélagsins (Tónlistarskólann, Hljómsveit Reykjavíkur, kórinn o.s.frv. ) hefði heimild til að vinna fyrir aðra án leyfis Tónlistarfélagsins. Þetta þýddi, að engar ákvarðanir voru teknar á vegum kórsins – og þar með alls tónlistarlífsins – nema með heimild Tónlistarfélagsins. Það “átti” fólkið! Síðar kom í ljós að nokkrir kennaranna við Tónlistarskólann unnu næstum helming vinnu sinnar án launa. Þeir urðu að kenna svo og svo marga tíma á viku sem skilgreint var sem heil staða, en allt sem hét hljómfræði- og sögukennsla og samspil var ekki skilgreint sem “launuð vinna”. Einnig upplifðu þeir að vera sendir út á vegum Tónlistarfélagsins að vinna verkefni sem ekkert hafði með stöðu þeirra að gera, svo sem að taka til, og planta blómum og trjám á byggingarlóð Tónlistarfélagsins þar sem til stóð að byggja tónlistarhöll (sjá nánar kaflann um Tónlistarhöll í Reykjavík).

Á fyrst fundi kórsins tilkynnti söngstjóri að farið yrði hægt af stað, en síðar yrði ráðist í stærri verkefni. Strax á öðru starfsári kórsins var hafist handa við að æfa Jólaóratoríuna eftir Bach, og hafði flutningur á henni bæði sögulegt og menningarlegt gildi. Síðar var Jóhannesarpassían flutt, og vann Urbancic það stórvirki að setja íslenskan texta við passíuna, þ.e. texta úr Biblíunni, við resitatívin og nokkra sálma úr Passíusálmum Hallgríms Péturssonar við kóralana. Þetta hafði mikið gildi fyrir tilheyrendur því fólk skildi um hvað textinn fjallaði. Ennþá meira gildi hafði það fyrir fólk úti á landsbyggðinni því tónleikunum var útvarpað og gat því fólk betur fylgst með bæði tónlist og texta.

Samkór Tónlistarfélagsins undir stjórn Victors Urbancic átti síðar eftir að vinna mörg stórvirki í íslenskri tónlistarsögu á þessari öld. Kórinn hélt marga tónleika í Reykjavík, og einnig úti á landsbyggðinni í þau mörgu ár sem hann starfaði. Einnig er fræg utanlandsför kórsins á Norrænu Tónlistarhátíðina í Kaupmannahöfn árið 1948. Ein fræknasta ferð kórsins innanlands var þegar kórinn fór með Ms.Heklu til Vestmanneyja á hvítasunnunni árið 1950 til að heimsækja Samkór Vestmannaeyja.

Mikil áhersla var lögð á félagslega samveru meðlima kórsins og margt gert til að vekja samhug allra aðila. Hópurinn fór í margar skemmtiferðir út úr höfuðborginni og hélt einnig margar skemmtanir undir ýmsum heitum. Eitt var Sumarnæturvaka sumarið 1950. Einnig var haldin Bassavakt sama haust og síðar Sópranvakt og fleira í þeim dúr. Með þessum heitum var átt við að þessar raddir sæju um hverja skemmtun. Skemmtanirnar voru haldnar til að afla kórnum fjár.

Á Pálmasunnudag árið 1950 flutti kórinn Jóhannesarpassíu Bachs í Fríkirkjunni með hinni nýju sinfóníuhljómsveit Ríkisútvarpsins. Hinn félagslegi andi sem ríkt hafði svo lengi í tónlistarlífinu fór smám saman dvínandi, þ.e. viðhorfið til tónlistarflutnings var ekki aðeins á félagslegum grunni, heldur var það einnig farið að færast yfir á svið atvinnumennskunar, og einstaklingar sem höfðu atvinnu sína af tónlistarflutningi voru farnir að fá greitt fyrir vinnu sína.

Sú staða kom bersýnilega í ljós við flutning á Jóhannesarpassíunni. Eins og kvað á í lögum kórsins mátti hann halda sjálfstæða tónleika í eigin fjáröflunarskyni. Það var einnig ætlun kórsins með þetta verk, þ.e. að það yrði flutt tvisvar á vegum Tónlistarfélagsins og svo einu sinni til ágóða fyrir kórinn. En nú voru komin ný viðhorf, þ.e. það þótti ekki fjárhagslega hagkvæmt að flytja verkið oftar en einu sinni. Um þetta er fjallað lítilsháttar í gerðabók kórsins:

Hann [Þorsteinn Sveinsson]sagði að eins og menn vissu hefði þetta tónverk verið flutt aðeins einu sinni, í stað þess að allir hefðu álitið að flytja ætti verkið oftar a.m.k. þrisvar, og þar af einu sinni fyrir Tónlistarkórinn sjálfan til ágóða fyrir starfsemi hans. Nú hefði hinsvegar svo tekist til að Tónlistarfélagið og Sinfóníuhljómsveitin sem sá um flutning verksins með aðstoð Tónlistarfélagskórsins, hefði eigi verið fáanleg til þess að flytja verkið oftar, þar sem sá boðskapur sem verkið flytti ætti aðeins heima til flutnings í páskavikunni og auk þess væri það dýrt að uppfæra verkið að vafasamur væri hagnaður af því ef ekki með öllu tap fullvíst og í það áhættuspil vildi Tónlistarfélagið, Sinfóníuhljómsveitin og Útvarpið eigi leggja. (55)

Á þessu má sjá hverjir það voru sem á þessum tíma réðu öllum meiriháttar tónlistarflutningi í Reykjavík. Voru það Tónlistarfélagið og Útvarpið. Kórmönnum þótti komið aftan að sér í þessu máli. Þeir höfðu fengið leyfi biskups og lögreglustjóra til að flytja verkið alla páskadagana en ekki var vilji fyrir hendi hjá hinum aðilunum til að flytja verkið aftur.

Þetta dró þó á engan hátt kjarkinn úr kórmönnum, og var starfsemi kórsins sjaldan eins lífleg og árið 1950. Þar má nefna uppfærsluna á Jóhannesarpassíunni, ferðin til Vestmanneyja, Sumarnæturvöku í Sjálfstæðishúsinu, Bassavaktina í Iðnó auk 7 stjórnarfunda, 3 almennra funda og eins skemmtifundar. Starf þessa kórs hafði því ekki aðeins músíkalskt gildi fyrir meðlimi hans, heldur var hann mikilvægur félagslegur vettvangur fyrir fólkið.

Meðal stórra afreka kórsins, bæði fyrir formlega stofnun hans og eftir, þá flutti söngfólkið í samstafi við Tónlistarfélagið Sköpunin eftir Haydn í bifreiðaskála Steindórs fyrir um 1500 áheyrendur undir stjórn Páls Ísólfssonar. Undir stjórn Urbancic flutti kórinn m.a. Messías

55 Gerðabók Tónlistarfélagskórsins; Almennur fundur 17. apríl 1951.

eftir Händel, Jóhannesarpassíuna og Jólaóratoríuna eftir Bach, Requiem eftir Mozart, Judas Maccabeus eftir Händel og einnig verkið Friður á Jörðu eftir Björgvin Guðmundsson. Segja má að þessi kór hafi flutt flest helstu stórverk hinna klassísku verka fyrir kór og hljómsveit og teljist því brautryðjandi í flutningi slíkra verka á Íslandi.

Starfsemi Tónlistarfélagsins var ekki alltaf auðveld. Í fyrstu var félagið til húsa í Hljómskálanum, sem var óhentug bygging með tilliti til kennslu, á sama tíma og önnur starfsemi fór fram í húsinu. Þá var gripið til þess ráðs að fá 3 herbergi í Þjóðleikhúsinu sem þá var í byggingu. Félagið notaði þó nokkurt fé til að innrétta þau herbergi. Nú var í fyrsta sinni sæmileg aðstaða til æfinga og kennslu. Í upphafi stríðsins var Þjóðleikhúsið ein af fyrstu byggingunum sem breska herliðið lagði hald á, og þar með aðstöðu Tónlistarfélagsins og allar fjárfestingar þess. Eina húsnæðið sem hægt var að fá aðgang að til tónleikahalds í Reykjavík voru kvikmyndahús og olli því að oft voru haldnir tónleikar seint á kvöldin að loknum kvikmyndasýningum, sem var afar óhentugt. Vegna þessa hófst um 1940 sú umræða af alvöru að Tónlistarfélagið hæfi byggingu tónlistarhallar í Reykjavík. Skal það nú rakið stuttlega.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is