Tónlistarfélagið

Árið 1932 komu saman 12 tónlistaráhugamenn í höfuðborginni og stofnuðu þeir með sér félag sem fékk heitið Tónlistarfélagið. Þeir fengu gælunafnið “postularnir 12”. Í 2. grein laga félagsins, sem samþykkt voru á stofnfundinum, er haldinn var 27. júní 1932, segir m.a.: “Tilgangur félagsins er að efla tónlist hér á landi og vinna að viðgangi hennar. Tilgangi sínum vill félagið ná með því meðal annars, að glæða áhuga almennings fyrir tónlist, stofna til hljómleika og kennslu, og á hvern þann hátt annan sem félagið sér sér fært”.

Þessir áhugasömu menn voru: Óskar Jónsson prentari, Tómas Albertsson prentari, Þórarinn Björnsson póstfulltrúi, Ólafur Þorgrímsson lögfræðingur, Haukur B. Gröndal verslunarmaður, Hálfdán Eiríksson kaupmaður, Stefán Kristinsson bókari, Helgi Lárusson framkvæmdastjóri, Kristján Sigurðsson póstfulltrúi, Sigurður E. Markan verslunarmaður, Björn Jónsson kaupmaður og Ragnar Jónsson forstjóri. Þeir tóku að sér að tryggja rekstur skólans og hljómsveitarinnar.

Enda þótt – þegar þetta er skrifað – Tónlistarfélagið sé að hætta starfsemi sinni vegna breyttra þjóðfélagshátta þá hefur það síðustu 65 árin verið bjargföst driffjöður í íslensku tónlistarlífi. Hefur það í öll þessi ár staðið að, að flutt væri tónlist sem spannaði frá einföldu íslensku ættjarðarlagi upp í helstu kór- og hljómsveitarverk tónbókmenntanna bæði af heimamönnum jafnt og þekktum flytjendum úr mörgum heimsálfum, auk reksturs sjálfs skólans.

Áðurnefndir menn tóku af skarið og tóku að sér rekstur Hljómsveitar Reykjavíkur og Tónlistarskólans þegar hann var að komast í þrot. Það gerðu þeir með dálitlum fjárhagslegum styrk frá Reykjavíkurborg og ríkinu. Einnig styrki Ríkisútvarpið Tónlistarskólann með því að kaupa nokkra tónleika á hverjum vetri af skólanum, en að öðru leyti komu tekjur frá félagsmönnum Tónlistarfélagsins og aðgangseyrir af tónleikum.

Til gamans má nefna að á árunum í kringum 1960 var íbúafjöldi Reykjavíkur um 75.000 , og styrktarmeðlimir Tónlistarfélagsins um 1600. Frá stofnun félagsins og fram að þeim tíma höfðu verið haldnir á vegum þess um 600 tónleikar í Reykjavík auk fjölda tónleika víða um land. Á fyrstu 30 starfsárum félagsins höfðu komið til landsins nokkrir þekktustu hljóðfæraleikarar og söngvarar hins vestræna heims og haldið tónleika í Reykjavík. Munu margir þessara erlendu tónlistarmanna hafa komið fyrir áeggjan og milligöngu Jóns Leifs.

Af frægum nöfnum má nefna: Adolf Buch, Rudolf Serkin, Dietrich Fischer-Dieskau, ásamt Gerald Moor, Andrés Segovia, og Isaak Stern. Af frægum söngkonum má nefna Aulikki Rautavara, Hertha Töpper, Betty Allen, Diana Eustrati og Camilla Williams. Þá má nefna kvartetta svo sem Prag- kvartettinn, Smetana- kvartettinn, Komitas- kvartettinn, Julliard- kvartettinn og La Salle strengjakvartettinn. Auk þessa fólks kom stór hópur listamanna bæði frá Sovétríkjunum, Evrópu og Ameríku til að halda tónleika á vegum Tónlistarfélagsins. Er þá ótalið tónleikahald á vegum félagsins, bæði með Hljómsveit Reykjavíkur, Samkór Tónlistarfélagsins, óperu- og óperettusýningar, tónleika á vegum Tríós Tónlistarskólans og ótal margt annað sem félagið stóð fyrir. Enn er ónefndur rekstur kvikmyndahúss, sem átti eftir að gefa félaginu heilmiklar tekjur á komandi árum.

Til baka

 

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is