Tímaritið Útvarpstíðindi

Árið 1938, nokkrum árum eftir að Ríkisútvarpið hóf starfsemi sína, tók einn framkvæmdamaður í Reykjavík, Kristján Friðriksson forstjóri, sig til og hóf að gefa út tímarit undir heitinu Útvarpstíðindi. Markmið hans með þessari útgáfu var að blaðið yrði “að vera hjálpartæki fyrir hlustendurna, tengiliður milli þeirra og útvarpsins, þannig að það gæti kynnt dagskrána eftir föngum fyrir hlustendur”. (87) Til fyrirmyndar hafði Kristján svipuð blöð sem gefin voru út af erlendum útvarpsstöðvum. Útvarpstíðindi urðu einskonar milliliður milli útvarpsins og fólksins í landinu, ekki síst fólksins í dreifbýlinu.

87 Útvarpstíðindi: 11. árg. 1948, bls. 465.
Útvarpstíðindi voru fróðlegt og vandað tímarit á íslenskan mælikvarða og birtust í því fjöldi greina og viðtala. Einstakir starfsmenn útvarpsins voru kynntir, einnig einstakar deildir útvarpsins og sérstakir viðburðir á vegum þess. Tónlistarmenn notuðu sér þetta óspart og birtust nokkrar greinar eftir Jón Þórarinsson og Pál Ísólfsson um tónlistarþætti. Fjölluðu þeir um ákveðin tónskáld og verk þeirra og í nokkrum tilfellum voru birt nótnadæmi með greinum þeirra. Þetta var liður í viðleitni tónlistarmanna útvarpsins í þá átt að kynna þjóðinni hina svokölluðu “æðri” tónlist. Þó fór svo að Kristján gafst upp á þessari útgáfu eftir nokkur ár vegna – að hans sögn – hindrana sem Helgi Hjörvar skrifstofustjóri útvarpsráðs lagði í götu hans með því m.a. að afhenda honum ekki dagskrá útvarpsins fyrr en það var of seint að birta hana í blaðinu. Geymir þetta blað í dag miklar heimildir um starfsemi útvarpsins á tímabilinu 1938 fram um 1950. Kristján seldi að lokum blaðið til Jóns úr Vör og Gunnars M. Magnúss, en svo leið útgáfan smám saman undir lok á 6. áratugnum
Það er leitt til þess að vita, að Tónlistardeild Ríkisútvarpsins hefur ekki séð metnað sinn í því að gefa út slíkt rit svipað og gert er í fjölda útvarpsstöðva um heim allan og virkar það sem menningarlegur tengiliður milli útvarsins og hlustenda. Vil ég í því sambandi t.d. benda á P2 – Musik hjá Danska útvarpinu.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is