Þjóðleikhúsið og óperuflutningur

Nokkrar byggingar á Íslandi eiga sér fræga byggingarsögu fyrir það, hversu langan tíma það hefur tekið að byggja þær. Nýjustu dæmin eru Hallgrímskirkja sem tók 40 ár að byggja, og Þjóðarbókhlaðan sem einnig á sér langa byggingarsögu. Þriðja þessara bygginga er þjóðleikhúsið. Fyrsta hugmynd að Þjóðleikhúsi á Íslandi var sett fram árið 1873 af Indriða Einarssyni leikritaskáldi. Það var þó ekki fyrr en 1925 að Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins hóf að vinna að teikningum að húsinu og árið 1929 var grafið fyrir grunninum. Í fyrstu gekk vel með byggingu hússins og árið 1931 var það orðið fokhelt. Þannig stóð það í 10 ár, að hluta vegna þess að ríkissjóður tók til sín svokallaðan skemmtanaskatt er hafði runnið í byggingarsjóðinn, og auk þess dróst bygging hússins vegna stríðsins. Breski herinn lagði það undir sig á árunum 1941-45. Að stríðinu loknu var byggingu þess haldið áfram og tók Þjóðleikhúsið til starfa á sumardaginn fyrsta árið 1950. Tilkoma þessa húss gjörbreytti öllum aðstæðum til flutnings á hvers kyns verkum, bæði leiknum og sungnum fyrir þjóðina. Vilhjálmur Þ. Gíslason formaður þjóðleikhúsráðs skrifaði grein í Morgunblaðið um hlutverk Þjóðleikhússins. Þar segir m.a.:

Hlutverk Þjóðleikhússins er markað í stórum dráttum í lögunum um rekstur þess. Það er efling hverskonar leiklistar. Þjóðleikhúsið verður fyrst og fremst leikhús, dramatískt leikhús, þó að væntanlega verði þar einnig fluttir söngleikir og dansleikir. Leiklistin er fjölþætt og fögur list og þarf oft að taka í þjónustu sína eða vinna með öðrum listgreinum, tónlist, danslist, málaralist og vissri byggingarlist.

og síðar í sömu grein skrifar hann:

Íslensk tónskáld ættu einnig að geta fengið verk sín flutt þar, í söng eða á annan hátt. (155)

155 Morgunblaðið: 20. apríl 1950.

Það er greinilegt að menn hafa ekki hugsað Þjóðleikhúsið frá upphafi sem neina tónleikahöll eða sem nýtt tónlistarhús. En þær væntingar manna að í Þjóðleikhúsinu yrðu settar upp allar tegundir sviðsverka, þar á meðal óperur og söngleikir, krafðist mikils samstarfs við hljóðfæraleikara og tónlistarmenn. Það fór einnig svo að strax frá upphafi var Þjóðleikhúsið nýtt til tónlistarflutnings af ýmsu tagi. Aðstandendur nýstofnaðrar Sinfóníuhljómsveitar börðust einnig fyrir því að Þjóðleikhúsið gerðist rekstraraðili að hljómsveitinni .
Allt frá upphafi flutti Þjóðleikhúsið þó nokkrar óperur og óperettur. Leikhúsið fór glæsilega af stað með sýningu á óperunni Rigoletto 3. júní 1951 sem flutt var af íslenskum söngvurum í öllum hlutverkum að einu undanskildu. Söngkonan Else Mühl var fengin frá Austurríki til að syngja hlutverk Gildu. Rigoletto var þó ekki fyrsta óperan sem flutt var í húsinu. Ári áður, nánar tiltekið 12. júní 1950, tók Þjóðleikhúsið á móti listamönnum frá Konunglega leikhúsinu í Stokkhólmi sem fluttu óperuna Brúðkaup Figarós.

Þó svo flutningur þessara ópera marki tímamót í óperuflutningi á Íslandi, voru þær ekki fyrstu óperurnar sem fluttar voru á Íslandi. Í Morgunblaðinu árið 1957 skrifar Jóhann Bernhard grein sem hann kallar “Nokkrar hugleiðingar í tilefni af 20 ára afmæli íslenzkrar óperustarfsemi”. Þar bendir hann á að fyrsta óperan hafi verið flutt í Reykjavík 8. mars 1937 og var það “Systirin frá Prag” eftir Wenzel Müller. Hann bendir einnig á að þessa atburðar hafi verið getið í “Öldinni okkar” sem “fyrstu óperusýningar á Íslandi”. Aðalhlutverkið í þessari sýningu var sungið af Pétri Á. Jónssyni og önnur aðalhlutverk voru sungin af Sigrúnu Magnúsdóttur, Arnóri Halldórssyni, Ragnari T. Árnasyni (útvarpsþul) og Hermanni Guðmundssyni. Söngstjóri var Franz Mixa, leikstjóri Bjarni Guðmundsson (blaðafulltrúi) og þýðandi Björn Franzson. Jóhann Bernhard segir í greininni:

Eins og vænta mátti voru það Tónlistarfélagið og Hljómsveit Reykjavíkur, sem stóðu að þessari fyrstu óperusýningu á Íslandi, en 3 árum áður höfðu þessir sömu aðilar sýnt hér óperettuna “Meyjarskemmuna” og þar með rutt þessari skemmtilegu listgrein braut hér á landi. Er þó rétt að geta þess, að Leikfélag Reykjavíkur gerði ófullkomna tilraun til óperettustarfsemi 1932 (“Lagleg stúlka gefins”) eða fyrir réttum 25 árum. (156)

156 Morgunblaðið: 1. nóvember 1957.
Óperuáhugamenn bundu miklar vonir við Þjóðleikhúsið og voru þar fluttar nokkrar óperur á fyrstu árum þess. Leikhúsmenn höfðu áhyggjur af því að slík starfsemi tæki tíma frá leiklistinni og að ekki yrði hægt að leggja rækt við bæði þessi listform sem skyldi. Einnig voru menn smeykir við kostnaðarhliðina, aðallega þjóðleikhússtjóri, Guðlaugur Rósinkranz. En staðreyndin var samt sú að óperusýningar voru geysilega vel sóttar.
Í ræðu Ragnhildar Helgadóttur á Alþingi 30. janúar 1957 vegna þingsályktunartillögu um stofnun 5-10 manna óperuflokks við Þjóðleikhúsið kemur fram að meðalfjöldi gesta á óperusýningar í Þjóðleikhúsinu, sem tók 661 í sæti, hafi verið eftirfarandi: “Rigoletto: 641, Leðurblakan: 567, Auturbotnverjar: 476, La Traviata: 527, I Paliacci: 579, Cavalleria Rusticana: 579 og Káta ekkjan: 653”. Einnig kemur fram í ræðunni að meðalaðsókn á leikritum sýndum í Þjóðleikhúsinu á 5 fyrstu starfsárum þess hafi verið 462 gestir. Söngleikirnir voru því best sóttu sýningar Þjóðleikhússins á þessum árum og var a.m.k. af sumum þeirra verulegur hagnaður. Á fyrstu 7 starfsárum Þjóðleikhússins voru að meðaltali flutt ein ópera eða óperetta á ári (þar af 4 óperur). Að mati tónlistarfólksvar þetta allof lítið. Á sama tíma voru það aðrir aðilar en starfsmenn Þjóðleikhússins er settu á svið óperur. Ég vitna aftur í grein Jóhanns Bernhard:

Eðlilegt er að margir hafi orðið fyrir vonbrigðum yfir þessari alltof hægfara þróun, sem bezt má sjá af því, að árið 1955 léku nokkrir áhugamenn sér að því að sýna hvorki meira né minna en 3 óperur á 6-7 mánaða tímabili – á meðan Þjóðleikhúsið sýndi alls enga! Hefur kveðið svo rammt að þessu að sl. 5 ár hafa samtals 6 aðilar: Leikfélag Reykjavíkur, Tónlistarfélagið, Félag Ísl. einsöngvara, Leikhús Heimdallar, Ríkisútvarpið og Sinfóníuhljómsveitin, fundið hjá sér hvöt til að sinna því hlutverki sem

Þjóðleikhúsið var farið að vanrækja svo mjög, með þeim athyglisverða árangri að færa upp 5 óperur, sem eingöngu voru skipaðar íslenzkum söngkröftum. Er þetta einni óperu fleira en sjálft Þjóðleikhúsið flutti á sama tíma! (157)

157 Morgunblaðið: 5. nóvember 1957.

Á fimmta áratugnum átti Ísland orðið á að skipa nokkuð stórum hópi fólks er hafið verið í söngnámi, bæði á Íslandi og erlendis, og hafði orðið þó nokkra reynslu af óperuflutningi. Það voru ekki mörg tækifæri sem þetta fólk fékk til þess að vinna að list sinni hér heima.
Þörfin var mikil og áhuginn ódrepandi meðal óperuáhugafólks í landinu, en óperumálin komust þó ekki í “viðunandi” horf fyrr en stofnuð var Íslenska óperan árið 1981.
Árið 1974 var fyrsta alíslenska óperan í fullri lengd frumflutt. Það er Þrymskviða eftir Jón Ásgeirsson tónskáld og var hún flutt af atvinnufólki, bæði söngvurum og hljóðfæraleikurum. Þó gerðist það miklu fyrr, eða í mars 1964, að Þrymskviða var flutt í óperubúningi á árshátíð Kennaraskólans. Var hún flutt af nemendum skólans og var tónlistin þá einnig eftir Jón Ásgeirsson. Dansa hafði samið Sigríður Valgeirsdóttir og stjórnaði hún einnig sviðsetningu. Ólafur H. Jóhannsson fór með hlutverk Þórs og Hákon Óskarsson með hlutverk Þryms. Til aðstoðar einsöngvurum og kór var 9 manna hljómsveit, sem Jón Ásgeirsson stjórnaði.
Áhugi á að semja óperu á Íslandi hefur blundað með tónskáldum í mörg ár. Hinn fyrsti íslenski óperutexti – eftir því sem komist verður næst –var saminn af Guðmundi Daníelssyni árið 1952. Það var tónskáldið Árni Björnsson er óskaði eftir þessum texta frá Guðmundi. Hét textinn “Gunnlaugur Ormstunga” var sóttur, eins og nafnið bendir til, í Gunnlaugs sögu Ormstungu. Ekki mun Árni nokkru sinni hafa skrifað tónlistina við þennan texta. Einnig finnst í handriti óperan Sigurður Fáfnisbani eftir Sigurð Þórðarson við texta Jakob Jóh. Smára. Þessi ópera hefur enn ekki verið flutt. Þá er til óperutexti eftir Einar Benediktsson sem tónskáldið Sveinbjörns Sveinbjörnsson var byrjaður að semja tónlist við. Sum þessara handrita eru varðveitt í Handritadeild Landsbókasafns Íslands.

 

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is