Þjóðkórinn og lagakeppnin

“Takið undir” vil ég ekki missa fyrir nokkurn mun. Sá þáttur þykir mér skemmtilegastur af öllu, sem ég heyri í útvarpinu,” sagði bóndi einn á Vesturlandi. “Páll er óviðjafnanlegur,” bætti hann við. (92)

Hugmynd um stofnun eins konar þjóðkórs hafði lengi legið í loftinu í útvarpinu. Hún varð að veruleika árið 1940 og fékk lið í útvarpsdagskránni undir heitinu “Takið undir”. Hinn glaðbeitti Páll Ísólfsson var í essinu sínu þegar hann stjórnaði átta manna hóp í útvarpinu, ásamt útvarpstríóinu. Í hópnum voru, auk Páls, Elísabet Einarsdóttir, Hermann Guðmundsson, Nína Sveinsdóttir, Guðrún Ágústsdóttir, Guðmundur Símonarson, Lára Magnúsdóttir, Gísli Guðmundsson, Sigrún Gísladóttir og Ingibjörg Jónasdóttir – allt þaulvant kór- og söngfólk. Hugmyndin með kórnum var sú að söngfólk þetta syngi í útvarpssal og fólk við útvarpið heima hjá sér tæki svo undir í söngnum. Þátturinn naut geysilegra vinsælda, ekki síst vegna vinsælda Páls Ísólfssonar meðal þjóðarinnar. Ekki höfðu öll heimili á þessum árum útvarpstæki, en menn gerðu sér – ekki ólíkt og þegar sjónvarpið hófst tæpum 30 árum síðar – ferð á hendur til nágrannans til að heyra í útvarpinu. Í einu af mörgum hundraða bréfa til kórsins árið 1941 segir m.a.:

Herra Páll Ísólfsson!

Ég undirritaður hefi nokkrum sinnum brugðið mér til næsta bæjar til að hlusta á útvarp, þegar “Þjóðkórinn” hefur sungið….

92 Vikan, nr. 37, 1941.

Það er ljóst að margt fólk hefur lagt heilmikið á sig, ekki síst úti á landsbyggðinni, til að fá að hlusta á kórinn syngja og einnig taka þátt í söngnum. Ekki er það heldur neitt einsdæmi til sveita að menn vetrarlangt, berjist í verstu veðrum, í gegnum snjó og myrkur, jafnvel tugi kílómetra leið, til að mæta á kóræfingar. Slíkur hefur áhuginn fyrir kórsöng á Íslandi verið um langan aldur. Þegar leið á, kom Páll fram með þá hugmynd að gaman væri að efna til samkeppni meðal þjóðarinnar um það hver kynni flest lögin og ljóðin utanað. Útvarpstíðindi birtu grein um málið og kom þar nánar fram hvað fyrir Páli vakti með þessari hugmynd. Fólk fékk nokkurra mánaða frest til þess að rifja upp gömul lög og einnig læra ný lög til að taka þátt í keppninni.

Alltaf finnur Páll upp á einhverju nýju” varð einhverjum að orði er söngstjóri Þjóðkórsins, Páll Ísólfsson tilkynnti í útvarpinu að ” útvarpið heitir þeim eitt þúsund kr. verðlaunum, sem kann flest lög og þeim, sem kann næstflest, fimm hundruð krónur. Til greina koma öll lög, innlend sem erlend, og verða menn að kunna a.m.k. eitt erindi við hvert lag. Tónlistarmenn fá ekki að taka þátt í samkeppninni og tónskáld mega ekki telja fram sín eigin lög. Gert er ráð fyrir, að fólk sendi útvarpinu lista yfir þau lög, sem það kann, og hafi þeir borizt okkur í hendur fyrir 1. september næstkomandi. – Fresturinn er hafður svona langur til þess að mönnum gefist tóm til að læra nokkur hundruð lög í viðbót. …Þegar dómnefnd hefur farið yfir listana, verð þeir prófaðir, sem flest lögin nefna, en ekki viljum við segja fyrirfram hvernig við förum að því, eða eftir hvaða reglum verður dæmt, frá því verðu öllu sagt á eftir. Þessu máli höldum við svo vakandi í söngtímum okkar með Þjóðkórnum. (93)

Mikill áhugi varð strax á samkeppninni á meðal hlustenda og rigndi inn fyrirspurnum um fyrirkomulagið. Einnig komu ýmis einlæg bréf með sjálfum listunum sem skilað var inn í ýmsum formum, allt frá litlum bréfmiðum upp í nákvæma – allt að því vísindalega – úttekt á hverju lagi. Sem dæmi um bréf sem fylgdu með vil ég vitna hér í nokkur þeirra: (94)

…ég hef rifjað upp þau fáu lög, sem ég álít, að ég kunni. Þó að ég geri ráð fyrir að ég vinni ekki neitt með þessu, hef ég gaman af að láta yður sjá, hvað við alþýðukonurnar getum á þessu sviði.

Frá Emilíu Friðriksdóttur, Halldórsstöðum í Þingeyjarsýslu.

…nú er ég að hugsa um að senda þetta lagasafn mitt, þó ég viti, að það hefur ekki mikla þýðingu fyrir mig. Ég er nærri sjötíu og tveggja ára, og hef aldrei átt heima þar sem hljóðfæri hefur verið, en notað mér að læra þessi lög af hinum og þessum ,sem ég hef hitt á lífsleiðinni.

Frá: Önnu Benediktsdóttur, Köldukinn, Þingeyjarsýslu, sem sendi á níunda hundruð lög.

…Þegar þér á sínum tíma efnduð til sönglagasamkeppninnar, var það til þess að ég fór að skrifa upp þau lög, sem ég kunni, án þess þó, að ég hefði í huga að taka þátt í samkeppninni; fyrst og fremst gerði ég þetta að gamni mínu, og það er skemmst frá að segja, að ég hef haft óblandna ánægju af því…Lagakunnátta mín er öll eftir eyranu, og þótt ég hafi mikla ánægju af ljóðum, þá hef ég þó enn meira yndi af tónlistinni.

Jón Tryggvarson, Finnstungu, Húnavatnssýslu

Á barnsaldri var hún [frú Helga] samtíða frænda sínum einum, sem var tónglöggur og eitthvað tónfróður, svo að hann gat spilað lög fyrir á fiðlu, og var mjög nákvæmur um meðferð þeirra. Hinsvegar hefur frú Helga aldrei lært að spila né þekkja nótur, né hefur hún átt eða haft hljóðfæri á heimili sínu. Öll eru þessi lög lærð eftir eyra eingöngu, og öll minnisfest áður en þér efnduð til keppni þessarar, flest löngu áður. Frú Helgu hefur skilizt, að niðurstöður keppninnar mundu ekki miðast við lagafjöldann einan, heldur annað jafnframt.Það liggur í augum að að öldruð kona og annrík, sem hvorki á né spilar á hljóðfæri, getur ekki keppt um lagafjölda við spilandi fólk og tónfrótt sem hefur fengið 2-3 missera svigrúm til að kapplæra ný lög. Í þessu sambandi vil ég geta þess, að kunnugt er mér um konu eina í þessari byggð alls ómenntaða um alla tóntækni, sem eftir keppni -tilkynninguna fór af miklum áhuga að skrifa upp lög þau sem hún kann; var hún komin hátt á fimmta hundrað (fyrir utan það að hún kunni í lögum þessum milliraddir svo hundruðum skipti), þegar hún frétti, að einn organisti héraðsins væri að príla sig upp eftir 2. þúsundinu, og hætt þá. Sjálfsagt er það miður farið, að fólk eins og þessi kona gefi sig frá keppninni. Hið statistiska gildi í þessarar keppni-rannsóknar minnkar, þegar keppendum fækkar. En auk þess virðist svo, að dæmalaust texta og lagakunnátta, söngnæmi og sönggleði þessarar söngfræðilega ómenntuðu alþýðu beggja megin síðustu aldamóta, sé aðal- “ævintýrið”, sem segja þurfi.

Úr bréfi sem fylgdi með lista Helgu Þorgrímsdóttur frá Hlöðum.

93 Útvarpstíðindi: 6. árg. 14. hefti, 19. mars-1. apríl 1944.
94 Þessi bréf er að finna í Þjóðskjalasafni.

 
Einn lista ber þó að nefna sem ber af öðrum hvað varðar nákvæmar upplýsingar og allt að því vísindalega úttekt á lagakunnáttunni, sem sendur var inn af Steindóri Björnssyni frá Gröf, miklum stórstúku- og ungmennafélagsmanni alla tíð. Listi hans var mjög nákvæmlega unninn og vel frá genginn í alla staði; getið var heimilda og höfunda bæði að lögum og tekstum. En Steindór var líka mikill “19. aldar maður” í viðhorfum sínum til tónlistarinnar og vildi hann viðhalda – ekki ólíkt Björgvini Guðmundssyni og fleirum – “aldamóta –sönghefðinni þar sem hið þjóðlega bar að virða, bæði í tónlist og texta. Birti ég hér til gamans brot úr 35 síðna bréfi, sem hann sendi með lagalista sínum til Páls Ísólfssonar, sem dæmi um hugsanagang aldamótakynslóðarinnar gagnvart sönghefðinni og þeim áhrifum sem nýir tímar höfðu á söng og söngstílinn:

Fyrir ca. 48-54 árum, þegar ég var barn, – (og áratugum og hundruðum þar áður) – tíðkaðist það enn þá að naut (þ.e. graðneyti, bolar) vor látin gánga laus með kúnum á sumrin úti um hagana. Bithagar voru ógirtir (og jafnvel flest tún og engjar líka) og lentu því kýr frá ýmsum bæjum saman, þar sem þær líka rásuðu oft lángar leiðir. Og þegar þær svo skildu á kvöldin, eða voru skildar að, og fóru heim til sín, lentu bolarnir oftar með öðrum kúm en sínum. Þar var þeim svo úthýst og þeir hraktir á burt, oft á ófagran og ótugtarlegan hátt. Fór þá oft svo, að þeir komust lengra og lengra afvega. En þótt þeim væri beint heim, voru þeir nú einir og röltu í næturkyrrðinni (eða – myrkrinu seinni hluta sumars). Þeim leiddist nú og kom í þá hálfgerð illska, jafnvel þótt þeir væru ekki mannýgir, en það voru þeir mjög oft eða urðu það – meðal annars af þessari meðferð. Nú löbbuðu þeir, fúlir í skapi,  með hausinn hangandi niður við jörð og slefan vellandi út á milli grananna, og rauluðu ónot sín, leiðindi og reiði með sinni bola – röddu: Þeir gengu bölvandi, en ekki hávært; það var engu líkara en að þeir slefuðu tónunum út úr sér, tónum, sem voru aftur í koki og úti í gúlnum – á nauta vísu. Það var gaul, ömurlegt, óhugðarlegt gaul. Þegar ég heyrði Svein [Þorkelsson] minn syngja eftir að hann kom utan af skólanum, kom mér fyrst í hug aftur þessi löngu liðna bernskuminning, og hvert sinn síðan, er ég hef heyrt þennan nýmóðins söng, hverjir sem söngvararnir hafa verið, sem kennt hefur verið að beita rödd og tungu á þennan “tudda”-lega hátt. Síðan kom mér það í hug, er ég heyrði til Guðm. Jónssonar, og þó er þetta ekki á háu stigi hjá honum, getur eiginlega ekki heitið nema aðkenning, samanborið við það lakasta.

Þannig er þetta á mjög mismunandi stigi hjá hverjum einum, eins og getur að skilja. Allt of algengt er það samt hjá söngvurum nútímans hér, að tóna- og orða-myndun þeirra í söng líkist því mest að þeir “slefi” hvorutveggja út úr sér – eins og tuddarnir forðum. Þetta hlýtur að vera ávöxtur einhverrar skóla – stefnu, sem nú er – og hefur um hríð verið uppi, og bindur sig við einhvern –”isma”, heldur sig við það, sem er tilgerð, sem er falskt, óekta, – fjarri því náttúrlega, eðlilega. En allt, sem er falskt, óekta, óeðlilegt og ónáttúrlegt er lítils virði á við það, sem er hreint, ekta, eðlilegt og náttúrlegt. Eru þá allir söngskólar nú á þessari “heljarslóð”? Vonandi og vafalaust ekki, sem betur fer. Þau, sem ég nefndi fyrst, Pétur [Á. Jónsson], Signe [Liljequist], Dóra [Sigurðsson], Einar [Kristjánsson] o.fl. benda til annarar stefnu. Og hér heima hef ég árlega hlustað á nemendur Þórðar Kristleifssonar síðastliðin 12-14 ár. Þar þykist ég heyra eðlilega raddbeitingu og hreinan málframburð. Þórður virðist líka hafa eyru fyrir hljómkröfum íslenskrar tungu og bera virðingu fyrir meðferð málsins, eða svo virðist það eftir nemendum hans að dæma.

Hvernig stendur þá á þessu? Hvers vegna er það “móðins” að misþyrma þannig málum og afbaka stafahljóð og fella suma stafi burtu í söng, svo og að færa frumbrotstaði tónanna aftur í kokið og svo í gúlinn – eins og flökkutuddarnir gerðu? Jú, mig grunar að til grundvallar liggi það sama og veldur því, að nú skal kalla þá myndhöggvara, sem hnoðað geta saman einhverjum ónáttúrlegum klessu – og horna – ómyndum, er mest líkjast því, sem við krakkar gerðum úr snjó og mykjuhlössum (samanber t.d. myndir Ásm. Sveinss. o.fl. sviplíkt) og þá málara sem klesst geta á léreftið, ófreskjum svo óeðlilegum og ljótum, sem mest má verða -–, þegar þá á þeim sést nokkurt form, en það er oft ekki til – , að mestu líkist þeim afskræmum, er við sem smákrakkar bjuggum til og kölluðum “Grýlu”, “Leppalúða” eða öðrum slíkum nöfnum þess, sem á hug okkar átti að vera ljótt og engu mennsku líkt (sbr. mannamyndir Þorvalds Skúlasonar, Gunnlaugs Schevings – sjá nú t.d. síðasta hefti, 1944, af tímariti Máls og Menningar -– o.fl.). Og mönnum, sem þó gátu gert betur, – eins og t.d. Jón Þorleifss. o.fl. – þykir sjálfsagt að fara á slíka “línu” af því að það er nú talið fínt, móðins. Sjálfstæðið er ekki háreist, en apahátturinn ríkur.

Mér virðist söngurinn hallast, á fyr greindum sviðum, að þeirri óeðlis-“línu”, sem (bölvaður) jassinn dansar á, og einnig virðist mér, að samhljómarnir á hinum nýjustu raddsetningum fyrir fleirraddaðan söng, sækja af mjög í sömu átt. En eins og allir hljóta að heyra, er “jass-vélaverkið – allt saman falskt, frá upphafi til enda (þótt auðvitað sé misjafnlega mikið), og andlaust með öllu.

Það er hin andlega tilbreytinga-græðgi og skrall-girni, hins auðuga mannfélgassora, sem hleypt hefur óþverragerjuninni – jassinum – í hljóðfærasláttinn og er að lauma henni inn í sönginn. Það er sama aldan, sem sett hefur af stað óþverra og ófresku-stefnurnar í málaralistina og höggmyndalistina; það er sama aldan, sem fært hefur húsagerðarlistina í hinn herfilega umbúðakassa – og “hornamóesis” – stíl og breytir sögu- og ljóðagerðar- listinni í klám og lýsingar á öllu því ljótasta og viðbjóðslegasta sem til kanna að finnast, en treður hið fagra og góða í skítnum. Það er sama aflið, sem elur á eiturnautnaframleislunni og – notkuninni og heldur öllu þessi í gangi með beinum, en þó mest óbeinum málum. Það er hið sótsvarta, altilfinningarlausa peningavald heimsins, sem stendur beint og óbeint á bak við allar þessar aðgerðir (svo og öll stríð og blóðsúthellingar heimsins) og ærir fólkið til þess að geta haft sem mest fé út úr því og af því í sína botnlausu hít. Með því að gera hið æsandi, deyfandi, spennandi og ögrandi, hið ljóta og viðbjóðslega “móðins” og “fínt” þá er því sigurinn vís, því “hvað höfðingjarnir hafast að hinir meina sér leyfist það,” og fylgja í kjölfarið til þess að geta talist “menn með mönnum. (95)

95 Úr bréfi Steindórs Björnssonar frá Gröf til “Tónlistarstjórnar Ríkisútvarpsins”. Maí 1943.

Steindóri er mikið niðri fyrir og er hann miður sín yfir þeim áhrifum sem voru að berast til landsins, bæði vegna stríðsins og ekki síst vegna útvarpsins. Æskulýðurinn var í stórhættu. Eins og lesa má út úr þessum bréfum, tók fólk þessari keppni af mikill alvöru. Fyrir sumum voru menn að leggja undir heiður sinn og æru. En – eins og bent hefur verið á áður – er hin íslenska þjóð um árhundraðaskeið alin upp í sönghefð og ljóðakunnáttu og því kannski engin furða þótt margt bráðmúsíkalskt fólk hafi haft á takteinum hundruð laga sem það gat gripið til, mörg þeirra jafnvel í fleiri röddum. Íslendingar fengu aldrei tækifæri til að sýna sitt músíkalitet á annan hátt en í söng.
Til útvarpsins bárust að lokum 30 listar og voru á sjö þeirra yfir eitt þúsund lög. Tveir lengstu listarnir geyma 1300 lög, og sá stysti hefur að geymir 309 lög. Eftirfarandi einstaklingar sendu inn 1000 lög eða fleiri:
1    Björg Björnsdóttir, Lóni Kelduhverfi, Norður Þingeyjarsýslu. 1.300
2    Friðrik Hjartar, skólastjóri, Akranesi. 1300
3    Ragnar Helgason, Valþjófsstað, Norður-Þingeyjasýslu. 1.145
4    Estrid Falberg – Brekkan , Seljavegi 29, Rvík. 1.010
5    Sólveig Stefánsdóttir, Vogum, Suður Þingeyjarsýslu. 1.000
6    Sólveig Halblaub, Dalvík, Eyjafjarðarsýslu. 1.000
7    Ingólfur Sigurgeirsson, Vallholti, Suður Þingeyjasýslu. 1.000

Nú var gengið hratt til verks. Tveir efstu keppendurnir, sem höfðu sent inn flest lögin, voru látnir mæta fyrir dómnefnd. Friðrik Hjartar mætti til Reykjavíkur og var hann spurður spjörunum úr í nokkra daga og stóðst hann svo að segja allar þrautirnar. Til Akureyrar mætti svo Björg Björnsdóttir þar sem hún var prófuð í fjóra daga og gat hún svarað öllum spurningum hiklaust og varð hún því sigurvegari keppninnar.
Að lokum vil ég vitna í viðtal við Pál Ísólfsson sem birtist í Útvarpstíðindum árið 1947 þegar hann hætti þessum þætti eftir 6 ára starf með útvarpskórnum. Hann rifjar þar upp upphaf og tilgang þáttarins “Takið undir”.

Þegar ég í stríðsbyrjun hóf þáttinn “Takið undir”, vakti það fyrir mér, að varðveita þyrfti öll þjóðleg verðmæti, það á meðal ættjarðarljóðin. Hætt var á, að hin erlendu áhrif yrðu mjög mikil, einkum á æskulýðinn. Þess vegna, og aðeins þess vegna var þessi þáttur hafinn í útvarpinu, á þeim alvörutímum, sem þá stóð yfir á Íslandi. Mér finnst nú, að æskan og allur almenningur í landinu hafa staðið sig vel, og betur en vænta mátti. Og þó mikið hafi verið talað um “ástand” í ýmsum efnum, þá hefur það víst sízt verið betra í öðrum löndum en hér. Og mér finnst við hafa sloppið tiltölulega vel. Ég hef þá trú, að söngþátturinn okkar hafi haft góð og heillarík áhrif, og vakið marga til umhugsunar um, hvað þeir áttu dýrast og að varðveita ætti hin þjóðlegu verðmæti.
Glettni Páls er ekki langt undan og með orðinu “ástand” vísar hann til þess að kallað væri að konur sem voru í tygjum við hermenn þá sem voru í landinu “væru í ástandinu”. Fengu margar þeirra kvenna bágt fyrir að ósekju. Menn hafa kannski talið að þeir væru einnig að bjarga “þjóðlegum verðmætum” með því að koma í veg fyrir umgengni ungra íslenskra stúlkna við erlenda menn.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is