Strokkvartettinn Fjarkinn

Hinn kvartettinn sem hér um ræðir hét Strokkvartettinn Fjarkinn, stofnaður í maí 1948 af Þorvaldi Steingrímssyni 1. fiðlu, Óskari I. Cortes 2. fiðlu, Sveini Ólafssyni víólu og Jóhannesi Eggertssyni á celló. Kvartettinn lék m.a. inn á nokkrar plötur, samkvæmt Fjarka – bók. Kom hann fram 10 sinnum opinberlega á árinu 1948 og hélt m.a. konsert í Háskóla Íslands, með Rögnvaldi Sigurjónssyni í maí 1949. Fjallað var um þessa tónleika í dagblöðunum og lesa má lesa eftirfarandi í Vísi:

Samleikurinn var mjög góður, og strengjakvartettinn vakti athygli fyrir samþjálfaðan leik. Hann hefir leikið í útvarpið og er sennilega nýstofnaður, þótt þess gæti furðu lítið, enda eru strengleikararnir allir mjög vel þjálfaðir. Er þess að vænta að þessum efnilega kvartett verði langra lífdaga auðið, og getur hann orðið styrkur þáttur í íslensku músíklífi. (66)

Kvartettinn hélt áfram að æfa fram í febrúar 1950, en um það leyti var Sinfóníuhljómsveitin stofnuð. Ekki eru skráðar æfingar í bókina aftur fyrr en 29. ágúst 1951 og voru þá aðeins haldnar tvær æfingar. Næst eru skráðar 11 æfingar árið 1956 og virðist þá þessu kvartettspili lokið af hálfu “Fjarkanna”.

66 Vísir: 10. maí 1949.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is