Stofnun Tónskáldafélags Íslands

Árið 1945, miðvikudaginn 25. júlí komu saman í aðalskrifstofu Ríkisútvarpsins, til þess að ræða um stofnun tónskáldafélags Íslands eftirtaldir menn: Jón Leifs, Páll Ísólfsson, Sigurður Þórðarson, Karl O. Runólfsson og Helgi Pálsson. Frumkvæðið að fundi þessum átti Jón Leifs. Hafði hann reynt að koma boðum um fund þennan til allra þeirra er við tónsmíðar fást og félagar eru í Félagi íslenskra tónlistarmanna allra en vegna fjarveru og annarra forfalla gátu ekki fleiri mætt á fundinum en ofan greinir. Félagið var stofnað á fundinum og nefnt Tónskáldafélag Íslands. Tilgangur þess er meðal annars, að gæta hagsmuna íslenskra tónskálda. Félagar geta öll þau tónskáld orðið, sem eru meðlimir í Félagi íslenskra tónlistarmanna. (104)

104 Fyrsta gerðabók Tónskáldafélags Íslands 1945-51, bls. 1.
Hér var um sögulegan fund að ræða. Það var hér sem Jón Leifs kom fullur orku inn í íslenskt tónlistarlíf. Hann átti eftir – í nafni þessa félags – og einnig síðar STEFs – en þetta eru félög sem hann gegndi formennsku í – að berjast með kjafti og klóm í orðsins fyllstu merkingu fyrir réttindamálum íslenskra tónskálda, bæði á innlendum og á alþjóðlegum vettvangi. Starf hans á vegum þessara félaga átti eftir að kosta átök og stríð þar sem vopnin sem beitt var, voru stór orð og áttu í nokkrum tilfellum eftir að kosta vinslit og vonbrigði. En það sem hann hefur unnið að í sambandi við félagsmál og höfundarréttarmál er óumdeilanlegt þrekvirki frá hendi eins manns á Íslandi, á Norðurlöndum og í sumum tilvikum á alþjóðlegu sviði. Það skal tekið fram að í málefnum STEFs var annar kappi, Sigurður Reynir Pétursson lögfræðingur, er hafði numið lögfræði í London með sérstaka áherslu á höfundarréttarmál.
Á þessum fundi lagði Jón Leifs fram frumvarp að lögum fyrir félagið sem voru undirrituð og samþykkt af öllum fundarmönnum. Páll Ísólfsson var kosinn formaður að tillögu Jóns Leifs og Sigurðar Þórðarsonar, en Hallgrímur Helgason, sem ekki var á fundinum, ritari og Helgi Pálsson gjaldkeri. Á fyrsta fundinum var samþykkt að bjóða Árna Björnssyni, Árna Thorsteinsson og Hallgrími Helgasyni að gerast meðlimir í félaginu.
Rúmt ár líður frá aðalfundi þar til næsta fundargerð er rituð, sem einnig var haldinn í Ríkisútvarpinu, 18. október 1946. Þá var Tónskáldafélagið þegar farið að berjast fyrir réttindum félagsmanna sinna og og hafði í því sambandi sent Menntamálaráði Íslands svohljóðandi bréf:

Tónskáldafélag Íslands leyfir sér hér með að senda Menntamálaráði íslands lög félagsins ásamt nöfnum félagsmanna og vill um leið virðingarfyllst vekja eftirtektir ráðsins á kjörum íslenzkra tónskálda. Fyrst er þess að geta, að lagavernd íslenzkra tónverka er bæði á Íslandi og erlendis ófullkomnari en í flestum ef ekki öllum öðrum löndum og möguleikar til flutnings tónverka á Íslandi minni en annarsstaðar, en gjöld fyrir flutning tónverka er aðaltekjur tónskálda. Erfið tónverk færa erlendis jafnvel þarlendum höfundum tiltölulegar litlar tekjur, og þær venjulega þeim mun minni, sem verkin eru veigameiri. Hæstu árslaun tónskálda á íslandi hrökkva nú tæplega til óhjákvæmilegrar afritunar eins meiri háttar tónverks ásamt raddheftum, en til flutnings þarf oft í fyrsta sinn allskonar fjölritun, þó að ekki sé hugsað um að prenta verkin. Ef tillit er tekið til sölumöguleika skáldsagana, virðist sízt viðeigandi að laun tónskálda séu lægri en laun rithöfunda. Þar sem laun leikara eru ekki veitt af fé til bókmennta eða rithöfunda, virðist heldur ekki réttmætt að launum túlkandi tónlistarmanna sé úthlutað af sömu upphæð og til tónskálda. Tónskáldafélag Íslands leyfir sér því að fara þess á leit, að Menntamálaráð ákveði við næstu úthlutun sérstaka upphæð til tónskálda eingöngu og aðrar upphæð til afritunar, fjölritunar eða prentunar tónverka. (105)

Á fundi Tónskáldafélagsins í janúar 1947 átti Jón Leifs tillögu þess efnis að:

Ríkisútvarpið hefði starfandi dagskrárnefnd til þess að skipuleggja tónlistarflutning útvarpsins og hafa eftirlit með vali verka. Ennig var rædd tillaga þess efnis að gera samning við Ríkisútvarpið um útbreiðslu íslenskra tónverka á plötum með því að beita sér fyrir upptöku þeirra og dreifingu. (106)

105 Bréf dagsett í júlí 1945. Birtist sem grein í Vísi 8. október 1946.
106 Önnur fundargerð Tónskáldafélags Íslands: 6. janúar 1947.

Ef Jón Leifs hefði haft einhverja hugmynd um hverju hann var að koma af stað með þessum tillögum sínum, þá mætti efast um að hann hefði fylgt þeim eftir. (107) Sú barátta sem hann átti eftir að heyja fyrir réttindum íslenskra tónskálda og flutningi á verkum þeirra var nánast ofurmannleg.
Í upphafi árs 1948 héldu meðlimir Tónskáldafélagsins fund til undirbúnings stofnunar innheimtustofnunar Tónskáldafélagsins, STEFs ásamt því að lagt var fram uppkast að lögum um Tónskáldafélagið er leggja skyldi fyrir næsta aðalfund. Í lok janúar 1948 var síðan haldinn aðalfundur Tónskáldafélagsins þar sem samþykkt var annars vegar uppkast að nýjum lögum félagsins, ásamt reglugerðaruppkasti fyrir STEF. Þá var Jón Leifs kosinn formaður Tónskáldafélagsins og þar með líka STEF’s þar eð þessi félög höfðu sameiginlega stjórn. Jón Leifs gegndi formennsku í þessum tveimur félögum nánast samfellt til æviloka.
Markvisst var unnið að því að því að koma ýmsum baráttumálum í höfn. Fundir voru haldnir vikulega. En það voru ekki aðeins baráttumál tónskáldanna sem voru efst á baugi, heldur var tekin afstaða til ýmissa mála varðandi listir almennt. Sem dæmi má nefna að á fundi 7. febrúar 1948 var samþykkt tillaga frá Jóni Leifs sem áskorun til Alþingis:

Stjórn Tónskáldafélags Íslandi leyfir sér að skora á Alþingi að sjá svo um að Ísland gerist sem fyrst aðili í UNESCO, menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna og að athugað verði jafnframt að bjóða UNESCO að reist á Íslandi útvarpsstöð sem heyrist um víða veröld til þess að útbreiða menningarhugsjónir Sameinuðu Þjóðanna og allskonar þekkingu í listum og vísindum. (108)
Á næstu fundum voru ýmis mál tekin til umfjöllunar í þágu tónlistar og tónlistarmanna í landinu almennt. Sem dæmi má nefna eftirfarandi:

1. Skrifa til Grove forlagsins viðvíkjandi útkomu tónlistarritsins”Music and Musicians”.

2. Áskorun til ríkisstjórnar Dana og Ríkisþings að hlutast til um að Íslendingum verði þegar afhent öll gömul íslensk handrit sem til eru í dönskum söfnum.

3. Áskorun til Wilhelm Hansen forlagsins í Kaupmannahöfn að forlagið afsali sér útgáfurétti sínum á íslenska þjóðsöngnum til íslenskra aðila.

4. Áskorun til utanríkismálaráðuneytis að gangast fyrir því við sendiherra sína og ræðismenn erlendis, að halda íslenska hljómleika á heimilum sínum eða annarstaðar, og bjóða til þeirra erlendum sérfræðingum og áhugamönnum.

5. Vinna að því að koma útgáfurétti á íslenskum verkum erlendis til Íslands. Sótt
um gjaldeyrisheimild fyrir pappír til ljósritunar á verkum höfunda.

6. Samningar STEF’s við Ríkisútvarpið um greiðslu fyrir flutning á íslenskum verkum í útvarpinu.

7. Áskorun til Ríkisútvarpsins að auka flutning á íslenskri tónlist í útvarpinu og að útvarpið hljóðriti íslenska tónlist á plötur.

8. Sjá um samskipti við erlend tónskáldafélög og vinna að því að koma íslenskum tónverkum á erlendar tónlistarhátíðir – aðallega norrænar.

9. Gerast aðilar að alþjóðlegum tónlistarsamtökum.

10. Fara þess á leit við Fjárveitingarnefnd Alþingis að tekin verði upp á fjárlögum fjárveiting íslenskra sendiráða erlendis til að halda samkvæmistónleika.

11. Barátta vegna listamannalauna tónlistarmanna.

12. Ganga frá löggildingu STEF’s sem innheimtustofnunar.

107 Enda segir hann í bréfi til Hallgríms Helgasonar dagsett 23. apríl 1954: …störfin fyrir STEF og annan félagsskap hafa verið svo mikil að þau gætu sligað hvern mann. Ég hefði aldrei tekið þau að mér og byrjað allt þetta, ef ég hefði vitað að það myndi kosta mig fimm ein beztu ár minnar æfi….
108 Gerðabók Tónskáldafélagsins: 7. febrúar 1948.
Í þessari upptalningu er aðeins fáein mál nefnd sem Tónskáldafélagið og STEF unnu að. Það var ljóst að byrja þurfti frá grunni og því var mikilvægt að forystumaðurinn væri víðsýnn og fylginn sér í starfi.
Eitt mikilvægt baráttumálum félagsins var að vinna að því að auka hlut íslenskrar tónlistar í útvarpinu. Á fundi í mars 1950 bar Jón Leifs fram eftirfarandi tillögu:

Fundurinn samþykkir að beina því til útvarpsráðs að flytja meira af íslenskri tónlist í dagskrá útvarpsins og reyna að sjá um að ný og ókunn íslenzk tónverk verði endurtekin í útvarpsdagskrá, án þess að langur tími líði á milli.

Tónlistarfulltrúar útvarpsins, Páll Ísólfsson og Jón Þórarinsson, greiddu ekki atkvæði um þessa tillögu þar sem Páll var farinn af fundi og Jón sat hjá. Nú fór staðan milli hinna tveggja fylkinga innan Tónskáldafélagsins að taka á sig ákveðnari mynd. Það var greinilegt að Páll Ísólfsson og Jón Þórarinsson, með Útvarpið á bak við sig (og Tónlistarfélagið), mynduðu einn hóp, og Jón Leifs annan með marga félaga í Tónskáldafélaginu að bakhjarli. Þó fór svo á aðalfundinum í apríl 1950 að uppstokkun varð í stjórn félagsins við það að bæði Páll Ísólfsson var kosinn formaður Tónskáldafélagsins og Jón Þórarinsson var kosinn formaður STEF’s.

Háværar raddir voru komnar fram opinberlega að Jón Leifs væri nasisti og hefði unnið með þeim, og var það óspart notað gegn honum. Verst var í þeim efnum að þáverandi stjórn Tónskáldafélagsins eða hluti hennar var einnig á þeirri skoðun, þrátt fyrir eftirfarandi samþykkt á stjórnarfundi 13. nóv. 1950:

Hér með vill stjórn Tónskáldafélags Íslands votta samkvæmt ósk hr. tónskálds Jóns Leifs að stjórninni er ekki kunnugt um að Jón Leifs hafi verið nazisti eða á nokkurn hátt í tengslum við þá. Stjórnin styður eindregið þá ósk tónskáldsins að rannsókn þessa máls verði látin fram fara ef ástæða þykir til. (109)

109 Gerðabók Tónskáldafélags Íslands: 13. nóvember 1950.

Undir fundargerðina skrifa Páll Ísólfsson, Skúli Halldórsson og Jón Þórarinsson. Á fundi í október sama ár lagði Jón Leifs fram uppkast að skýrslu um dvöl sína í Þýskalandi og óskaði að hún yrði send ýmsum aðilum til að hreinsa sig af öllum grun. Mjög erfitt var að taka afstöðu til þessa máls enda voru þessar fullyrðingar byggðar á sögusögnum og sem erfitt var að sanna eða afsanna. Niðurstaðan varð sú að meiri hluti stjórnarinnar, þ.e. Páll Ísólfsson og Jón Þórarinsson, sáu ekki að svo stöddu ástæðu til að hafa afskipti af málinu enda var þetta persónulegt mál Jóns Leifs og Tónskáldafélaginu alls ótengt. Hefur Jón Þórarinsson aldrei verið á annarri skoðun en að Jón Leifs hafi verið nasisti, allt fram á þennan dag. (110) Það er því ljóst að bilið sem var að opnast á milli hinna tveggja fylkinga varð breiðara.
Um það bil einu ári eftir að Páll Ísólfsson tók við formennsku í félaginu sló í brýnu milli þessara tveggja fylkinga. Jón Leifs, þáverandi varaformaður, lagði fram greinargerð um stjórn Tónskáldafélagsins, og í framhaldi af því tillögu um vantraustsyfirlýsingu á hendur stjórninni sem Jón taldi ekki vinna skipulega að málefnum félagsins. (111) Þótti stjórn félagsins þessi greinargerð og vantraustsyfirlýsing hið versta frumhlaup af hendi Jóns Leifs og aðeins til þess fallið að skapa sundrungu og efla flokkadrætti innan félagsins. Stjórnarmenn svöruðu til baka með því að gefa í skyn í umsögn sinni um greinargerðina að Jón Leifs hefði reynst óheiðarlegur í fjármálum félagsins. Töldu þeir að fé hefði “runnið” til Jóns á tveimur undanförnum árum. Jón Leifs lagði þá fram fjölritaða greinargerð og skýringar með öllum sínum fjármálum hjá félaginu, og í framhaldi af henni létu Jón Þórarinsson og Páll Ísólfsson bóka “að þeir viðurkenna það óheppilegt orðalag og ekki rétt, þar sem svo er komist að orði í athugasemdum þeirra við “greinargerð” Jóns Leifs í lið VI í athugasemdunum á bls. 11 að til Jóns Leifs hafi “runnið” á rúmum tveim árum samtals um 114.500 kr.” (112) Þetta dæmi er einungis dregið hér fram til að sýna þá spennu sem orðin var í Tónskáldafélagi Íslands árið 1952.
Við frekari skoðun á Greinargerð Jóns Leifs og Athugasemdum (113) Jóns Þórarinssonar og Páls Ísólfssonar kemur í ljós, eins og oft í málflutningi Jóns Leifs, að fullyrðingar hans eru órökstuddar og byggjast óskir hans oft á því hvað æskilegt væri í stað þess hvað mögulegt var miðað við aðstæður á Íslandi á þeim tíma. Má þar t.d. nefna að hann áskar þá útvarpsmenn um að sinna ekki dagskrárskiptum útvarpsins við önnur lönd, sem haldi miklum samskiptum sín á milli á þessu sviði. Í Athugasemdum Jóns Þ. og Páls kemur fram að á Norðurlöndum, og á meginlandinu öllu séu sérstakar útvarpslínur milli útvarpsstöðvanna sem geti flutt efni milli sín án nokkurs tilkostnaðar, og verði ekki nein afbökun né rýrnun á tóngæðum við þennan flutning. Þessari línu var ekki fyrir að fara milli Íslands og Evrópu. Ef af þessu átti að verða á vegum útvarpsins, varð að hljóðrita sérstaklega allt efni og senda í pósti og fylgdi því þá mikill kostnaður.
Í greinargerðinni koma fram ásakanir þess efnis að Jón Þórarinsson ráði því einn hverjar plötur séu teknar upp hjá útvarpinu og fari í herslu og dreifingu hjá Fálkanum. Staðreyndin var sú að Jón Þórarinsson hafði umsjón með upptökum þessum og þá fólst umsjónin aðallega í því að ekki væri verið að taka upp sama efnið með mismunandi flytjendum, og að tæknilega væri rétt staðið að málum. Hvað varðaði Fálkann þá var hann einkafyrirtæki og réðu markaðslögmál þess eingöngu um hverjar upptökur það keypti af útvarpinu til dreifingar og sölu fyrir almenning.
Af þessu má sjá að ekki er að undra þótt bæði Páll Ísólfsson og Jón Þórarinsson hafi að vissu leyti hafnað samstarfi við Jón Leifs. Andúð Jóns Leifs á Páli var ekki eingöngu vegna mismunandi skoðana á tónlistarmálum – hún var persónuleg. (114) Má undrun sæta í öll þessi ár hvílíkt langlundargeð Páll Ísólfsson sýndi Jóni Leifs, og áttu þeir síðar eftir þetta að starfa sameiginlega að ýmsum málum, þrátt fyrir að Jón Leifs héldi áfram allt til dauðadags, að senda Páli opinberlega persónuleg “skeyti”. Fljótlega eftir þessa uppákomu í Tónskáldafélaginu skýrðust valdalínurnar. Jón Leifs varð þar nánast einráður til dauðadags Páll Ísólfsson og síðar Jón Þórarinsson sögðu sig úr félaginu og sinntu sínum málum á vegum Ríkisútvarpsins og í samvinnu við Tónlistarfélagið. Páll var gerður að heiðursforseta Tónskáldafélagsins um miðjan 6. áratuginn og tók hann þátt í ýmsum málum þess þó svo hann væri þar ekki í stjórn. Jón Þórarinsson óskaði inngöngu í Tónskáldafélagið á ný árið 1973, 20 árum eftir að hann hafði sagt sig úr félaginu.

110 Nýjustu rannsóknir í dag benda til að svo hafi verið. Má í þessu sambandi benda á mjög vel rökstutta getgátu í þá átt í bókinni Stund Milli Stríða; bls. 53- 54 og bls. 116 og 118.: Þór Whitehead; Reykjavík, 1995. Niðurstöður mínar á þessari stundu mætti orða þannig að ég telji að tengsl Jóns Leifs við nazista hafi að minnsta kosti verið “kunningsskapur”.
111 Jón Leifs: Greinargerð með tillögu um vantraustyfirlýsingu á stjórnum Tónskáldafélags Íslands og STEFs. Reykjavík 28. mars 1951.
112 Gerðabók Tónskáldafélags Íslands: 14. apríl 1951.
113 Athugasemdir við Greinargerð Jóns Leifs með tillögu um vantraustsyfirlýsingu á stjórnir Tónskáldafélags Íslands og STEFs, Reykjavík, 8. apríl 1951.

114 Í bókinni Líf mitt og gleði; Þuríður Pálsdóttir söngkona: Reykjavík 1986 bls. 175-176, má lesa eftirfarandi: “Jón Leifs þjáðist af afbrýðisemi út í pabba og notaði hvert tækifæri sem gafst til að gera lítið úr honum og starfi hans… Óvild Jóns hafði engin áhrif á viðhorf pabba til starfa hans, hvorki sem tónlistarmanns né stjórnanda Stefs. Hann virtist einhvern veginn ósnortinn af þessu og þess vegna er ekki rétt að tala um gagnkvæma óvild á milli þeirra… Ef ég hefði verið hér á Íslandi þessi þrjátíu ár en ekki í Þýskalandi, þá væri ég í þeim stöðum sem pabbi þinn er nú í, sagði hann með þunga. – Það getur vel verið Jón minn, svaraði ég, – en ef pabbi hefði verið í Þýskalandi þessi þrjátíu ár en ekk hér í fámenninu, þá væri hann löngu orðinn heimsfrægur tónlistarmaður. Þá þagnaði Jón”.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is