Stofnun Íslenskrar tónverkamiðstöðvar

Á næstu þremur vikum átti sér stað ákveðið uppgjör kynslóðanna í Tónskáldafélagi Íslands. Það óskoraða vald sem Jón Leifs hafði haft sem forystumaður og frumkvöðull í hagsmunamálum íslenskra tónskálda í nánast 20 ár samfleytt færðist í hendur annarra manna. Hver sem var hin eiginlega ástæða, verður að álykta að allur sá seinagangur, allir þeir fyrirvarar auk yfirráðasemi Jóns Leifs hafi orðið til þess að hin nýja kynslóð tónskálda, og einstakir hinna eldri, hafi verið búnir að fá nóg.
Eins og rakið var hér að framan var haldinn “stofnfundur Íslenskrar tónverkamiðstöðvar” að Hótel Sögu þann 17. janúar 1968. Hvers vegna sá stofnfundur er skráður í gerðabók Tónskáldafélags Íslands geta aðeins orðið um getgátur, og þá væntanlega í stíl við þá skoðun sem ég hef sett fram hér að ofan um stjórnsemi Jóns Leifs. Þessi fundur var ekki á vegum Tónskáldafélagsins. Um var að ræða almennan fund tónskálda sem sóttur var af tónskáldum innan sem utan Tónskáldafélagsins.
Þann 21. febrúar boðaði undirbúningsnefnd að stofnun Tónverkamiðstöðvar til fundar að Hótel Sögu kl. 20.30. Fundarstjóri var kjörinn Sigurður Þórðarson og fundarritari Þorkell Sigurbjörnsson. Á fundinn mættu eftirtalin tónskáld:
Atli Heimir Sveinsson, Magnús Blöndal Jóhannsson, Fjölnir Stefánsson (með umboð frá Jórunni Viðar), Leifur Þórarinsson, Gunnar Reynir Sveinsson, Sigurður Þórðarson, Karl O. Runólfsson (með umboð frá Árna Björnssyni og Skúla Halldórssyni), Páll P. Pálsson, Þórarinn Jónsson, Jón Ásgeirsson, Jón Nordal (með umboð frá Páli Ísólfssyni og Jóni Þórarinssyni, þar til Jón mætti sjálfur í fundarlok) og Þorkell Sigurbjörnsson. (201) Þetta voru allflest íslensk tónskáld eða umboðsmenn þeirra.
Frá stjórnarfundi í Tónskáldafélaginu þann 22. febrúar má finna eftirfarandi bókun:

Formaður skýrði frá því, að hann hefði frétt lauslega, að í gær [21. febrúar] hafi á Hótel Sögu í Reykjavík verið haldinn fundur nokkurra tónskálda innan og utan Tónskáldafélagsins með undirbúningsnefnd þeirri er getur í fundargerð 17. f.m. og á aðalfundi Tónskáldafélagsins 31. f.m. til þess “að stofna” tónverkamiðstöð og kjósa stjórn hennar en hins vegar hefði formaður félagsins ekki verið boðaður á þennan fund né heldur hefði nefnd sú, er hafði með höndum undirbúning tónverkamiðstöðvar hætt samráði við hann eða stjórn félagsins eins og aðalfundurinn 31. f.m. hefði samkvæmt 17. lið fundargerðarinnar ákveðið að gera skyldi. Af þessu tilefni samþykkti stjórn Tónskáldafélagsins að lýsa þennan stofnfund ólöglegan og bera fram á komandi framhaldsaðalfundi 24. þ.m. mótmæli gegn meðferð málsins. (202)

Í framhaldi af þessu blandaði Jón Leifs inn í málið sameign sinni og Tónskáldafélagsins að Bókhlöðustíg 2 í Reykjavík. Er meðferð stjórnarinnar á því máli gagnrýniverð þó ekki væri nema fyrir það að ákvarða í svo stóru máli á stjórnarfundi félagsins í stað þess að bera það undir almennan fund eða aðalfund. Verður ekki frekar fjallað um það hér.

201 Úr skjalasafni Ríkisútvarpsins, DHd/23.
202 Gerðabók Tónskáldafélagsins 22. febrúar 1968.

Á framhaldsaðalfundi Tónskáldafélagsins 24. febrúar bar formaður, Jón Leifs, fram eftirfarandi tillögu:

Fundurinn ályktar að líta á þennan fund sem framhaldsstofnfund tónverkamiðstöðvar og ræða breytingartillögur við lög hennar og endurskoða lög hennar endanlega. (203)

Þessi tillaga Jóns Leifs var felld með tólf atkvæðum gegn þremur. Aftur á móti var samþykkt tillaga þar sem lýst var ánægju yfir því að stofnuð skuli hafa verið Íslensk tónverkamiðstöð.

203 Gerðabók Tónskáldafélags Íslands 24. febrúar 1968.

Ég benti á það hér að framan að ég teldi óvíst að Jón Leifs hefði umboð tónskáldanna til allra þeirra fyrirvara sem hann setti, bæði fyrr og síðar við stofnskrár og lög um Íslenska tónverkamiðstöð þar sem lítið sem ekkert sé fjallað um það í gerðabókum Tónskáldafélagsins. Hvort sem það var með vilja eður ei, þá stefndi málið í það, m.a. af þessum sökum, að stofnuð yrði tónverkamiðstöð utan beinna afskipta Tónskáldafélagsins, en þó í samvinnu við það; sem sjálfstætt félag með þátttöku tónskálda bæði í og utan Tónskáldafélagsins. En þar sem Jón Leifs var með annan fótinn inni í nánast öllum málum tónskálda er stundum erfitt að gera sér grein fyrir á hvaða vettvangi hann starfar hverju sinni, en oftast virðst það miða að persónulegum yfirráðum.
Til samantektar um síðasta áhlaup stofnunar Íslenskrar tónverkamiðstöðvar birti ég hér tillögu sem vélrituð er og heftuð inn í 2. gerðabók Tónskáldsfélagsins, dagsett 20. apríl 1968 og undirrituð af Jóni Nordal, Karli O. Runólfssyni og Sigurði Þórðarsyni. Gerir hún grein fyrir endalokum þessa máls:
Í tilefni af skrifum Jóns Leifs um aðdraganda að stofnun Íslenzkrar tónverkamiðstöðvar rifjar fundurinn upp og ályktar eftirfarandi:

1. Til stofnfundar tónverkamiðstöðvarinnar var boðað af sérstakri undirbúningsnefnd í janúarmánuði s.l., en í henni störfuðu Jón Leifs ásamt nokkrum öðrum tónskáldum, þ.á.m. mönnum utan Tónskáldafélagsins. Málið eða drög að samþykktum fyrir miðstöðina var ekki fyrirfram borið undir stjórn Tónskáldafélagsins eða STEFs, né heldur almenna félagsfundi í þessum félögum. Frá upphafi hefur það því verið tilætlun Jóns Leifs og annarra fundarboðenda að stofna miðstöðina á almennum fundi tónskálda en ekki á fundum í Tónskáldafélaginu eða STEFi.

2. Stofnfundur sá, sem Jón Leifs o.fl. höfðu boðið til að Hótel Sögu ræddi frumvarp það að samþykktum fyrir miðstöðina, sem lagt var fram á fundinum en kaus síðan 3ja manna nefnd til þess að semja nýtt frumvarp til laga fyrir miðstöðina og skyldi sú nefnd leggja tillögur sínar fyrir framhaldsstofnfund. Framhaldsaðalfundur var síðan haldinn hinn 21. og þar gengið frá stofnun miðstöðvarinnar.

3. Á framhaldsaðalfundi í Tónskáldafélagi Íslands, sem haldinn var hinn 24. febrúar var með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða eða 13 atkv. gegn 2 lýst eindregnum stuðningi við hina nýstofnuðu Tónverkamiðstöð.

Af þessu er ljóst

að frá stofnun Tónverkamiðstöðvarinnar var gengið á þeim vettvangi, sem Jón Leifs hafði sjálfur stefnt málinu inn á í upphafi

að Tónskáldafélagið hefur lýst fullum stuðningi sínum við miðstöðina

•    að áhugi Jóns Leifs fyrir aðild Tónskáldafélagsins að sjálfri stofnun miðstöðvarinnar kemur þá fyrst til skjalanna, er hann hafði orðið undir í atkvæðagreiðslu á undirbúningsfundi miðstöðvarinnar og gengið þar af fundi.

Með tilvísun til þessa ályktar fundurinn að hafna algerlega aðfinnslum Jóns Leifs um stofnun miðstöðvarinnar og ítrekar fyrri stuðning við hana jafnframt því sem fundurinn vítir harðlega allar tilraunir til að spilla fyrir starfsemi hennar og þar með útbreiðslu íslenzkrar tónlistar.

Stundum hefur komið fram opinberlega og í umræðu manna á milli að um samsæri einhverra einstakra manna hafi verið að ræða við stofnun Íslenskrar tónverkamiðstöðvar. Jón Leifs hélt því fram að hann hefði aldrei verið boðaður á stofnfundinn. Að mínu mati verður ekki séð að um neitt samsæri hafi verið að ræða og bendir hin almenna þátttaka tónskáldanna í stofnun miðstöðvarinnar til þess. En þarna urðu ákveðin þáttaskipti í sögu íslenskrar tónlistar – kynslóðaskipti – og um leið breyttar áherslur og áhrif. Þetta er eitt dæmi um slíkt, en þau má sjá í öllum samfélögum í aldanna rás.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is