STEF – Bernarsáttmálinn

Ef þið ætlið að setja skilyrði fyrir afnotum verka ykkar, þá munum við ekki flytja þau og nota útlend verk eingöngu, enda væri þar með enginn skaði skeður. (124)

Nokkuð algeng mun hafa verið fyrir aðild Íslands að Bernarsáttmálanum að þýðendur og útgefendur erlendra bóka öfluðu sér þýðingarleyfa og einnig leyfa til útgáfu beint frá höfundum og gengu þá greiðslur beint til þeirra. Aftur á móti mun það einnig hafa verið algengt framan af öldinni að út væru gefnar ýmsar bækur í heimildarleysi, þ.e. án þýðingar- eða útgáfuleyfis. Þegar líða tók á 5. áratuginn fór að bera á mikilli óánægju frá erlendum höfundum vegna þess að hugverk þeirra nytu engrar verndar á Íslandi, en íslensk verk nytu hins vegar verndar erlendis. Mun þessi gagnrýni hafa einna helst ýtt undir það að menntamálaráðherra, Brynjólfur Bjarnason, staðfesti árið 1947 Bernarsáttmálann sem Íslendingar gerðust aðilar að árið 1943.

Sáttmáli sá er gerður var í Bern í Sviss hinn 9. september 1886, endurskoðaður í Berlín 13. nóvember 1908 og í Róm 2. júní 1928 fjallar um vernd bókmennta og listaverka. Með lögum nr. 74, 5. júní 1943, sem fjalla um inngöngu Íslands í Bernarsambandið, fékk ríkisstjórnin heimild fyrir Íslands hönd að staðfesta þann sáttmála. Það var gert 7. september 1947. Samkvæmt sáttmálanum gildir sú almenna regla að vernd sú, sem hann veitir hugverki, vari í 50 ár eftir andlát höfundar þess.

Fyrstu almennu lög á Íslandi á sviði höfundarréttar eru lög nr. 13, 20. október 1905 sem sniðin voru að mestu leyti eftir dönskum lögum um rétt rithöfunda og listamanna frá árinu áður. Þessi lög tóku til höfundarréttar á sömdu máli (rit, ræður og fyrirlestrar), tónsmíða, stærðfræðiuppdrátta, landsuppdrátta og annarra líkra (ekki er átt við uppdrætti á sviði lista, heldur á sviði vísinda). Í greinargerð með frumvarpi að lögunum segir:

Það skal tekið fram, að ákvæði danska lagboðans um réttindi listamanna yfir verkum sínum er ekki tekin upp í frumvarp þetta, af því að listamennska er svo í bernsku hér á landi, að of snemmt virðist að semja lög um verndan íslenzkra listaverka hér á landi.

Þessi ákvæði voru þó örlítið rýmkuð árið 1912 en þar er talað um “alls konar myndir og uppdrætti”. (125)

Á Listamannaþinginu árið 1942 varð gerð ályktun til Alþingis þess efnis að bæta ágalla þessara laga frá 1905, sem síðar voru samþykkt árið 1943. (126) Þar er tekin til verndar eignarrétturinn á sömdu máli og tónsmíðum og til hvers kyns eftirmyndunar á listaverkum og öðrum hugverkum. Ekki skyldu þó þessi lög koma til framkvæmda fyrr en settar hefðu verið nánari reglur um aðild stéttarfélaganna.

124 Tilvitnun í orð fulltrúa fyrirtækis í Reykjavík sem hafði góðar tekjur af því að gefa út íslensk og erlend hugverk, úr skjölum STEF.
125 Lög nr. 11, 22. október 1912.
126 lög nr. 49. 14. apríl 1943.

Þau stéttarfélög sem um var að ræða voru: Félag íslenskra rithöfunda, Félag íslenskra tónlistarmanna, Tónskáldafélag íslands, Félag íslenskra leikara, Félag íslenskra myndlistarmanna, Húsameistarfélag Íslands og Félag íslenskra listdansara. Voru þau öll undir einum hatti er nefndist Bandalag íslenskra listamanna.

Með reglugerð árið 1947 (127) var Bandalagi íslenskra listamanna veitt heimild til að semja við ýmsar stofnanir og einstaklinga, í umboði félaga bandalagsins um flutningsrétt. Jafnframt fékk það heimild til að gefa út gjaldskrá. Þessa heimild nýtti Bandalagið sér aldrei né gerði samninga eða gaf út gjaldskrá. Þar mun hafa haft mest áhrif að Tónskáldafélag Íslands sem ásamt Alþjóðasambandi höfunda og rétthafa og íslensk tónskáld neituðu að leyfa framsal umboða til Bandalagsins. Ástæðan var m.a. sú að í Bandalaginu áttu sæti ýmsir aðrir hagsmunaaðilar en rétthafarnir sjálfir. Þessari reglugerð frá árinu 1947 var þá breytt tveimur árum síðar (128) og kveður þar á um að menntamálaráðherra verði heimilt – með þeim skilyrðum sem hann setur – að löggilda einstök félög eða samtök til að fara með réttinda- og innheimtumál hvers félags fyrir sig. Ekki voru allir listamenn sammála um hagnýtingu slíks hagsmunafélags og erfitt var að sannfæra sérfræðinga um að af þessu gætu hlotist einhverja tekjur fyrir listamenn. Þó voru tveir lögfræðingar í Reykjavík, hæstaréttarlögmennirnir Gústaf A. Sveinsson og Egger Claessen, sannfærðir um að svo væri. Eggert Claessen hafði unnið að höfundarlögunum sem Hannes Hafstein kom á árið 1905.

Tónskáldafélag Íslands stofnaði félag er gæta skyldi hagsmuna tónskálda og hlaut það nafnið Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar – STEF. Félagið var stofnað á skrifstofu fyrrnefndra lögfræðinga 13. janúar 1948 og eru samþykktir félagsins dagsettar 26. nóvember sama ár. Ríkisstjórnin hafði sem fulltrúa sína þá Hans G. Andersen þjóðréttarfræðing og Jóhannes Elíasson héraðsdómslögmann, en þeir höfðu aðstoðað við undirbúning félagsins.

Eins og kvað á um í lögunum frá 1949 (129) um að löggildingu ráðuneytisins á einstökum félögum, þá fékk STEF löggildingu 2. febrúar 1949 og samþykkti menntamálaráðherra þá um leið samþykktir STEFs. Þær skyldur er lögðust á herðar Íslendinga við inngöngu í Bernarsambandið voru m.a. að sjá um greiðslur til erlendra útgefenda, tónskálda og erfingja þeirra fyrir opinberan flutning tónverka á Íslandi. Þetta opnaði leið fyrir hreinum viðskiptum milli Íslands og annarra landa. Það kom í hlut STEFs og hlutafélagsins Landsútgáfunnar að safna réttindum og réttindaumboðum, erlendum sem innlendum, og greiða fyrir opinberum flutningi íslenskra tónverka erlendis.

127 Reglugerð nr. 12. 21. janúar 1947; Stjórnartíðindi 14. febrúar 1947.
128 Reglugerð nr. 19, 1. febrúar 1949.
129 Reglugerð nr. 19, 1949.

Geysimikil samningavinna fór nú í hönd á vegum félagsins, og eftir miklar umræður var hið íslenska STEF tekið inn sem fullgildur meðlimur í norræna Stefjasambandið haustið 1948. Á þingi alþjóðasambandsins í Buenos Aires í Argentínu haustið 1948 var Ísland tekið inn í alþjóðlega Stefjasamandið að undangengnum vissum lagabreytingum á íslensku lögunum. Jón Leifs ferðaðist um í Evrópu allan fyrri hluta árs 1949 til að ganga frá sérsamningum við hin einstöku Stefjasambönd í hverju landi. Jón Leifs vann markvisst að réttindamálum STEFs og risu í kjölfarið upp miklar deilur á Íslandi um aðferðir hans við innheimtu og réttindagæslu á vegum félagsins næstu 10 árin. Hér er ekki vettvangur til að líta á öll þau mál sem upp komu á næsta áratug, en hér skal nefna nokkur þau helstu sem komu starfsemi félagsins í fastar skorður.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is