Söngkonur

Söngkonur á þessu tímabili verða nú taldar hér á eftir. Þær verða taldar í tímaröð, eftir því sem þær koma fram í sönglífi bæjarins.

Valborg Einarsson og Herdís Matthíasdóttir eru báðar píanóleikarar og söngkonur. Þær syngja oft á þessu tímabili, Valborg við og við út tímabilið. Laura Finsen, kona Vilhjálms Finsen ritstjóra, síðar sendiherra, er norsk. Hún er ágæt söngkona og kenndi söng. Frú Johanne Sæmundsen söng opinberlega 1912 til ágóða fyrir mannskaða samskotin. Anna Jónsson, síðar kona Tryggva Þórhallssonar forsætisráðherra, söng einsöngshlutverk á kirkjuhljómleikum í Dómkirkjunni á aldarafmæli Péturs Guðjónsens 29.nóv. 1912. Guðrún Ágústsdóttir kom fyrst fram sem einsöngvari á hljómleikum Sveinbjörn Sveinbjörnssonar sumarið 1914 Hún varð síðan mikill kraftur í sönglífi bæjarins áratugum saman. Dóra Sigurðsson, kona Haralds Sigurðssonar píanóleikara, er hér talin með íslenzkum söngkonum, en hún er austurrísk að fæðingu. Hún söng oft með undirleik manns síns á árunum 1919-30, lög eftir Schubert, Schumann, Brahms, Wolf. o. fl, einnig íslenzk lög. Hún er smekkvís og menntuð söngkona. Hún á ekki kyngikraft eða leiftrandi fegurð í röddinni, né ástríðumagn. En hún á annað. Í söng hennar er einhver hjartans ylur, sem vekur samúð manna, sem geta haft yndi af sönglist. Þó að hann komi ekki fram í stórbrotinni mynd. Íslenzk lög söng hún afbragðsvel, eins og „Ein sit ég úti á steini“ eftir Sigfús Einarsson og „Hvar eru fuglar“ eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson. Um undirleikinn segir Sigfús Einarsson eftir einn konsertinn: „Haraldur lék undir. Það höfum vér engan heyrt gera betur. Sárafáa jafnvel. Mátti nú glöggt heyra hvers virði undirleikurinn er í meistara höndum.“

Gagga Lund, dóttir Lund lyfsala í Reykjavíkurapóteki, hélt söngskemmtanir í Gamla Bíó haustið 1929 með aðstoð Emils Thoroddsens, og söng þá m. a. 6 íslenzk þjóðlög. Hún er góð söngkona og hefur gert þjóðlög að sérgrein sinni. Hún syngur þau frábærlega vel. Nú er hún söngkennari við Tónlistarskólann í Reykjavík.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is