Söngfélagið Harpa

„Söngfélagið Harpa“ undir stjórn Jónasar Helgasonar var stofnað 1862 og starfaði í rúm 30 ár. Lagavalið var svipað og hjá skólapiltunum, aðallega skandinavísk og Þýzk kórlög, sem þá voru uppistaðan í karlakórsöng á Norðurlöndum. Um íslenzk lög var ekki að ræða, að undanteknum lögum eftir þá bræður Jónas og Helga. Sveinbjörn Sveinbjörnsson samdi þjóðsönginn 1874, en ekki er mér kunnugt um, hvort „Harpa“ hefur nokkurn tíma sungið það lag. Lög eftir önnur íslenzk tónskáld verða ekki kunn fyrr en um og eftir 1900.

Í „Hörpu“ voru góðir raddmenn og oft var vel og hressilega sungið undir stjórn Jónasar, bæði úti og inni. Um söng kórsins vísast að öðru leyti til greinarinnar um Jónas Helgason hér að framan.

Jónas var einn af þeim söngstjórum, sem gat haldið lífinu í kórnum áratugum saman. Þetta gátu Jón Halldórsson og Sigurður Þórðarson, söngstjórar „Fóstbræðra“ og „Karlakórs Reykjavíkur“. Aðrir söngstjórar, þótt gæddir séu góðum hæfileikum, hafa ekki getað þetta þá hefur vantað úthaldið.

„Harpa“ söng framan af á Hótel Alexandra í Hafnarstræti. Þetta var gildaskáli fyrir „heldri menn“, og þar sátu embættismenn, faktorar og aðrir „betri“ borgarar á kvöldin með vín í glösum og ræddu um landsins gagn og nauðsynjar. En er viðbyggingin hafði verið reist austan við gamla gildaskálann við Austurstræti, var það hús upp frá því kallað „Hótel Ísland“. Í viðbyggingunni hljómaði söngur miklu betur en á Hótel Alexandra og söng „Harpa“ eftir það þar lengi. Þó réðu ýmsar ástæður því, að stundum var sungið á gamla staðnum, Hótel Alexandra. Síðasti opinberi samsöngur „Hörpu“ var haldinn í Góðtemplarahúsinu árið 1893, sem þá var búið að reisa.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is