Sinfóníuhljómsveit Reykjavíkur, sem hélt sína “fyrstu” tónleika 20. janúar 1948, var enn eitt framtakið í þá átt að halda starfandi hljómsveit í Reykjavík. Um þessa hljómsveitartónleika skrifaði Páll Ísófsson m.a. eftirfarandi í Morgunblaðið:
Hjer er ekki um nýja hljómsveit að ræða, heldur nýtt nafn á Hljómsveit Reykjavíkur, sem starfað hefir undanfarin ár á vegum Tónlistarfélagsins og leika kennarar Tónlistarskólans eins og áður, svo og nemendur, með í hljómsveitinni. En nú hófst starfsemi sveitarinnar að nýju undir hinu nýja nafni og er vel farið, að hjómsveitin starfar áfram í vetur, en um tíma var allt útlit fyrir að svo mundi ekki verða. (139)
139 Morgunblaðið: 22. janúar 1948.
Þrír nýir menn, allir nýkomnir heim eftir framhaldsnám í Englandi, höfðu bæst í hópinn. Það voru þeir Árni Björnsson flautuleikari, Andrés Kolbeinsson óbóleikari og Egill Jónsson klarínettuleikari. Íslendingar voru nú smátt og smátt að eignast góða hljóðfæraleikara til að styrkja þann hóp sem fyrir var í landinu. Stjórnandi tónleikanna var Victor Urbancic, en Rögnvaldur Sigurjónsson lék einleik í píanókonsert eftir Beethoven. En eins og oft áður voru ekki haldnir tónleikar nema ákveðið væri að koma þeim á – ekkert skipulag og engin markmið vegna skilningsleysis ráðamanna á nauðsyn slíks menningarfyrirbæris í höfuðborg landsins. Enginn vildi borga tónlistarmönnum laun nema Ríkisútvarpið sem í sinni hljómsveit náði að hafa 15 hljóðfæraleikara á launaskrá árið 1950. Hjómsveitin hélt síðan aðra tónleika, Mozarttónleika undir stjórn Róberts Abraham um vorið. Það liðu tæp tvö ár þar til haldnir voru næstu tónleikar sem jafnframt voru síðustu tónleikar þessarar hljómsveitar.
Í desember 1949 hélt hljómsveitin tónleika í Austurbæjarbíói undir stjórn Páls Ísólfssonar. Í umfjöllun sinni um þá segir Urbancic m.a. í grein í dagblaðinu Vísi, en þar kemur fram að ástandið hefur nánast ekkert batnað hvað varðar skipulag og aðstæður:
Frammistaða hljómsveitarinnar, einkum strengjanna, var furðulega góð. Ég segi furðulega, því að það er ekkert leyndarmál, að skilyrði til æfinga voru eins og alltaf afar óvænleg. Hljómsveit þarfnast ekki síður æfingar eins og hver einstakur listamaður. En hvaða snillingur mundi dirfast að koma opinberlega fram eftir ekki minna en tuttugu mánaða iðjuleysi og ekki meira en tuttugu tíma æfingar? Að slíkt skuli takast yfirleitt, er nýr vottur fyrir þá staðfestingu sem ég hef alltaf haldið fram og barizt fyrir: að það þyrfti ekki nema lítilsháttar umbóta, til þess að starfrækja hér hljómsveit sem væri ekki aðeins jafnfær hljómsveitum í jafnstórum borgum erlendir, heldur betri – ef aðeins væri möguleikar fyrir hendi að þjálfa slíka hljómsveit.
En hver sem vandamálin höfðu verið, þá voru sum þeirra smám saman að leysast. Í tímaritinu Tónlistin hafði Victor ritað dálitla grein árið 1942 um stöðuna í hljómsveitarmálum, og bent á ýmsar úrbætur. Þær eru m.a.:
Fullgild hljómsveit hér í bæ þyrfti þó að einu leyti á útlending að halda. Það vantar fyrsta leikara á óbó, horn og fagott, en það eru þau blásturshljóðfæri, sem íslenzkir hljóðfæraleikarar hafa ekki lært að spila á, með því að jazzinn beitir þeim ekki. (140)
En sjö árum síðar má enn lesa í einu dagblaðanna í Reykjavík umfjöllun um tónleika:
Ekki skal heldur þagað yfir þeirri framför, sem blásturssveitin hefir tekið. Fagurt samspil klarínettanna í forleiknum, ljettstígt óbósólóið í symfóníunni og, viti menn, örugg, en nokkuð varkár, fagottrödd – í fyrsta sinn eftir margra ára bið! (141)
Síðar í umfjölluninni má ennfremur lesa:
Raddskipan, sem framkvæmt getur vilja höfundarins, eins og hann skráði hann í partitúrinn, og möguleiki til tíðra, reglubundinna samæfinga er grundvöllur undir öllu hljómsveitarstarfi. Vonir standa til, að þessi grundvöllur fáist bráðlega, jafn vel nú í vetur, og munu þá einnig hljóðfæraraddir bætast í sveitina, sem hana hefur vanhagað um til þessa. Fari svo, þá hlýtur fimmtudagurinn 8. desember 1949 sérstakt sögulegt gildi, því þá kvaddi hópur tónlistarmanna áheyrendur sína til þess að geta risið upp í endurnýjaðir og göfugri mynd; sem prófessional symfóníuhljómsveit, er yrði samboðin höfuðborg í fullvalda ríki. (142)
Loksins eftir rúm 25 ár virtist hilla undir stofnun hljómsveitar sem hefði það að markmiði að starfa sem slík, skipulega og reglubundið.
140 Tónlistin: 1942, 1. árg. 2. hefti bls. 39.
141 Dagblað í Reykjavík, 13. desember 1949.
142 Sama.