Sérleyfisbílamálið

Jón Leifs hafði afdrep í sumarbústaði við Straum, sunnan Hafnarfjarðar, til tónsmíða. Hann ferðaðist þangað með Sérleyfisbílum Keflavíkur. Það þótti þá góð þjónusta við farþega að leyfa þeim að hlusta á útvarp á ferðum sínum með fólksflutningabílum um allt land. Engir samningar höfðu verið gerðir milli STEFs og Sérleyfisbíla Keflavíkur né önnur slík fyrirtæki um opinberan tónlistarflutning. Að ósk Sigurðar Steindórssonar f.h. Sérleyfisbíla Steindórs ritaði lögfræðingur STEFS, Sigurður Reynir Pétursson, bréf til fyrirtækisins. Í því segir m.a.:

STEF, Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar hefur falið mér að leita samninga við félag yðar út af tónflutningi þeim úr útvarpsviðtækjum, sem á sér stað í sérleyfisbifreiðum hér á landi. Eins og yður mun kunnugt er opinber tónflutningur án leyfis frá STEFi með öllu óheimill í sambandi við hvers konar skemmtana og atvinnurekstur og þá um leið tónflutningur sá er á sér stað í sérleyfisbifreiðum. Slíkt leyfi veitir STEF gegn gjaldi skv. gjaldskrá félagsins, en skv. henni ber að greiða árlega kr. 100.- að viðbættir vísitölu fyrir hverja sérleyfisbifreið. Leyfi ég mér hér að óska eftir samkomulagi um mál þetta við yður, þar sem langsamlegast væri hagkvæmast, að mál þetta yrði í gegnum félag yðar leyst í einu lagi fyrir allar sérleyfisbifreiðar í landinu. (135)

135 Bréf dagsett 19. ágúst 1955 og stílað til Félags sérleyfishafa.

Í september 1955 ferðaðist Jón með Sérleyfisbílum Keflavíkur í sumarbústaðinn sunnan Hafnarfjarðar. Í bréfi til sakadómara í Reykjavík um þá ferð segir Jón Leifs m.a. svo frá:

Undirritaður kom inn á afgreiðslu sérleyfisbílanna hjá Ferðaskrifstofu ríkisins rétt fyrir klukkan hálftólf laugardagskvöldið 3. sept. 1955 og bað um farseðil fyrir “musiklausan” bíl að Straumi. Afgreiðslustúlkan seldi honum farseðilinn í viðurvist vagnstjóra viðkomandi bíls. Fór undirritaður síðan inn í bílinn og dró niður í útvarpstæki, sem þar var í gangi, svo að tónlistin heyrðist ekki. Kom þá bílstjórinn, opnaði aftur fyrir tækið og sagði að hann einn réði því hvort útvarpið væri opið eða ekki. Undirritaður sagðist banna honum að láta verk þau hljóma fyrir farþegana, sem hann, þ.e. STEF, hefði umboð fyrir, en það væru tónverk nærri allra rétthafa í heiminum. Bílstjórinn lét sér ekki segjast og opnaði fyrir útvarpstækið og tónlistina, enda þótt undirritaður spyrnti fæti við tækinu til að binda endi á þófið, og þagnaði þá tækið. Síðan bað undirritaður bílstjórann að sækja lögregluna til að fá tilfellið rannsakað og dæmt sem lögreglumál. Bílstjórinn gerði það, og samkvæmt ósk undirritaðs skrifuðu lögregluþjónarnir niður nöfn votta meðal farþeganna. Bílstjórinn tjáði lögreglunni að hann vildi ekki taka undirritaðan með sem farþega, en krafðist þess að undirritaður væri tekinn fastur. Fór ég með lögreglunni á varðstofuna, en þar var engra nákvæmra skýringa óskað, og tók ég mér síðan far með bílnum R-6777 að Straumi. (136)

136 Bréf Jóns Leifs til sakadómara dags. 4. september 1955.

Með þessu atviki vildi Jón Leifs leita úrskurðar hvort höfundar og fulltrúum þeirra væri heimil sjálfsvörn í baráttu þeirra í vernd hugverka.

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is