Ríkisútvarpið og þáttur þess að tónlistarmálum

Eins og nefnt hefur verið, var íslenskt ríkisútvarp formlega stofnað árið 1930. Þó svo ýmsar tilraunir hafi verið gerðar áður til útvarpssendinga, bæði af einkaaðilum og á vegum Ríkisútvarpsins, þá telst 21. desember 1930 sá dagur sem fyrsta reglubundna útsendingin fór fram, og mun frá þeim degi vera elsta prentaða dagskráin sem til er. Mikill áhugi var á þessu fyrirtæki meðal landsmanna, og sýnir það að í árslok 1930 voru um 450 hlustendur en ári síðar voru þeir tæplega 4000. Hlustendur voru fljótir að taka við sér og skrifuðu bréf til stofnunarinnar m.a. til að koma með ýmsar óskir um flutning efnis. Tónlistarmál voru þar engin undantekning. Sumir hlustendur vildu annaðhvort grammófónmúsík eða lifandi söng en aðrir vildu losna við tónlist Beethovens og Brahms.

Meðvitundin um hinn íslenska tónlistararf, þ.e. kórana, ættjarðarlögin og þjóðskáldin var mjög sterk á fyrstu árum aldarinnar. Jókst hún til muna við tilkomu ríkisútvarpsins og þá viðleitni þess að “ala þjóðina upp” í tónlistarlegum skilningi. Sáu sumir hlustendur ákveðna hættu í útsendingum útvarpsins og bentu á í bréfum og greinum að það bæri að viðhalda hinum íslenska söngarfi og verja hann “árásum” og áhrifum frá útlöndum. Það var helst ungdómurinn sem menn höfðu áhyggjur af og var einna helsti ógnvaldurinn hinn erlendi jazz og dægurlög sem að sumra mati átti uppruna sinn í “svartri lágmenningu”. Með öðrum orðum: á Íslandi fundust – og finnast jafnvel enn – margir skoðanabræður þeirrar kenningar sem ríkti meðal sumra ráðamanna í Mið- Evrópu í seinni heimsstyrjöldinni um æðri og óæðri kynstofna. Birtist það einna helst í brennandi þjóðernishyggju og baráttu gegn erlendum áhrifum. Páll Ísólfsson var ráðinn sem tónlistarstjóri útvarpsins frá upphafi, en Þórarinn Guðmundsson og Emil Thoroddsen sáu einnig um tónlistarmál.

Eins og áður hefur verið bent á, sáu tveir síðastnefndu um lifandi tónlistarflutning í útvarpinu og ýmsa hagnýta hluti, svo sem að leika tónlist af plötum. Páll (1893-74) hafði upphaflega ætlað sér að gerast nótnaprentari og hóf hann í því sambandi prentnám í Reykjavík, en tónlistin varð ofan á, og fór hann til náms til Leipzig þar sem hann dvaldist 7 vetur við orgel- og fræðinám. Tvö síðustu námsár sín í Leipzig var hann aðstoðarmaður og staðgengill kennara síns, Carl Straube, við Tómasarkirkjuna þar í borg. Páll kom til Íslands, eins og áður var nefnt, að loknu námi árið 1921 og varð fljótlega virkur í tónlistarmálum. Hann stjórnaði m.a. lúðrasveit í 10 ár, var með í stofnun Tónlistarskólans í Reykjavík og veitti honum forstöðu í um 25 ár. Hann var organisti í Fríkirkjunni og síðar dómorganisti í mörg ár. Hann hélt fjölda orgeltónleika á Íslandi og einnig í Evrópu og Ameríku. Má segja að Páll hafi verið frumkvöðull að framþróun almennra tónlistarmála á Íslandi frá því hann kom heim frá námi og fram undir 1960.

Annar maður sem tengdist mjög tónlistarmálum Ríkisútvarpsins til fjölda ára, var Jón Þórarinsson (1917-). Hann fluttist að loknu stúdentsprófi frá Akureyri til Reykjavíkur árið 1936 og hóf nám í tónfræði í Tónlistarskólanum í Reykjavík hjá Páli Ísólfssyni og Frans Mixa. Ástandið í þjóðmálum kom í veg fyrir að hann færi þá til frekara náms í Evrópu, eins og hann hafði ætlað sér, og réðst hann sumarið 1938 til starfa á fréttastofu Ríkisútvarpsins. Fljótlega fór hann þó að gera sér grein fyrir hvernig bæta mætti kynningu á tónlist hjá útvarpinu og einnig nýta sér Útvarpstíðindin til þessa. Í Útvarpstíðindum í febrúar 1939 ritar hann m.a.:

Þess er ekki að dyljast, að mestur hluti hinnar svonefndu æðri tónlistar, sem útvarpið flytur, fer gersamlega fyrir ofan garð og neðan hjá öllum þorra hlustenda. Þetta er mjög eðlilegt, þegar þess er gætt, hve tónlistin – í þrengri merkingu þess orða – er ung með þjóð vorri, og að vér til skamms tíma höfum ekki átt þess kost að þjálfa eyru vor til skilnings stærri tónverka. Úr þessu hefur útvarpið bætt að nokkru, en reyndin er þó sú, að fjöldi þeirra manna, sem í sannleika hafa haft vilja á því að afla sér skilnings og þekkingar á æðri tónlist, hafa lítil eða engin not þess, sem útvarpið býður af því tagi, og annað hvort láta það eins og vind um eyru þjóta eða þá hreinlega loka viðtæki sínu, þegar slíkt dynur yfir. Það liggur í augum uppi, að eitthvað er meira en lítið »bogið« við þetta, og að hér verður eitthvað til bragðs að taka, ef vel á að vera. (81)

Þeir Jón og Páll sáu um á komandi árum ýmsa kynningarþætti á tónlist í Útvarpinu og skrifuðu einnig greinar um tónlistarmál og kynntu tónverk og tónskáld í Útvarpstíðindum. Jón hefur greinilega komið sér vel hjá útvarpinu og varð hann t.d. mjög vinsæll sem þulur. En hugurinn stefndi á frekara námi. Á 750. fundi Útvarpsráðs sem haldinn var í október 1943 lagði Páll Ísólfsson fram tillögu þess efnis að “efla Jón til tónlistarnáms vestanhafs, og taki hann síðan við starfi á tónlistardeild”. (82) Útvarpsstjóri lét þá skoðun í ljósi að nauðsynlegt myndi að styrkja starfsmenn til náms “þar sem stofnunin þyrfti á allan hátt að aukast og vaxa”. (83) Á fundi Útvarpsráðs 19. október 1943 var gerð eftirfarandi samþykkt:

Útvarpsráð mælir eindregið með því, að Jón Þórarinsson verði ríflega styrktur til tónlistarnáms vestan hafs, með það fyrir augum að hann að námi loknu starfi að tónlistarmálum í þjónustu ríkisútvarpsins. (84)

Jón Þórarinsson fór til náms til Bandaríkjanna upp úr áramótum 1944 og lauk meistaraprófi í tónsmíðum frá Yale University sumarið 1947. Hann hóf svo störf að nýju sem fulltrúi hjá Tónlistardeild Ríkisútvarpsins haustið 1947 eins og kvað á um í styrkveitingu Útvarpsráðs til hans, ásamt því að kenna tónfræði við Tónlistarskólann í Reykjavík. Meðan Jón var við nám hélt Páll Ísólfsson starfi sínu áfram og vann að ýmsum umbótum í tónlistarmálum útvarpsins og þar með í þágu tónlistarinnar í landinu. Umbæturnar snerust ekki eingöngu um sjálfa tónlistina, heldur einnig ýmis réttindamál, svo sem höfundarlaun. Útvarpið hafði allt frá stofnun þess farið nokkuð “frjálslega” með höfundarrétt þeirra hugsmíðar sem það flutti, og átti það ekki aðeins við um tónlist, heldur einnig bókmenntaverk svo og flytjendur þessara verka, enda voru engin höfundarlög fyrir hendi. Það var t.d. ekki fyrr en árið 1943 að útvarpsráð samþykkti á fundi sínum, að ósk stjórnar hins Íslenska leikarafélags, að greiða leikurum fyrir störf sín hjá Útvarpinu.

81 Útvarpstíðindi: febrúar 1939.
82 Fundargerðabók Útvarpsráðs 1943, bls. 46-47.
84 Sama.

Þegar íslendingar gerðust aðilar að Bernarsamkomulaginu (sjá nánar um það í kaflanum um STEF) opnaðist leið fyrir íslenska höfunda að krefjast greiðslu fyrir opinberan flutning á verkum sínum. Útvarpsmenn leituðust við að aðlaga sig nýjum aðstæðum og voru lagðar fram tvær tillögur á fundi útvarpsráðs í mars 1945 um höfundaþóknun. Fyrri tillagan var frá Páli Ísólfssyni og útvarpsstjóra og hljóðaði þannig: (85)

Útvarpsráð ályktar að greiða nokkrum tónskáldum fjárhæð í þóknunarskyni fyrir afnot þau, er útvarpið hefur frá byrjun haft af verkum þeirra í dagsrá. Upphæð þessi ákveðst 5 þúsund krónur til hvers og skiptist niður á nokkur ár. Fari fyrsta greiðsla fram 1945. Tónlistarstjóri gerir tillögur um, hverjir skuli njóta þessara viðurkenningar og leggur þær tillögur undir samþykki útvarpsráðs.

Sú síðari var frá Helga Hjörvar skrifstofustjóra útvarpsins, svohljóðandi:

Útvarpsráð ályktar að fela þriggja manna nefnd að gera tillögur um samninga við Bandalag Íslenskra listamanna um höfundarþóknun og reglugerð samkvæmt hinum nýju ákvæðum höfundarlaganna frá 1943, og stuðla síðan að því að slík reglugerð verði sett. (86)

Ljóst er að útvarpið var að fá nýtt og mikilvægt hlutverk sem hagsmunastofnun höfunda hugverka þó svo einhver tími ætti eftir að líða þar til réttindamálin kæmust í rétt horf. Á fundinum 1945 var samþykkt að greiða þremur íslenskum tónskáldum, þeim Árna Thorsteinson, Sigvalda Kaldalóns og Sigurði Þórðarsyni, þóknun “fyrir afnot þau, sem útvarpið hefur haft að verkum þeirra frá upphafi, enda geri tónlistarstjóri tillögur um samskonar greiðslur til annarra tónskálda á næsta ári”. Í febrúar 1947 var svo samþykkt að veita enn þremur tónskáldum “þóknun fyrir afnot útvarpsins af tónsmíðum þeirra, 5000 kr. hverjum”, Jóni Leifs, Þórarni Guðmundssyni og Karli O. Runólfssyni. Þetta hafði ráðist utan fundar því Jón Leifs var á leið til útlanda.

Menningarhlutverk Ríkisútvarpsins og gildi þess sem einu útvarpsrásarinnar (fyrir utan Keflavíkurútvarpið frá árinu 1951) allt fram til um 1980 er ómælanlegt. Það má segja að völd þeirra manna sem réðu þar hafi nánast verið einræði því til fjölda ára var rekin ákaflega stíf menningarpólitík í útvarpinu. Það var útvarpið sem réði hvaða efni var flutt þjóðinni á öldum ljósvakans. Á sama tíma setti það vörumerki á hvað væri gott og hvað væri slæmt í þeim málum og einnig hvað þjóðinni væri hollt að heyra. En ef dagskrá útvarpsins er skoðuð frá fyrstu áratugunum þá verður samt að segjast að “mikill og hollur” bragur hafi ríkt yfir dagskrá þess samkvæmt markmiðum þess að “ala upp” þjóðina í hinni vesturevrópsku, klassísku tónlistarhámenningu.

85 Fundagerðabók Útvarpsráðs 1943: bls. 169 (820. fundur).
86 Sama.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is