Píanóleikarar

Á þessu tímabili er tónlistarlífið fjölbreyttara í öllum greinum. Íslenzki píanóleikarahópurinn stækkar, þegar líður á tímabilið, og fleiri erlendir píanóleikarar koma hér fram áður, þar á meðal frægir snillingar. Hér verður fyrst talað um þá íslenzka píanóleikara, sem halda hér sjálfstæða tónleika á þessu tímabili.

Árni Kristjánsson. Hann er fæddur 17. desember 1906 á Grund í Eyjafirði. Hann lærði píanóleik í Berlín hjá Isolde Knaus-Scharwenka og M.Mayer Mahr, og síðan í Kaupmannahöfn hjá Anders Rachlew, norskum píanósnillingi og tónskáldi, sem Árni telur aðalkennara sinn. Árni var píanókennari við Tónlistarskólann í Reykjavík frá 1932, síðar skólastjóri og er nú tónlistarstjóri Ríkisútvarpins. Við síðastnefndu stöðunum tók hann af Páli Ísólfssyni.

Eins og áður hefur verið sagt, kom Árni í fyrsta sinn opinberlega fram sem píanóleikari í Reykjavík árið 1929. Frá 1935-1943 hélt hann næstum árlega sjálfstæða tónleika í Gamla Bíó, en í Austurbæjarbíó hélt hann Chopintónleika í desember 1947 og Beethovenstónleika í febrúar 1949. Þá hefur hann margoft komið fram sem píanóleikari í samleik með öðrum, t.d. í febrúar 1938 í Gamla Bíó, en þá léku þeir Árni, dr. Edelstein (cello) og Ernst Drucker (fiðla) Trió, op. 50, í a-moll, eftir Tschaikowsky, en þetta er eitt af mörgum kammermúsíkkvöldum, sem Árni tekur þátt í á þessu tímabili. Ennfremur hefur Árni leikið píanókonserta með Hljómsveit Reykjavíkur og aðstoðað fiðluleikara og söngvara með undirleik. Þeir Björn Ólafsson og Árni Kristjánsson héldu árum saman svonefnda Háskólatónleika í hátíðarsal skólans og fluttu þá mörg helztu fiðluverk klassísku meistaranna. Þessir tónleikar voru mjög vandaðir og vel sóttir.

Árni er einn af fáguðustu og beztu tónlistarmönnum þjóðarinnar og er píanósnillingur af Guðs náð. Chopin og Beethoven eru hans menn. Gáfa hans er skáldleg og list hans er ljóðræn.

Einar Markússon. Hann er bróðursonur söngkonunnar Maríu Markan og þeirra systkina og hefur dvalið langdvölum erlendis. Hann hélt píanótónleika í Gamla Bíó 10. janúar 1947.

Haraldur Sigurðsson. Haraldur Sigurðsson frá Kaldaðarnesi hélt píanótónleika í Gamla Bíó í júní 1938. Síðan líða mörg ár þar til hann lætur til sín heyra, því að hann situr í Kaupmannahöfn öll stríðsárin. Í október 1945 koma Þau hjónin Dóra og Haraldur hingað til Reykjavíkur, hún syngur og hann leikur undir, og auk þess heldur hann sjálfstæða píanótónleika. Þeim er vel fagnað, því að listahjónin eru vinsæl og dáð. Dóra hefur fíngerðan ljóðrænan sópran og syngur innilega. Haraldur er píanósnillingur og list hans er göfug. Tónninn er plastiskur, framsetningin viturleg og þaulhugsuð, stílvitundin sterk og leiknin afburðamikil og glæsileg. Hann hefur ljóðræna skáldkennd, sem norrænum mönnum er eiginleg, en hinn suðræni hiti og skapofsi er fjarri honum.

Haraldur er fæddur 5. maí 1892. Stundaði hann píanónám í tónlistarskólanum í Kaupmannahöfn og síðan í Dresden. Lék í fyrsta sinn opinberlega í Kaupmannahöfn árið 1917. Ennfremur hefur hann haldið tónleika í Skandinavíu, Þýzkalandi, Austurríki, Tékkoslóvakíu og Englandi. Hann var kennari tónlistarskólans í Erfurt 1918-19, og við konunglega tónlistarskólann í Kaupmannhöfn frá 1920, með prófessorsnafnbót frá 1949.

Rögnvaldur Sigurjónsson. Hann er fæddur á Eskifirði 15.okt. 1918, sonur Sigurjóns Markússonar sýslumanns og síðar stjórnarráðsfulltrúa. Rögnvaldur er nemandi Markúsar Kristjánssonar, píanóleikara og tónskálds.

Rögnvaldur lærði píanóleik hjá Árna Kristjánssyni í Tónlistarskólanum í Reykjavík, síðan í París hjá M. Champi og í New York hjá Sacha Gorodnitski. Fyrstu sjálfstæðu píanótónleikar Rögnvalds í Reykjavík voru í október 1937. Hann lék hér aftur 1938, eftir nám í París, og síðan hefur hann haldið sjálfstæða tónleika hér árin 1940-1942, 1945 og 1948-1950. Auk þess hefur hann margoft leikið opinberlega við önnur tækifæri og þá með öðrum hljóðfæraleikurum, þ.á.m. Hljómsveit Reykjavíkur. Tónleikar hans eftir 1950 tilheyra næsta tímabili.

Rögnvaldur hefur haldið píanótónleika í New York, Washington, Skandinavíu og víðar. Erlendir gagnrýnendur hafa viðurkennt hann sem snilling á heimsmælikvarða.

Dr. Victor Urbancic ritaði um píanótónleika Rögnvalds hér í Reykjavík sumarið 1945 og segir m. a. svo: „Rögnvaldur lék hér sömu verk, sem hann lék í Washington. Efnisskráin er auðsjáanlega sett saman í því skyni að sýna sem mesta fjölhæfni og má með því afsaka, að þau voru úr öllum áttum, eins og tízka var hjá hinum miklu snillingum 19. aldarinnar. Efnisvalið var að öðru leyti djarft, því að á skránni voru að minnsta kosti tvö verk, sem talin eru prófsteinar æðstu snilldarleikni: Sónatan eftir Liszt og Toccata eftir Schumann. Að leggja út í túlkun slíkra verka ber vott um mikla metnaðargirnd, að hafa túlkað þau eins og hann, vottar meistaradóminn.

Hvað menn eiga að hugsa um meðferð Rögnvalds á viðfangsefnum hans, getur verið álitamál og spursmál persónulegs smekks. En eitt er ótvírætt og ekkert umtalsefni. Það er vald hans á allri leikni slaghörpunnar, öllum litbrigðum ásláttarins, fullkomin yfirráð yfir hinni teknisku hlið leiksins. Fyrir honum virðist bókstaflega engir erfiðleikar vera til, enda er lipurð fingra hans af hinu léttara tagi sem leikur sér að öllu; jafnvel á hámarki líkamlegrar aflbeitingar (í sónötu Liszts) stynur hann aldrei, er ekki einu sinni sveittur eins og aðrir frægir Liszt-túlkendur, heldur ávallt sléttur, mjúkur, hrukkulaus. Hann minnir mig á hinn þekkta píanósnilling Horowitz og meðferð hans á verkum hins rómantíska stíls.“

Síðan minnist dr. Urbancic á lög eftir Debussy og Prokofieff og segir: „Það var mikið ánægja að heyra þessi nýstárlegu verk flutt af Rögnvaldi og gaman sérstaklega að lifa, hvernig hann sökkti sér niður í einkenni hvers þeirra. Til þess þarf bæði vit og sál.“

Aðrir tónlistargagnrýnendur, bæði íslenzkir og erlendir, hafa tekið í sama streng.

Rögnvaldur hefur verið kennari við Tónlistarskólans í Reykjavík síðan 1945.

Aðrir tónleikar Rögnvalds tilheyra næsta tímabili.

Agnes Sigurðsson. Vesturíslenzkur píanóleikari, íslenzk í báðar ættir. Hún lék í Austurbæjarbíó 3. og 7. júní 1948. Tæknin er mikil og fáguð, og sýndi hún, að hún er gæddi mikilli músíkgáfu. Hún lærði hjá Olgu Samaroff, sem er rússneskur píanósnillingur, fyrsts kona hljómsveitarstjórans Leopolds Stockowsky.

Elísabet Sigurðsson. Hún er dóttir Dóru og Haraldar Sigurðssonar, fædd í Kaupmannshöfn 23. marz 1941. Hún hélt píanótónleika í Trípólíleikhúsinu í sept. 1947, þá aðeins 16 ára gömul. Hér auglýsti hún nafn sitt á íslenzka vísu: Elísebet Haraldsdóttir. Hún stundaði nám í tónlistarskólanum í Kaupmannahöfn 1947-50 hjá föður sínum og Júlíus Thomsen. Sá síðarnefndi kenndi henni að leika á klarinett. Síðan stundaði hún framhaldsnám í París og hefur komið opinberlega fram síðan sem einleikari á klarínett í Tivolí í Kaupmannahöfn, danska útvarpinu og á mörgum kammermúsíkkonsertum þar í borg.

Margrét Eiríksdóttir. Fyrstu sjálfstæðu píanótónleikar hennar í Reykjavík voru í Gamla Bíó 10. sept. 1936. Þá var hún þegar orðin kunn fyrir píanóleik sinn á nemendatónleikum Tónlistarskólans. Síðan hefur hún nokkrum sinnum haldið sjálfstæða píanótónleika í Reykjavík, árin 1940, 1941 og 1946.

Margrét stundaði fyrst nám í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Síðan framhaldsnám við kgl. tónlistarskólann í London og var þar í nokkur ár undir handleiðslu Bowens, sem er kunnur píanósnillingur og tónskáld. Þar skaraði Margrét fram úr og vann meðal annars svonefndan Beethovensbikar og síðar heiðurspening úr silfri í samkeppni. Síðan stundaði hún nám hjá góðkunningja okkar Reykvíkinga, Kathleen Long, heimsfrægum píanósnillingi, sem nánar verður minnst á hér á eftir.

„Margrét Eiríksdóttir er velmenntuð listakona, sem ræður yfir töluverðri tækni og ósviknum dugnaði. Leikurinn er hánorrænn, áslátturinn ýmist þrunginn upprunalegum krafti eða borin uppi af söngrænni mýkt.“ (E.Th.)

Jórunn Viðar. Frúin er píanóleikari og tónskáld. Um tónskáldið verður rætt sérstaklega á öðrum stað. Hún er fædd í Reykjavík 7. desember 1918, dóttir Einars Viðar (sjá. bls. 201) og konu hans Katrínar, fædd Norðmann. Katrín Viðar er systir Jóns Norðmanns píanóleikara (sjá bls. 210) og sjálf hafði hún lært píanóleik erlendis. Jórunn byrjaði þriggja ára gömul að læra á píanó hjá móður sinni. Útskrifaðist úr Tónlistarskólanum í Reykjavík sama árið og hún varð stúdent. Hún lærði píanóleik í 2 ár í Berlín og lék þar opinberlega með undirleik hljómsveitar. Framhaldsnám stundaði hún í New York við Juilliard tónlistarskólann.

Jórunn Viðar hélt píanótónleika í Austurbæjarbíó 6. nóvember 1947 og eru það fyrstu tónleikar, sem þar eru haldnir. Hún lék tónsmíðar eftir Beethoven, Bach, Chopin, Debussy og Paganini-Liszt. Hún lék í Gamla Bíó 4. desember 1949 verk eftir Brahms, Schumann, Bartok, Stravinsky o. fl. Í október sama ár lék hún á Háskólatónleikum nokkur lög eftir Chopin og ennfremur Trio eftir Chopin með þeim Birni Ólafssyni fiðluleikara og Einari Vigfússyni cellóleikara. Tónleikarnir voru haldnir til minningar um hundruðustu ártíð tónskáldsins. (Chopin dó 17. okt. 1849).

Gáfa Jórunnar Viðar er ljóðræn og leikur hennar er fágaður og músíkalskur. „Hér er um að ræða listakonu, ærlega og alvarlega, og umfram allt: Hér er músík í æðum.“ (P.Í.)

Sesselja Stefánsdóttir. Ungfrúin hélt píanótónleika. í Gamla Bíó um haustið 1932, eftir þriggja ára nám í Berlín, og fimm árum síðar, í desember 1937, lék hún aftur á sama stað, og hafði hún þá enn stundað nám í Berlín undanfarin ár. Á efnisskránni voru verk eftir Liszt, Þar á meðal h-moll sónatan, Brahms og Debussy. Ungfrúin naut sín ekki eins og efni stóðu til, og er það ekki eindæmi um píanóleikara að taugaóstyrkur hái þeim.

Þórunn Jóhannsdóttir. Hún er dóttir Jóhanns Tryggvasonar söngstjóra og ólst upp í London. Þar stundaði hún píanónám frá barnæsku við konunglega músíkskólann. Hún hélt fyrstu píanótónleika sína hér í Reykjavík í Trípólileikhúsinu um haustið 1947, þá aðeins 8 ára gömul. Í Austurbæjarbíó lék hún um vorið 1948 og aftur á sama stað í september 1949, þá orðin 10 ára gömul, en veturinn áður hafði hún leikið opinberlega í London píanókonsert eftir Alece Rowly með undirleik Sinfóníuhljómsveitar Lundúna. Var þetta frumuppfærsla á nefndum píanókonsert.

Þórunn fékk hér góðar undirtektir og var mörgum forvitni á að sjá undrabarnið og heyra það spila.
Þórunni giftist rússneska píanósnillingnum Wladimir Askenasi.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is