Pétur Guðjohnsen organisti

Pétur organisti Guðjohnsen er fæddur á Hrafnagili í Eyjafirði 29. nóvember 1812. Foreldrar hans voru Guðjón bóndi Sigurðsson, Grímssonar Þorlákssonar prests í Miklagarði, – og fyrri konu hans Guðlaug Magnúsdóttir dóttir prófasts Erlendssonar að Hrafnagili og Ingibjargar lögmanns Sölvasonar. Foreldrar Péturs tóku snemma eftir því, að sonur þeirra var námfús og vel gefinn, og var hann því settur til mennta, mest af ráðum móður hans. Hann lærði undir skóla hjá Jóni lærða Jónssyni á Möðruvöllum í Eyjafirði. Haustið 1832 var hann tekinn í efra bekk Bessastaðaskóla og varð stúdent þaðan 1835 með heldur góðum vitnisburði. Hann sá aldrei aftur Norðurland eftir það. Pétur varð að kosta sig að mestu sjálfur í skóla, því faðir hans gat lítið styrkt hann; sumarvinnan varð að nægja honum.

Að loknu skólanámi lék honum hugur á að sigla og nema læknisfræði, en til þess skorti hann fé. Prestur vildi hann ekki verða. Næstu tvö árin var hann við verzlunar- og skrifstofustörf í Reykjavík. En þá varð kennaralaust við barnaskólann, sem Reykvíkingar höfðu komið sér upp árið 1830, því að Ólafur stúdent Einarsson Hjaltested hvarf frá skólanum til þess að gerast prestur í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Var Pétur Þá ráðinn kennari í hans stað. Það lýsir Pétri vel, hversu vandaður hann var í störfum sínum, að hann taldi þörf á að fá sérmenntun í kennaraskóla til undirbúnings starfinu, þótt stúdent væri. Reykvíkingar kostuðu hann þá til náms í kennaraskólanum í Jonstrup á Sjálandi. Hann settist þar á skólabekk haustið 1837 og lauk þaðan prófi 26, apríl 1840.

Dvöl hans í Danmörku varð þýðingarmikil fyrir sjálfan hann og íslenzkt sönglíf, því þar fann hann köllun sína. Í kennaraskólanum lærði hann hljóðfæraslátt og lagði hann sérstaklega stund á kirkjutónlist. Í Danmörku opnaðist fegurðarheimur evrópskrar tónlistar fyrir honum og hann varð hrifinn af þeim söng og söngmenningu, sem hann kynntist þar. Hann átti enga ósk heitari en þá að geta kynnt löndum sínum þessa tónlist og komið meira menningarsniði á sönginn í landinu, ekki sízt kirkjusönginn.

Um vorið 1840 kom Pétur heim til Íslands og sama sumar kom orgel í dómkirkjuna, sem hafði verið keypt að tillögum hans. Dómkirkjuorganistastarfinu gegndi hann í 37 ár, til æviloka. Hann tók þá við kennarastarfinu við barnaskólann, en missti það í árslok 1846, er styrkur til skólans úr Thorkellisjóði var felldur niður; skólinn var þá lagður niður. Sumarið 1846 var latínuskólinn fluttur frá Bessastöðum til Reykjavíkur. Pétur var þá ráðinn söngkennari við skólann og gegndi því starfi það sem eftir var ævinnar, í 31 ár. Árið 1849 var organistastarfið, söngkennslan í Latínuskólanum og tónkennsla í Prestaskólanum sameinuð og launuð með 460 kr. árslaunum. Þessi laun voru of lág til að geta lifað á, því að heimilið var þungt – börnin urðu 15. Hann varð því að hafa önnur störf að aðalatvinnu og var þess brýn þörf eftir að barnaskólinn hafði verið lagður niður, en hann missti þá spón úr aski sínum. Pétur var eftir það stiftamts- og landshöfðingja skrifari, alls í 25 ár. Þar fyrir utan fékkst hann töluvert við málflutning. Hann var settur sýslumaður í Árnessýslu í eitt ár (1849-50), alþingismaður Gullbringu- og Kjósarsýslu 1865-68. Öllum þessum störfum gegndi hann með alúð og atorku.

Pétur er nafnkunnastur fyrir það, hversu vel og rækilega hann vann að útbreiðslu sönglistar hér á landi. Það er vert að líta á það, hversu örðug aðstaða hans var, því að önnur störf upptóku starfskrafta hans að mestu leyti. Vinnudagurinn var langur. Skrifstofutíminn var frá kl. 9 á morgnanna til kl. 7 á kvöldin. Eftir að heim var komið, tóku við skriftir við málflutning fram eftir kvöldinu og varð þá ekki annar tími til að sinna tónlistinni en nóttin, hann heyrðist aldrei kvarta og lagði fúslega á sig svo mikið erfiði, til þess að fjölskyldan gæti lifað sómasamlegu lífi og börnin fengið menntun.

Ævisögu Péturs Guðjohnsens ritaði nemandi hans, Einar Jónsson, síðar prófastur á Hofi í Vopnafirði, og er hún birt framan við hina þrírödduðu sálmasöngsbók Péturs. Hér að framan hefur verið stuðst við þá ævisögu.

Pétur var kvæntur ágætiskonu Guðrúnu Sigríði, dóttur Lárusar Knudsens kaupmanns í Reykjavík. Hún var fædd 15. nóv. 1818 og dó 12, júlí 1899. Þau áttu, eins og áður er sagt, 15 börn og voru 11 á lífi, þegar Pétur andaðist 25. ágúst 1877, 64 ára gamall, eftir stutta legu. Þau ólu upp einn fósturson. Hér á eftir eru talin þau 11 börn þeirra hjóna, sem upp komust:
Lára Mikalína átti séra Jón Bjarnason í Winnepeg.
(Jörgen) Pétur (Havsteen) stúdent og verzlunarstjóri á Vopnafirði.
Þórður (Sveinbjörnsson) lengi verzlunarstjóri á Húsavík, síðar í Kaupmannahöfn.
Guðlaug Magnea Ingibjörg átti Hermann stúdent Hjalmarsson, og fóru til Vesturheims.
Einar Oddur læknir í Vopnafirði.
Kirstine Katrín átti Lárus Halldórsson, prófast í Norður-Múlasýslu – síðar fríkirkjuprest í Reykjavík.
Martha María átti Indriða Einarsson rithöfund, skrifstofustjóra í Stjórnarráðinu.
Guðrún Sigríður átti séra Jens Pálsson í Görðum á Álptanesi.
Anna Lovísa átti Þórð lækni Thoroddsen.
Emelía, fyrri kona Ásgeirs læknis Blöndals.
Kristjana átti Halldór Jónsson, bankagjaldkera í Reykjavík.
Pétur Guðjohnsen vann að kappi og áhuga að því ryðja sönglistinni braut hér á landi. Þetta gerði hann með ritum sínum og kennslustarfi. Prentuð rit eftir hann eru þessi:
Íslenzk sálmasöngs- og messubók með nótum, gefin út af hinu íslenzka Bókmenntafélagi. Kbhvn. 1861.
Þetta er einrödduð sálmasöngsbók með 110 sálmalögum, svo og tónlagi presta og svörum safnaðarins. Messulögin eru öll eftir hann sjálfan. Hann hafði safnað til bókarinnar í 20 ár og er hún einhver vandaðasta kirkjusöngsbók, sem gefin hefur verið út hér á landi. Það var einmitt þessi bók, sem hratt af stað almennri byltingu í söng okkar, ásamt kennslustarfi hans.
Leiðarvísir til þekkingar á sönglistinni, Rvík , 1870.
Þessi söngfræði er þýdd úr dönsku að miklu leyti (eftir Gebauer). Það var ekki fyrr en þessi söngfræði kom út, að þekking alþýðu í þessari grein fór að glæðast.
Sálmasöngsbók með þrem röddum. Gefin út af sonum hans. Kbhvn. 1878.
Handritið að þessari bók var ekki fullgert, þegar Pétur féll frá, og var þá Einar Jónsson stud. theol. síðast prófastur á Hofi í Vopnafirði, fenginn til að sjá um útgáfuna, en hann var einn af nemendum Péturs. Í bókinni eru prentuð 119 sálmalög. Framan við bókina er ævisaga Péturs Guðjohnsens, rituð af Einari, eins og áður er sagt.
Pétur Guðjohnsen tileinkaði einrödduðu sálmasöngsbókina frá 1861 lærisveinum sínum, en þó einkum vini sínum og velgerðarmanni prófessor Andreas Peter Bergreen, hinu kunna tónskáldi við Þrenningarkirkjuna í Kaupmannahöfn. Þeir voru miklir vinir og skiptust á bréfum í hverri póstferð. Bergreen las prófarkir að þrírödduðu sálmasöngsbókinni. Í sálmasöngsbók Péturs eru þau lög, sem fram á þennan dag hafa verið meginuppistaðan í safnaðarsöng okkar Íslendinga, og gætir þar áhrifa frá Bergreen, sem á fleiri sálmalög þar en nokkurt annað tónskáld, en um þetta hefur verið rætt hér að framan. Pétur skírði einn sona sinna í höfuðið á þessum mæta manni.

En þótt Péturs Guðjohnsens sé fyrst og fremst minnst fyrir starf hans í þágu kirkjusöngsins, þá má ekki gleyma því, að hann er fyrsti brautryðjandi rómantískrar tónlistar á sviði verzlega söngsins. Hann æfði margraddaðan söng með nemendum sínum í Latínuskólanum og þau útlendu sönglög, sem hann lét syngja, breiddust síðan með nemendum hans út um landið, og einnig betri og réttari söngur en áður þekktist. Í sálmasöngsbókum okkar er frumsamið lagt eftir Pétur Guðjohnsen: „Lofið guð, ó, lýðir göfgið hann“. Þetta er eina sönglagið, sem ég hefi séð á prenti eftir hann. Einn af niðjum hans hefur sagt mér, að fleiri frumsamin lög eftir hann hafi verið til í handritum, sem því miður eru nú glötuð. En sálmalagið, sem áður er nefnt, er er tilkomumikið og kirkjulegt og er mikill fengur að því að eiga annað eins sálmalag eftir þann mann, sem markað hefur svo djúp spor í söngsögu okkar.

Þess er ekki að vænta, að mikið geti legið eftir mann í tónsmíðum, sem ekki hafði annan tíma en næturnar til að sinna tónlistinni. Ævisöguritari hans komst vel að orði er hann segir, að hans farsælustu rit hafi verið þau, sem hann reit í hjörtu lærisveina sinna. Með þeim breiddist söngþekking út um landið og árangurinn varð svo vakningin í sönglífi þjóðarinnar.

Þegar „nýju lögin“, sem Pétur var að innleiða, tóku að breiðast út um landið, einkum með ungum prestum, þá mætti þetta nokkri mótspyrnu, Því margir söknuðu „gömlu laganna“, sem nú var farið að kalla svo, og jafnvel sumir sönggarparnir hættu alveg að syngja vegna þessarar „vanhelgunar“. Því fór fjarri, að menn kynnu almennt að meta starf hans fyrst í stað og sætti hann aðkasti og mótspyrnu framan af frá þeim mönnum, sem tóku hinn „gamla söng“ fram yfir „þann nýja“. Þessir menn höfðu mætur á „gömlu lögunum“ svonefndu og öðrum gömlum íslenzkum þjóðlögum, en í þeim var annað tóneðli en í hinni evrópsku tónlist, sem Pétur var að innleiða, „Dúr“ og „moll“ sátu að völdum í hinum nýja söng, en kirkjutóntegundirnar gömlu í hinum þjóðlega söng. Af því spratt mótspyrnan. Um þetta segir Pétur: „Mér hefur ekki allsjaldan verið brugðið um, að ég væri að innleiða ný sálmalög og hafnað hinum gömlu, einmitt meðan ég hefi leitast við að ná aftur hinni upprunalegu fegurð og einfaldleik þeirra, og hefur hégilja þessi ekki sjaldan fengið mér örvæntingar um nokkurn árangur af vinnu minni“ (Úr formálunum fyrir einrödduðu sálmasöngsbókinni). En „nýi söngurinn“ var það, sem koma átti, því það var sú tónlist, sem átti við tíðarandann. „Gömlu lögin“ urðu smámsaman að þoka og brátt tók þjóðin nýju lögunum fengins hendi. Pétur hafði orðið að þola margt illt orð í eyra frá þeim mönnum, sem héldu fast við gamla sönginn, en áður en hann féll frá voru þessar raddir að mestu þagnaðar.

Pétur Guðjohnsen var mikilsvirtur og dáður af lærisveinum sínum. Þeir gáfu honum píanó 1855og heiðruðu hann með blysför á afmælisdegi hans 1874 og var þá sungið kvæði, sem Gestur Pálsson orti til hans. Þar segir m. a. svo:
Þökk fyrir störf á fósturfold
faðir söngs á Ísamold.
Á Þjóðhátíðinni 1874 fékk hann heiðurspening úr gulli.

Áður en Pétur féll frá hafði hann unnið sigur og, var það viðurkennt af samtíðarmönnum hans. Við útförina lýsti Hallgrímur dómkirkjuprestur Sveinsson manninum þannig: „Og enginn mun neita því um hinn framliðna, að hann var mesti kapps- og áhugamaður í hverju, sem hann gekk að. Það sem hann vildi, það vildi hann af alhuga, og það sem honum var á móti geði, það hlífðist hann eigi við, því tilfinningar hans voru heitar og örar. Hann var heitur og hann gat verið kaldur, en að vera mitt á milli, það gat hann eigi. Þetta kom jafnan fram í lífi hans og gat engum dulist, þekkti hann að nokkru.“ Tónlistargáfan hefur komið fram í mörgum af niðjum hans og skulu hér nefndir nokkrir dætrasynir hans, sem nafnkunnir eru: Þá skal fyrstan telja Emil Thoroddsen tónskáld, son Önnu, er var gift Þórði lækni Thoroddsen. Þá skal nefna þá bræður, Jón söngstjóra Fóstbræðra og Pétur borgarstjóra, sem var góður söngmaður. Bróðir þeirra, Halldór bankastjóri á Ísafirði, lék vel á píanó og þá ekki síður frú Hólmfríður systir þeirra, kona Jósefs prófasts Jónssonar á Setbergi, en hún var með beztu píanóleikurum í Reykjavík á yngri árum sínum og lék oft opinberlega. Þetta eru börn Kristjönu og Halldórs bankastjóra Jónssonar. Þá skal nefna systkinin Valgerði, sem var tónskáld, og Pétur nótnasetjara og organista Fríkirkjunnar í Reykjavík, en þau eru börn Lárusar Halldórssonar fríkirkjuprests og Kristínar. Og loks skal nefna Einar Viðar, sem á sínum tíma var kunnur söngmaður í Reykjavík, sonur Mörtu og Indriða Einarssonar. Einar er faðir Jórunnar Viðar, tónskálds og píanóleikara.

Aldarafmælis Péturs Guðjohnsens var hátíðlega minnst í Dómkirkjunni í Reykjavík 29. nóvember 1912 og er sú athöfn enn mörgum minnisstæð. Guðmundur Guðmundsson orti þá kvæði um Pétur Guðjohnsen („Sál hans var titrandi tóna hafa“), en Sigfús Einarsson samdi lag við, sem þá var sungið af blönduðum kór – kvenna-drengja og karlmannaraddir – undir stjórn höfundarins. Einsöng í laginu söng frk. Anna Jónsson, sem síðar giftist Tryggva Þórhallssyni forsætisráðherra, en Páll Ísólfsson lék á orgelið. Það var einmitt á þessum merkisdegi, sem Páll Ísólfsson kom í fyrsta sinn opinberlega fram í íslenzku tónlistarlífi. Kvæðið, sem sungið ver, byrjar þannig:
Sál hans var titrandi tónahaf
með töfrastaf
hljómana leysti hann úr læðing;
Þjóðsönginn vakti hann úr værðardöf,
í vöggugjöf
hljómnæmi fékk hann við fæðing.
Um tónanna skjöldung í hljómsins höll
sig hópaði æskan glaða,
hún bar þaðan list hans um laut og fjöll
með líðandi ómþunga og hraða.
Lag Sigfúsar við kvæðið er mjög fagurt og tilkomumikið.

Hér á eftir verður sagt frá því, þegar Pétur Guðjohnsen sótti um Vestmannaeyjaprestakall, en sem Bessastaðastúdent var hann gjaldgengur í prestsembætti. Tilefnið var deilur um launakjör hans við dómkirkjuna, en kröfum hans hafði ekki verið sinnt. Lífskjör hans í Reykjavík voru þröng, því að fjölskyldan var stór og tekjurnar litlar. Orgelið í dómkirkjunni kemur þar einnig við sögu og verður nú sagan sögð eftir fundarbókum bæjarstjórnar Reykjavíkur.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is