Opið bréf til tónlistardeildar útvarpsins vegna óþjóðhollra starfshátta (96)

Árið 1951 var á Akureyri prentað lítið hefti sem bar ofannefndan titil. Tónskáldið og söngstjórinn Björgvin Guðmundsson hafði fyrr á öldinni búið í Kanda og starfað þar sem tónlistarmaður. Eftir heimkomuna varð hann var við það – ekki ósvipað og Jón Leifs – að ýmsar ráðandi stöður í tónlistarmálum þjóðarinnar væru þá þegar setnar af öðrum. Viðhorf þeirra sem í stöðunum sátu og um leið réðu miklu og viðhorf Björgvins (og þá um leið Jóns Leifs) fóru ekki alltaf saman og því urðu oft á tíðum miklir árekstrar. Þetta bréf Björgvins er einskonar persónulegt uppgjör við ráðamenn tónlistarmála.

Ýmislegt má lesa út úr titli þessa bréfs. Það fyrsta sem í hugann kemur eru samskipti við tónlistardeild útvarpsins sem í titlinum “opið bréf” gefur til kynna að ekki séu höfundinum að skapi. Hvað varðar “óþjóðholla starfshætti” dettur manni fyrst í hug þjóðernishyggjan sem var svo ríkjandi á stíðsárunum og eftir þau. Við lestur þessa “opna bréfs” verður einmitt sú niðurstaða.

96 Björgvin Guðmundsson: Opið bréf til tónlistardeildar útvarpsins vegna óþjóðhollra starfshátta; Akureyri 6. janúar 1951.

Björgvin hefur bréfið á þessum málshætti: “Vandfarið er valdsmönnum”. Bréfið er að meginefni byggt á sömu baráttu og Tónskáldafélagið var að vinna að, en átti þó hjá honum rætur miklu lengra aftur í tímann, eða allt aftur til ársins 1936 er hann ritaði grein í tímaritið Heimi um tónlistarmál. Það skal taka fram að þetta baráttumál Björgvins, að fá tónlist sína flutta í útvarpið og auka flutning á því sem hann skilgreindi “íslenska tónlist” er eins konar fyrirennari fyrir baráttu Tónskáldafélagsins. En hannhafði þó óbeit á þeim aðferðum sem Tónskáldafélagið beitti í þeirri baráttu og ekki síst á baráttuaðferðum fyrir réttindamálum íslenskra tónskálda – og þá aðallega STEFs – enda mætti hann aldrei á fundi þess þó svo hann væri félagi frá upphafi. Gaf hann öðrum félagsmönnum umboð til að fara með atkvæði sitt á aðalfundum þess allt til dauðadags.

Þetta bréf fjallar í höfuðdráttum um tvennt. Annars vegar persónuleg samskipti hans við tónlistarstjóra Ríkisútvarpsins, Pál Ísólfsson; hins vegar um stefnu útvarpsins í tónlistarmálum almennt. Er vitnað í því í bréfaskrif Bjögvins til Páls á nokkurra ára tímabili. Ljóst er, að það andaði köldu milli þeirra Páls og Björgvins, enda var Björgvin mjög óvæginn í gagnrýni sinni á Pál og starf hans hjá útvarpinu. Björgvin hefur haft eitthvað til síns máls, en Páll og ekki síður Jón Þórarinsson reyndu að verjast árásum hans með bæði blaðaskrifum og ekki síður ísköldu afskiptaleysi sem birtist í því að, a.m.k. framan af, að svara ekki bréfum hans.

Hvort eitthvað hefur legið í því eins og Björgvin segir á einum stað að “smámennin ættu ekki að gefa höfðingjum ráð” skal látið ósagt, en haft hefur verið eftir tónlistarfulltrúum útvarpsins að m.a.

íslenskar hljómplötur væru svo illa uppfærðar, að þær gætu naumast talizt boðlegar, (97)
eða,
Hann [Jón Þórarinsson] hefir jafnvel lýst sig andvígan flutningi ísl. tónlistar yfirleitt þar sem hún gæti varla talizt frambærileg, (98)
eða
Því er, á meira eða minna lævísan hátt, haldið að þjóðinni, að engin íslenzk tónskáld séu til. Allt, sem þau geri, sé að stela úr erlendum tónverkum o.s.frv. (99)

Þetta gæti m.a. verið ástæða þess að Björgvin Guðmundsson hefur fundið sér tekið illa af útvarpinu – að það vildi ekki leika tónlist hans.

Í gagnrýni sinni á stefnu útvarpsins í flutningi á tónlist yfirleitt líkir hann henni við gerlaframleiðslu: “Og einmitt vegna þess hve sóttnæmir Íslendingar eru á andlegar drepsóttir, væri tilhlýðilegra, að útvarpið sem Ríkisstofnun tækist á hendur sóttvarnir í þessu sambandi, en ekki gerlaframleiðslu”. (100)

97 Sama. bls. 19.
98 Siguringi E. Hjörleifsson: Útvarpið og íslenzk tónlist, Tíminn, 9. apríl 1953.
99 Björgvin Guðmundsson, Opið bréf… bls. 23.

100 Björgvin Guðmundsson: Opið bréf… bls. 26.

Þar kemur hann inn á það viðhorf útvarpsins að útvarpa eins fjölbreyttri tónlist og mögulegt var. Björgvin var af “gamla skólanum”, þ.e. það sem yngri menn um miðja öldina kölluðu “19. aldar menn” með neikvæðum formerkjum. Þeir áttu erfitt með að sætta sig við breytingar, og höfnun á hinni rómantísku stefnu í bókmenntum og listum. Því til staðfestingar vil ég birta hér hluta úr “bréfi” hans:

En svo allt í einu kemur útvarpið til sögunnar, og allar tegundir músikalskra og ómúsikalskra heimsbókmennta bylja á þjóðinni skipulagslaust eins og gjörningaveður, allf ofan frá symfóníum Beethovens og óperum Wagners, niður í leirugustu dægurlög og klæmnasta jazz. Þó verður sú tegundin útundan, sem sízt skyldi, semsé kór-tónlistin,og mun ég víkja að því síðar. En af skiljanlegum ástæðum hafa þessu snöggu veðrabrigði bókstaflega forheimskað þjóðina. Hið mikla langstökk frá fyrrnefndum smálögum, þótt kjarngóð væru þau mörg, yfir í fyrirferðarmesta tónlist heimsins, er hliðstætt við, að barni úr þriðja bekk í barnaskóla væri fyrirvaralaust snarað upp í sjötta bekk í menntaskóla. Sá, sem það vildi reyna, hefði að vísu rétt fyrir sér í því, að þar er um víðtækari menntun að ræða. Hins vegar hefir barnið ekkert fyrir sér annað en sínar eigin takmarkanir, en það eru líka þær, sem allt verður að miðast við. Yfirsjón útvarpsins liggur ekki endilega í því, að það hafi ekki boðið upp á nógu góða tónlist, því að heimskunnustu óperur og symfóníur voru með því fyrsta, sem það sendi frá sér. En hvort tveggja var langt fyrir utan almennan, músíkalskan sjóndeildarhring. Í því liggja mistökin, og það því fremur þegar þess er gætt, að til jafns við þessa ofviða tónlist, og rúmlega það, flæðir svo kolmórauður kaststrengur af erlendum leirburði, sem er þjóðinni þeim mun skaðlegri sem margir taka hann góðan og gildan sem erlenda list. Fyrir þessum leiruga ófögnuði er svon hinni létti, en holli kór- og sönglagastíll, sem hér var búinn að festa rætur, algerlega að víkja. Fólk kann ekki lengur alþýðulögin svo nefndu, og þeim fækkar óðum sem geta tekið undir samkvæmis-hópsönginn að gömlum og góðum sið. En hinum fjölgar að sama skapi, sem, án þess að þekkja nótur, komast til ráðs við eitthver slagara-slitur, sem þeir svo þjösnast á hæverskulaust í tíma og ótíma, hvar sem þeir ná í hljóðfæri, svo að varla er vært utan húss, hvað þá innan, þar sem þeir leika listir sínar.

Svona er þá komið tónrænu athafnalífi alþýðunnar, og frá “hærri stöðum” seytla inn til þessarar afskektu þjóðar alls kyns “fúlulækir” frá öfga-uppsprettum þeirra músíkölsku óaldar, sem afleiðingar stríðsins, útvarpið, talmyndinar, jazzinn og ismarnir hafa leitt af sér. Ismar ríða hér húsum eins og römmustu uppvakningar, og að “istarnir” æpa heróð á hverju götuhorni, hristandi asnakjálkana framan í sérhverja listræna athöfn, sem ekki biður þá auðmjúklega fyrirgefningar á því, að hún varð til. Því að jafnskjótt og fréttist til einhver isma austur í Japan, má ganga að því vísu, að hann mæti manni í vígahug hér úti á Íslandi næsta dag. Kapphlaupið um, að “fylgjast með tímanum” sem kallað er, er að snúast upp í örþrifa flótta frá lífsfrjóinu í okkur sjálfum, og á þeim flótta má segja, að hver berji annan áfram. Það, að vera kallaður 19. aldar maður, er eitt hið mesta smánaryrði, sem hægt er að segja um nokkurn mann nú á dögum. Jafnvel sá, sem á einhverja ögn eftir af sjálfum sér frá því fyrir 5-10 árum, er óðar dæmdur nátttröll og steingerfingur, slórandi aftur í ómuna fornöld. Hvað afskipti blaða og tímarita af íslenzkri tónsmíða-viðleitni snertir, felast þau mestmegnis í því, að gefa ábyrgðar-, þekkingar- og dómagreindarlausum og öfundsjúkum skriffinnum rúm fyrir órökstuddar árásir og sleggjudóma, meðal annars tilraunir til að gera íslenzk tónskáld tortryggileg í augum þjóðarinnar, með staðlausum brigzlyrðum um rithnupl og öðrum slíkum aðdróttunum, vitandi þó vel, að mestallar íslenzkar tónbókmenntir liggja óprentaðar og óheyrðar heima í föðurhúsum. Enda er svo komið, að þeir, sem eitthvað geta, hafa varla lengur starfsfrið fyrir gegndarlasumum og strákslegum forskriftum hinna, sem ekkert geta. Svona er tíðarfarið í landinu”. (101)

101 Björgvin Guðmundsson: Opið bréf… bls. 10-12.

Björgvin var ekkert einn um að hafa þessa skoðun. Hin svokallaða “tónmenningar-þróun” varð geysi hröð á Íslandi frá árinu 1930 og má þar fyrst og fremst nefna tilkomu útvarpsins og smám saman almennari eign á útvarpstækjum og grammófónum sem gerði það að verkum að fólk gat nú m.a. hlustað á erlendar útvarpsstöðvar og leikið hljómplötur. Kaffihúsamenningin tók einnig heilmikinn fjörkipp og þar með jókst hlustun á saloon tónlist og jass, og danshljómsveitirnar léku þá dægurtónlist sem heyrðist úti í hinum stóra heimi. Fólkið í landinu var smátt og smátt að koma út úr einangruninni og hafna hinni einhæfu karlakórs- og ættjarðarstefnu sem hafði verið við lýði í svo mörg ár. Það var smám saman að kynnast og gera kröfur til fjölbreyttari tónlistar. Þjóðin var að taka á móti nokkru sem sumir kölluðu “ofnautn erlendrar menningar og ómenningar, sem hún gleypir örar en hún getur melt”.

Eðlilegt er að mönnum eins og Björgvin, og fleirum hafi sárnað sú þróun, sem átti sér stað, og talið að þjóðin væri að missa sjónar þeirri hefð sem hann sjálfur hafði alla tíð verið hluti af og lifað og starfað fyrir. Það er eðlilegt að honum hafi þótt keyrt full hratt í þeirri stefnu tónlistarráðunauta útvarpsins að kasta þjóðinni fram á við um mörg hundruð ár, skrúfa tímann fram til nútíðar og að nota þennan miðil með það fyrir augum að hann flytti “eitthvað fyrir alla”. Miðað við tónlistarþroska þjóðarinnar, hefði tekið áratugi að fylgja þeirri þróun sem Björgvin bendir á í bréfi sínu þar sem hann segir:

Tónlistin er svo ung í landinu, að aðeins ein kyslóð er búin að athafna sig á því sviði og varla þó. En á því tímabili, frá því um 1880 til 1920, þroskaðist þjóðin hægt og eðlilega. Skortur á tekniskum möguleikum o.fl, varnaði því, að einstakir menn fengju aðstöðu til að hafa í frammi alls konar áróðurs-, kúgunar-, og einræðis-brölt, þvert ofan í þroska og vilja almennings.

Að “þroskast hægt og eðlilega” getum við séð í þeirri staðreynd að árið 1920 var engin hljómsveit til í landinu, engir blandaðir kórar, enginn tónlistarskóli, nánast allir hljóðfæraleikarar voru einskonar “dúllarar” á hljóðfæri sín, engin fastmótuð stefna í tónlistarmálum yfirleitt, engin tónlistarkennsta að ráði. Ef “snigils”-tempóið í þróun tónlistarmála í landinu hefði fengið að viðgangast, má fljótlega sjá hvert næstu 40 árin hefðu fært okkur. Það var m.a. þessi íhaldssemi og þjóðernishyggja sem þeir útvarpsmenn höfðu við að berjast eða með öðrum orðum, andstaða ýmissa manna gegn breyttum aðstæðum sem hvorki höfðu ekki hæfileika né löngun til að aðlaga sig þeim.

Einnig var ríkjandi meðal eldra fólks og hefur alltaf verið að allt gamalt sé gott. Því var hin rómantíska stemning í kringum þjóðskáldin og lögin við ljóð þeirra svo ríkjandi meðal hinnar eldri kynslóðar að það var það umhverfi sem hún ólst upp við og hafði fengið að vita að væri hin eina rétta. Einnig var sú staðreynd að tónlistinni var ætlaður takmarkaður tími í dagskrá útvarpsins vegna árhundraða ofurmáttar hins ritaða og talað orðs í íslenskri menningu. Það má því segja að Jón Þórarinsson hafi haft rétt fyrir sér þegar ég spurði hann einhvern tíma að því hvers vegna þeir hefðu leikið allt þetta “sinfóníugaul” í útvarpinu þegar andstaðan var svo mikil og hann svaraði: “Hvað gátum við annað gert?”

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is