Norræna tónlistarhátíðin 1954

Við það að Ísland gerðist aðili að Bernarsambandinu haustið 1943 opnaðist leið fyrir Tónskáldafélag Íslands að gerast meðlimur í Norræna Tónskáldaráðinu eins og bent hefur verið á. Við það öðluðust Íslendingar rétt til að halda hinar Norrænu Tónlistarhátíðir. Var það viðburður í hverju Norðurlandanna annað hvert ár frá árinu 1947 (þó fjórða hvert ár frá 1888-1938, en féll þá niður í 9 ár vegna stríðsins. Íslendingar áttu í fyrsta sinni fulltrúa árið 1938).

Það kom í hlut tónskáldafélagsins íslenska að halda hátíðina í fyrsta sinni hér á landi árið 1954. Undarlegt verður að teljast, ekki síst í ljósi baráttu Jóns Leifs fyrir kynningu á íslenskri tónlist, að ekki var flutt íslensk tónlist á hátíðinni. Mun nú útskýrt hvernig á því stóð.
Í bókun Tónskáldafélagsins á fundi þess sem send var útvarpi og blöðum segir eftirfarandi:

Að gefnu tilefni leyfir stjórn Tónskáldafélags Íslands sér að vekja eftirtekt á því, að reglur Norræna Tónskáldaráðsins mæla svo fyrir, að á hátíðum þess verði aðeins flutt verk, er ekki hafa áður heyrst á hátíðarstaðnum. Ennfremur vill stjórn Tónskáldafélagsins að gefnu tilefni, vekja eftirtekt á því, að ef svo kynni að vilja til, að eitthvert íslenskt tónskáld eigi verk í smíðum, sem ekki geta verið fullsamin fyrir 1. des. nk. geri þau stjórn félagsins grein fyrir því og mun þá í hverju einstöku tilfelli tekið til athugunar hvort hægt er að framlengja frestinn. (116)

Ennfremur segir í bókun frá stjórnarfundi félagsins:

Skúli Halldórsson óskaði bókað eftirfarandi:

Frá því að ákveðið var að halda norræna tónlistarhátíð í Reykjavík á árinu 1954, hefir það verið álit mitt að flytja bæri íslenska tónlist þar. Tjáði ég þegar í upphafi meðstjórnendum mínum í Tónskáldafélaginu þessa skoðun mína, og marg ítrekaði hana síðar. Tel ég með öllu óviðeigandi að íslensk tónlist skuli ekki flutt á hátíðinni og get ekki fallist á þær röksemdir, sem færðar eru fram fyrir því, að slíkt sé ekki framkvæmanlegt, eins og þær að ekki séu fyrir hendi verk…

Helgi Pálsson óskar bókað:

Það er rétt í framanritaðri bókun Skúla Halldórssonar, að hann vakti máls á því snemma á sumri s.l. árs, að æskilegt væri að ísl. tónleikar væru haldnir á komandi norrænu tónlistarhátíð, og var ég honum fyllilega sammála um það og ítrekaði það oft síðan. Hins vegar bárum við Skúli þetta atriði aldrei undir atkvæði í stjórn Tónskáldafélagsins, þó að ég marg sinni héldi því fram að hefja yrði straks á s.l. sumri undirbúning að þeim hljómleikum og auglýsa eftir verkum og æfa þau. Við þessu komu aldrei fram nein ákveðin mótmæli og ekki heldur var hafist handa um þennan undirbúning og málið látið dankast fram í nóv. s.l., að auglýst var eftir verkum, og ekki heldur hefur dómnefnd sú, sem kosin var til að kanna verkin enn fengið þau í hendur. Ég leit þá svo á að þar sem við ekki höfum krafist þess að þessi vilji okkar yrði framkvæmdur þá sé of seint að gera ágreiningsatriði um þetta og sé stjórn Tónskáldafélagsins öll samábyrg fyrir þessum óeðlilega drætti öllum og óviðeigandi með öllu nokkur Pílatusarþvottur á máli þessu. (117)

Í fundargerðinni segir:

Formaður vill í þessu sambandi taka fram, að hann hafi ætíð talið æskilegt að halda íslenska hljómleika á hátíðinni, en þó álitið, að höfuðáherslu yrði að leggja á að flytja verk hinna norðurlandanna með sama hætti og á öðrum hátíðum Tónskáldaráðsins og að íslensku verkin yrðu að víkja fyrir þeirri skyldu, ef ekki væru fyrir hendi nægilegt fé og nægilegir listrænir kraftar til framkvæmda, en hann telur að svo sé ekki.

116 Gerðabók Tónskáldafélags Íslands: 25. september 1953.
117 Gerðabók Tónskáldafélags Íslands: 9. maí 1954.

Spyrja verður, hvað hafi vakað fyrir Jóni Leifs með þessu? Ef hann treysti hinum íslensku “listrænu kröftum” – og þar reikna ég með að hann eigi við hljóðfæraleikara og hljómsveit – til að flytja tónlist hinna Norðurlandanna, hvað var þá að vanbúnaði að leika verk íslensku tónskáldanna? Hann hafði barist fyrir því í stjórn Tónskáldafélagsins að fá setta á stofn tónlistarnefnd við Ríkisútvarpið til að vera til ráðleggingar um flutning á íslenskri tónlist þar. Hann hafði oft gagnrýnt tónlistarstjórann og tónlistarráðunautinn fyrir að leika ekki meira af íslenskri tónlist. Stjórn félagsins hafði sett fram óskalista um hve oft íslensk tónlist væri flutt í útvarpinu. Frá útvarpsins hálfu hafði verið gefið í skyn að upptökur væru lélegar og flutningurinn eftir því. Að manni læðist sá grunur hvort Jón Leifs hafi ekki hér verið að staðfesta það sem útvarpsmenn sögðu, það er að þessi barátta snerist ekki eingöngu um flutning á tónlist heldur einnig um völd.
Skiljanlegt er að gagnrýni kæmi fram á hátíðina hvað varðar hlut Íslands. Jón Þórarinsson skrifaði m.a. í Helgafell:

Ein átakanleg vonbrigði urðu þó í sambandi við þessa hátíð: þar var ekkert íslenskt tónverk flutt. Annars staðar mundi það sennilega vera gert að skilyrði fyrir opinberum styrkjum til slíkrar hátíðar, að innlend tónlist sæti að minnsta kosti við sama borð og tónlist annarra þátttökuþjóða. Mjög oft er hún jafnvel sett skör hærra, ef ekki beinlínis á hátíðinni sjálfri, þá með því að halda sérstaka tónleika á sama tíma og hátíðin fer fram. Hér hefði verið hið ágætasta tækifæri til að kynna íslenzka tónlist, og mun sízt vera vanþörf á því, eftir því sem stundum hefur verið látið í veðri vaka, m.a. af talsmönnum Tónskáldafélagsins. Það virðist því koma úr hörðustu átt, að einmitt Tónskáldafélagið skylda ráða því, að horfið var frá flutningi íslenzkrar tónlistar að þessu sinni, og bætir þar lítið úr skák, þótt félagið hafi boðað aðra hátíð á næsta ári, þar sem eingöngu verði flutt innlend verk. Tilgangur þessarar hátíðar átti að vera tvíþættur: annars vegar að kynna okkur tónlist frænda okkar á Norðurlöndum, hins vegar að lofa þeim að heyra okkar tónlist. Síðarnefnda atriðið er fyrir okkur ekki síður mikilvægt en hið fyrrnefnda, og það er ljóst af blaðaskrifum erlendu gestanna á hátíðinni, að það hefur valdið þeim miklum vonbrigðum að þeir skyldu enga íslenzka tónlist fá að heyra, þá loks að norræn tónlistarhátíð var haldin á Íslandi. (118)

Þarna glötuðu íslendingar góðu tækifæri til að kynna tónlist sína og gefa norrænum kollegum dálitla mynd af stöðunni eins og hún var á þeim tíma. Þeir hefðu ekki þurft að skammast sín fyrir vel valið íslenskt framlag, því þá þegar voru til mörg ágætis tónverk sem samin voru bæði í stíl fyrri alda og einnig nokkur verk sem á þeim tíma voru framsækin aldar tónverk. Þarna voru því gerð óþarfa mistök sem bera vott um skipulagsleysi og ósamheldni ráðandi tónlistarmanna á þessum áratug.20.

118 Helgafell: 3. hefti, 1954.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is