Magnús Blöndal Jóhannsson

Magnús Blöndal Jóhannsson er fæddur 8. sept. 1924 á Skálum á Langanesi. Foreldrar hans eru Jóhann M. Kristjánsson, stórkaupmaður, og kona hana Þorgerður Magnúsdóttir. Faðir hennar, Magnús Bl. Jónsson prestur í Vallanesi var tvíkvæntur. Seinni konan var Guðríður Ólafsdóttir Hjaltesteds í Reykjavík. Þorgerður er af seinna hjónabandi.

Magnús Bl. Jóhannsson stundaði tónlistarnám í Juilliard-tónlistarskólanum í New York 1946-53. Hann hefur lengi verið starfsmaður ríkisútvarpsins.

Magnús er einn elzti fulltrúi elektrónískrar tónlistar hér á landi. Hljómsveitarverkið „Punktar“ eftir hann er af þessari tegund. Það hefur verið leikið af Sinfóníuhljómsveit Íslands og auk þess í útvarpinu og er vel þekkt. Eins og nafnið bendir á, þá eru tónarnir í elektrónískri tónlist framleiddir með rafmagni, þeir eru án yfirtóna og tónblæinn vantar. Margt fleira kemur til, sem hér verður ekki talið, og geta þeir, sem áhuga hafa á þessari tónlist, lesið um hana í músíklexikonum. Þessi list lýtur sínum lögmálum og er enn á tilraunastigi, enda vart meira en 20 ár síðan hún fór að ryðja sér til rúms.

Magnús samdi fyrst tónsmíðar í hefðbundnum stíl, en hneigðist síðar að elektrónískri tónlist. Þessi tónlist hljómar illa í eyrum hinnar eldri kynslóðar, sem alin er upp við rammklassíska hefð, en unga kynslóðin er opin fyrir því sem er nýtt af nálinni og meðal hennar eru margir, sem hafa áhuga á þessari tónlist.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is