MA kvartettinn

M.A.-kvartettinn. Söngkvartettinn kennir sig við Menntaskóla Akureyrar enda eru fjórmenningarnir, sem í honum syngja, allir gamlir nemendur skólans, en þeir eru: Þorgeir og Steinþór Gestssynir frá Hæli, Jakob Hafstein frá Húsavík og Jón Jónsson frá Ljárskógum.

Kvartettinn söng hér í Reykjavík á árunum 1932-42 við mikla aðsókn. Raddirnar voru blæfagrar og vel samstilltar, söngurinn prýðilega æfður og vel sungið. Lögin voru við alþýðuskap, hæfilega skipt milli alvöru- og gamanlaga, og víða gætti glettni í kvæðunum, sem kvartettinn kunni vel að leiða í ljós í söngnum, stundum einnig með leik á söngpallinum. En raddmagnið var alveg niðri við það lágmark, sem bjóða má í stórum söngsal, eins og Gamla Bíó, þar sem kvartettinn söng oft, en líf og fjör þeirra félaga í söngnum bætti það upp. Lögin voru yfirleitt af léttara taginu, jafnvel dægurlög, en þau voru sniðug og gátu verið vandsungin, eins og menn á þeim tíma þekktu vel af söng Comedian Harmonists, sem M.A.- kvartettinn tók sér til fyrirmyndar.

Bjarni Þórðarson var undirleikari kvartettsins og fórst það smekklega úr hendi.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is