Lýðveldishátíðin 1944

Að undatekinni Alþingishátíðinni 1930, sem margir minnast gjarnan vegna Alþingishátíðarkantötu Páls Ísólfssonar, voru stórhátíðir ekki algengar á Íslandi fram að þeim tíma. Þó mætti kannski segja að hver sæmilega skipulagður konsert, sem ekki aðeins var karlakórssöngur, væri tónlistarhátíð í sjálfur sér. Líklega er þó hátíðin 1930 sú stærsta og viðamesta sem haldin var á fyrri hluta þessarar aldar hvað varðar undirbúning og skipulag. Árið 1944, er Ísland varð fullvalda, var haldin lýðveldishátíð á Þingvöllum. Svipað form var haft á þeirri hátíð og hátíðinni 1930 þó svo þessi hátíð væri miklu minni í sniðum.
Margt hafði gerst í samskiptum Íslands og Danmerkur síðustu árhundruð, eða allt frá árinu 1380, er Ísland komst undir Danakonung. Sumt þótti gott í þessum samskiptum en annað vægast sagt miður gott og beindist það meira og minna í þá átt að hindra þróun og þroska þjóðarinnar. Dæmi þess má m.a. finna í kirkjusöng á seinni hluta 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Í bókinni Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur (58) eru tilvitnantir í ýmis rit þar sem getið er um söngstíl Íslendinga fyrr á öldum og stendur þar m.a. á bls. 241:

Það er óheyrilegt hvernig menn, sem annars hafa ekki afleit hljóð, afskræma þau með allskonar hnykkjum og rykkjum og dillandi viðhöfn – – -. Það er reglulegt hneyxli að heyra, hvernig saungurinn fer víða fram í kirkjunum. Það er einatt sálmalagið súngið rammskakt og skælt. Sumir eru á undan í vessinu, sumir á eptir, sumir streytast við að belja sem barkinn þolir og hafa lángar lotur, en þó tekur út yfir, þegar einhver, sem hyggst hafa meiri og merkilegri hljóð en hinir, rekur upp gól með glymjandi rödd, sem kallað er að fara í tvísaung. Vér viljum reyndar eigi neita, að tvísaungur, þegar rétt er súngið, getur verið allfallegur – -, en í kirkjum á hann eigi við. (59)

58 Íslenzkar gátur, skemtanir vikivakar og þulur: safnað hafa J. Árnason og Ó. Davíðsson; Kaupmannahöfn 1888-92.
59 Norðlingur I: bls. 235-236.

Skoða mætti þetta sem dæmi um hve litla rækt Danir lögðu við að viðhalda menningu í landinu og hinn langvarandi kúgunardoði smátt og smátt “leysti upp” alla meðvitund um eigin tilverurétt, menningu og í það að leggja einhvern metnað í tónlistarflutninginn sem og annað er viðvíkur menningarlíf þjóðarinnar. En þeim til bóta skal tekið fram að Íslendingar voru íhaldssamir á hefðir.

Ég get ekki látið það vera hér að benda á hér að í fyrsta sinni sem leikinn er píanókonsert í Færeyjum, þá var það að frumkvæði Íslendinga – í kringum 1970. Sama má segja um að í fyrsta sinni sem sinfóníuhljómsveit leikur á Grænlandi, þá var það Sinfóníuhljómsveit Íslands sem stóð að því. Það er leitt til þess að hugsa að enn í dag rekst maður á þau viðhorf að hin norrænu lönd í vestri, Færeyjar, Ísland og Grænland séu álitin skandínavískar hjáleigur.
Á 19. öldinni vaknaði þjóðin til meðvitundar um sjálfstæði sitt og með ærinni fyrirhöfn gátu Íslendingar vakið ráðamenn í Danmörku af djúpum svefni hvað varðaði sjálfstæðan tilverurétt íslensku þjóðarinnar. Má þar til nefna endurreisn Alþingis árið 1843-45 og svo stjórnarskrána árið 1874. Í framhaldi af því kom svo heimastjórnin árið 1903-04. Þegar leið á 19. öldina og í byrjun 20. aldar var orðið ljóst að Íslendingar gerðu kröfu til sjálfstæðis þjóðarinnar, sem hún hafði í rauninni aldrei afsalað sér með löglegum hætti.
Árið 1918 var undirritaður samningur milli þjóðanna þess efnis, að fullveldi íslenska ríkisins var viðurkennt. Þessi samningur var gerður að sambandslögum sem gengu í gildi 1. desember 1918. Svo var búið um hnútana í þessum sambandslögum að eftir árið 1940 gátu þjóðþing hvors ríkis hvenær sem væri krafist endurskoðunar laganna. Hin endanlega þróun í átt að sjálfstæði Íslands átti sér stað með þessum sambandslögum árið 1918 og síðar með stjórnarskránni árið 1920, þar sem Ísland er í fyrsta skipti nefnt konungsríki.
Upphafið að endinum má svo rekja til innrásar Þjóðverja í Noreg og Danmörku 9. apríl árið 1940 og var með því sambandi Íslands við þau lönd endanlega lokið. 10. apríl samþykkti Alþingi þingsályktanir um töku hins æðsta valds og eru þær ályktanir svohljóðandi:

1. Með því að ástand það, sem nú hefur skapazt, hefur gert konungi Íslands ókleift að fara með vald það, sem honum er fengið í stjórnarskránni, lýsir Alþingi yfir því, að það felur ráðuneyti Íslands að svo stöddu meðferð þessa valds.

2. Vegna þess ástands, er nú hefur skapazt, getur Danmörk ekki rækt umboð til meðferðar utanríkismála Íslands samkvæmt 7. gr. dansk-íslenzkra sambandslaga né landhelgisgæzlu samkvæmt 8. gr. téðra laga, og lýsir Alþingi þess vegna yfir því, að Ísland tekur að svo stöddu meðferð mála þessara að öllu leyti í sínar hendurÍ maí mánuði sama ár hertóku svo Bretar Ísland en þeir viðurkenndu í alla staði að íslensk stjórnvöld væru alls ráðandi hér á landi. Málið vatt smám saman upp á sig og ljóst varð að tilkynna varð þau viðhorf Íslendinga að losna undan endanlegum yfirráðum Dana eftir um 550 ár. Sem lið í þeim undirbúningi samþykkti Alþingi 17. maí árið 1941 eftirfarandi tillögur til þingsályktunar:

1.  Alþingi ályktar að lýsa yfir því:
að það telur Ísland hafa öðlazt rétt til fullra sambandsslita við Danmörku, þar sem Ísland hefur þegar orðið að taka í sínar hendur meðferð allra sinna mála, enda hefur Danmörk ekki getað farið með þau mál, sem hún tók að sér að fara með í umboði Íslands með sambandssamningi Íslands og Danmerkur frá 1918; lagasáttmálanum við Danmörku, þótt ekki þyki að svo stöddu tímabært, vegna ríkjandi ástands, að ganga frá formlegum sambandsslitum og endanlegri stjórnarskipun ríkisins, enda verði því ekki frestað lengur en til styrjaldarloka.

2.  Alþingi ályktar að kjósa ríkisstjóra til eins árs í senn, sem fari með það vald, er ráðuneyti Íslands var falið með ályktun Alþingis hinn 10. apríl 1940, um æðsta vald í málefnum ríkisins.

3.  Alþingi ályktar að lýsa yfir þeim vilja sínum, að lýðveldi verði stofnað á Íslandi jafnskjótt og sambandinu við Danmörku verður formlega slitið.

Íslendingar voru smátt og smátt að styrkja stöðu sína á alþjóðavettvangi með því að fleiri þjóðir viðurkenndu þá sem sjálfstæða þjóð. Árið 1941 gerðu Íslendingar samkomulag við Bandaríki Norður- Ameríku þess efnis að þau tækju að sér að verja Ísland fyrir ágangi erlendra ríkja á meðan á styrjöldinni stæði. Í forsendum þessa samkomulags var m.a. tekið fram að:

a. Bandaríkin skuldbinda sig ennfremur til að viðurkenna algert frelsi og fullveldi Íslands og beita öllum áhrifum sínum við þau ríki, er standa að friðarsamningunum, að loknum núverandi ófriði, til þess, að friðarsamningarnir viðurkenni einnig algert frelsi og fullveldi Íslands.

b. Bandaríkin lofa að hlutast ekki til um stjórn Íslands, hvorki meðan herafli þeirra er í landinu né síðar.
Mikil vinna fór í hönd við að undirbúa sambandsslitin við Danmörku. Málið var rætt og kynnt á víðum vettvangi og öllum efa um réttmæti þessarar ákvörðunar eytt, bæði innan lands og utan. Tillagan um endanlega skilnað við Dani var samþykkt í heild sinni 25. febrúar 1944 og hljóðaði hún þannig:
Þingsályktun
um niðurfellingu dansk-íslenzka sambandslagasamningsins frá 1918.
Alþingi ályktar að lýsa yfir því, að niður sé fallinn dansk-íslenzki sambandslagasamningurinn frá 1918.

Ályktun þessa skal leggja undir atkvæði allra alþingiskjósenda til samþykktar eða synjunar, og skal atkvæðagreiðslan vera leynileg. Nái ályktunin samþykki, tekur hún gildi, er Alþingi hefur samþykkt hana að nýju að aflokinni þessari atkvæðagreiðslu.

Fyrst varð að fara fram atkvæðagreiðsla í landinu og var hún ákveðin 20.-23. maí. Niðurstöður þeirrar atkvæðagreiðslu urðu að 98,6% kjósenda á kjörskrá greiddu atkvæði (en til gamans má geta að aðeins 43,8% greiddu atkvæði um sambandsslitin 1918). Af þessum 98,6 % kjósenda greiddu 991/2% atkvæði með fullum skilnaði frá Danmörku, en aðeins 1/2% voru fylgjandi því að halda fast í konungssambandið. Má því segja að Lýðveldishátíðin 1944 hafi verið ein mesta sigurhátíð í sögu Íslands frá upphafi.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is