Lögin við ljóðin

Hin mikla sönghefð, sem fyrir var í landinu, kallaði að sjálfsögðu á að samið yrði lag við verðlaunakvæðin, því á þann hátt myndi kvæðið lifa á vörum þjóðarinnar um ókomin ár. Á fundi 2. maí var ákveðið að efna til samkeppni meðal tónskálda um lag við ljóðin. Frestur til að skila lagi var gefinn til 1. júní og bárust lög frá 27 höfundum. Þó voru miklu fleiri sem undirrituðu móttökuskjal fyrir ljóðunum, en í því stóð m.a. að móttakandi “hefi veitt viðtöku 2 hátíðarljóðum í þeim tilgangi að semja lag við þau, og lofa hér með, að sýna þau ekki óviðkomandi mönnum eða nota þau í öðrum tilgangi”. Mjög misjafnt var hvenær í maímánuði menn tóku við þessum ljóðum, allt fram til 27. maí, en 45 undirritaðir móttökuseðlar (62) eru til frá þessum tíma fyrir kvæðunum. Þó skal taka fram að í örfráum tilfellum fékk sama tónskáld 2 eintök af kvæðunum.

61 Bréf úr skjölum forsætisráðuneytis um Lýðveldishátíð. Þjóðskjalasafn.
62 Seðlar úr skjalasafni forsætisráðuneytis. Þjóðskjalsafn.

Nokkrir sömdu lög við bæði ljóðin þó svo flestir hafi látið sér nægja að semja lag við eitt lag úr ljóðaflokki Huldi eða við ljóð Jóhannesar úr Kötlum. Í dómnefndinni sem þjóðhátíðarnefndin skipaði sátu Árni Kristjánsson, Páll Ísólfsson og Victor Urbancic. Skilaði hún eftirfarandi niðurstöðu. (63)

Við undirritaðir, sem Þjóðhátíðarnefndin hefur kvatt til að dæma um lög við hátíðarljóðin, sem verðlaunuð voru, leggjum til, eftir að hafa athugað öll lögin, að lag það við kvæði Huldu “Hver á sér fegra föðurland”, auðkennt “Högni”(64), sem við teljum skara fram úr, hljóti verðlaunin, sem heitið var. Við viljum ennfremur beina þeim óskum til nefndarinnar, að hún stuðli að því, að tvö lög önnur, annað við textann “Land míns föður”, merkt “Ríp”, en hitt við ljóðið “Syng frjálsa land”, auðkennt [H], verði birt.

Reykjavík, 3. júní 1944
Árni Kristjánsson
Páll Ísólfsson
Victor Urbantschitsch

63 Bréf til Þjóðhátíðarnefndar lýðveldisstofnunar á Íslandi. Þjóðskjalasafn.

64 Leiðréttist hér með sú fullyrðing í bókinni Lýðveldishátíðin 1944; bls. 75 að verðlaunalagið hafi verið merkt “F”. Leiftur, Reykjavík 1945.

Í ljós kom að verðlaunalagið var eftir Emil Thoroddsen tónskáld. Hin lögin voru eftir Árna Björnsson tónskáld sem samdi lög við Syng frjálsa land, 4. kaflann úr hátíðarljóðum Huldu, en hitt lagið var eftir Þórarin Guðmundsson fiðluleikara sem samdi við hátíðarljóð Jóhannesar úr Kötlum, Land míns föður, landið mitt. Tvö síðastnefndu lögin voru birt í viðurkenningarskyni. Öll þessi lög voru prentuð í bókinni um Lýðveldishátíðina, og hafa einkum tvö þeirra, lag Emils og Þórarins, orðið sígild sem kórsöngslög á Íslandi.
Verðlaunin fyrir vinningslagið voru þau sömu og fyrir ljóðið, þ.e. 5000 krónur. Fram kom dálítil óánægja með það að ljóðskáldin urðu að deila með sér verðlaununum, en eitt tónskáld fékk öll fyrstu verðlaunin fyrir lagið. Einnig þótti Jóhannesi úr Kötlum ósanngjarnt að jafnvægishlutföllin milli kvæðanna í vali tónskáldsins væru ekki jöfn þar sem ljóðabálkur Huldu var 4 kaflar en hans aðeins einn. Þar sem tvö ljóðskáld urðu að deila með sér 1. verðlaunum, þá var hætt við að það ljóð sem verðlaunalagið yrði samið við fengi meira vægi. Hann bendir m.a. í bréfi til hátíðarnefndar á eftirfarandi atriði:

 

2.Söngvar helgaðir Þjóðhátíðardegi Íslands 17. júní 1944, eftir Huldu skáldkonu, munu vera fjórir kaflar, – kvæði mitt hinsvegar aðeins einn. Þegar tónskáldum var gefið frjálst val um hvern einstakan kafla sem texta, urðu líkindahlutföllin milli þessara kvæða því 4:1, að öðru jöfnu. Þar að auki getur slíkt val helgast af ástæðum, sem engin ástæða væri til að sætta sig við, ef kunnar væru.

3. Jafnstaða kvæðanna að lokinni tónsmíðakeppni gat, að svo komnu máli, ekki varðveitzt nema með því eina móti – sem þó raunar stríðir í móti sjálfum tilganginum – að einnig tvær tónsmíðar, sín við hvort kvæði, hefði hlotið verðlaun. (65)
4. Í rauninni var tónskáldi, er full verðlaun hlaut, veitt úrslistadómsvald um tilætlaða hæfni viðkomandi kvæða, og virðist því sá texti, sem útundan varð og aldrei var miðaður við annað en tónbúning, þar með úr leik af sjálfu sér.
5. Með tilliti til ævinlegrar hefðar íslenzkrar ljóðlistar, tel ég vart sæmandi, að ljóði, er tónskáld velur undir slíkum kringumstæðum, sé ekki gert jafn hátt undir höfði og lagi því, sem við það er samið, og þá einnig af því er snerti upphæð verðlaunafjár.

Að öllu þessu athuguðu vona ég, að háttvirt hátíðarnefnd líti ekki á það sem ástæðulaust og óviðeigandi frumhlaup, þótt ég nú leyfi mér að leggja til og óska þess eindregið, að kvæði mitt, Íslendingaljóð 17. júní 1944, verði algerlega dregið til baka í sambandi við væntanleg hátíðahöld í tilefni af lýðveldisstofnuninni. Mun ég þá að sjálfsgöðu jafnframt falla frá innheimtu á mínum hluta verðlauna og telja mér bæði ljúfa skyldu og heiður að leggja þannig fram, að hálfu við ríkissjóð, þá fjárhæð, er mér ein sýnist boðleg höfundi kvæðis, er valið hefur verið til tónflutnings við svo einstakt og gleðilegt tækifæri.

Virðingarfyllst,

Jóhannes úr Kötlum.

65 Bréf til hátíðarnefndar lýðveldisstofnunar. Þjóðskjalasafn.

Þessar ábendingar skáldsins áttu fullan rétt á sér því að með því vali sem tónskáldin höfðu um kvæði, þá gátu þau í rauninni valið úr 4 ljóðum eftir Huldu, en einungis einu eftir Jóhannes. Benda má á að á söngskrá Þjóðhátíðarkórsins, sem myndaður var úr 5 karlakórum, Karlakór Fóstbræðra, Karlakór Reykjavíkur, Karlakórnum Kátir Félagar, Karlakór iðnaðarmanna og Karlakórnum Þresti, voru lög við kvæði beggja verðlaunahafa kvæðanna á söngskránni, lög Emils og Þórarins.

Tónlistarflutningurinn mótaðist fyrst og fremst af karlakórssöng og lúðrablæstri – spegilmynd hins hefðbundna tónlistarflutnings á Íslandi undanfarna öld. Á þessari hátíð mun einnig hinn eiginlegi Þjóðkór, sem oft var nefndur í tengslum við söngþátt þann er Páll Ísólfsson hafið í útvarpinu, hafa sungið opinberlega. Öll Fagrabrekka á Þingvöllum var þakin fólki og tók það undir í söng undir stjórn Páls. Það var þó engin strengjasveit sem lék með á þessari hátíð eins og árið 1930, heldur Lúðrasveit Reykjavíkur. Þó mun sérstök strengjasveit hafa verið ráðin til að leika í veislu í Hótel Valhöll. Einnig tóku kirkjukórar Reykjavíkur þátt í hátíðarhöldunum.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is