Listamannaþing 1964

Í tilefni 20 ára afmælis lýðveldisins hélt Bandalag íslenskra listamanna listahátíð í Reykjavík árið 1964, þá fimmtu í röðinni. Þrátt fyrir að málinu hafi verið nokkuð reglulega hreyft í Bandalaginu allt frá fyrstu tíð, varð þetta sú næsta á eftir hátíðinni 1950, sem var haldin í tilefni af opnun Þjóðleikhússins. Mikið var um dýrðir, ballettsýning, leiksýningar, óperetta, upplestur, og ekki síst var frumflutt íslensk ópera eftir Þorkel Sigurbjörnsson er hét Tónsmíð í þremur atriðum. Þó svo þetta sé ekki fyrsta óperan sem samin hefur verið á Íslandi, þá var þetta fyrsta óperan sem flutt var opinberlega. Hún er samin fyrir fjóra einsöngvara, kór og hljóðfæri. Einnig eru notuð hljóð leikin af segulbandi. Einsöngvarar voru Eygló Viktorsdóttir, Guðmundur Guðjónsson, Kristinn Hallsson og Hjálmar Kjartansson. Tónskáldið stjórnaði uppfærslunni og vakti hún mikla athygli, ekki síst fyrir að stigið var á ósnortið land í tónlistarsögu landsins.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is