Listamannaklúbburinn

Listamannaklúbbur Bandalags Íslenskra Listamanna var stofnaður á fulltrúafundi 21. nóvember 1956. Tilgangurinn með stofnun klúbbsins var sá að listamenn gætu hist “í menningarlegu umhverfi, átt kost veitinga, ræðst við, lesið menningarrit erlend og innlend, séð góða myndlist, hlustað á valda tónlist og kynnst ýmsu nýstárlegu úr heimi listanna”. Allar deildir bandalagsins höfðu rætt málið og voru reglur samþykktar fyrir klúbbinn. Klúbburinn fékk aðstöðu í Þjóðleikhússkjallaranum og var hann opinn á mánudögum. Venjulega var stutt dagskrá á mánudagskvöldum. Jón Leifs, þáverandi formaður bandalagsins, lýsti opnun klúbbsins og af því tilefni var opnuð sýning á málverkum sem stjórn Félags íslenskra Myndlistarmanna hafði valið. Einar Bragi Sigurðsson var framkvæmdastjóri klúbbsins, en í dagskrárnefndinni sátu Jórunn Viðar tónskáld, Thor Vilhjálmsson rithöfundur og Þorsteinn Ö Stephensen leikari. Í framkvæmdastjórn var Jón Leifs, Rögnvaldur Sigurjónsson og Sigvaldi Thordarson. Í klúbbnum voru rædd ýmis mál er vörðuðu listir almennt ( sjá dæmi um tónlistarumræðu í klúbbnum í kaflanum um Musica Nova).

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is