Landsútgáfan

Segja má að þátttaka Jóns Leifs í íslensku tónlistarlífi (á félagslegum grunni) hafi tekið yfir flesta þætti þess. Hans hugmyndir um alls kyns mál sem betur máttu fara voru margar og hefur hann eflaust byggt þær á reynslunni eftir margra ára dvöl í Þýskalandi þar sem tónlistarlíf var í fastari skorðum eftir langa tónlistarhefð. Í sambandi við útgáfumál kom hann á fót útgáfufyrirtæki í árslok 1945 undir heitinu Landsútgáfan (Islandia Edition).
Jón fékk lán til stofnsetningarinnar hjá íslenska ríkinu að upphæð 60.000 krónum með veði í frumhandritum allra þeirra verka sem brunnu í Þýskalandi. Verk hans sem samin voru fram að síðari heimsstyrjöldinni, höfðu verið gefin út í Þýskalandi, en sá lager brann allur í loftárás í stríðinu. Hafa þessi handrit verið í vörslu Handritadeildar Landsbókasafns síðan um miðjan 5. áratuginn en voru dregin fram í dagsljósið við flutning safnsins í hina nýju byggingu þess árið 1995. Þarna var um verulega upphæð að ræða á þeim tíma, en Jóni mun ekki hafa tekist að endurgreiða hana og eru því þessi handrit í eigu íslenska ríkisins.
Tilgangurinn með stofnun Islandia Edition – með starfsleyfi atvinnumálaráðuneytisins var að annast útgáfu og útbreiðslu á íslenskum bókmenntaverkum og annarrar listar og vinna að kynningu á íslenskri list erlendis. Meðal áforma félagsins var að gæta höfundarréttar, annast þýðingar og útgáfu á íslenskum ritverkum erlendis og einnig útgáfu íslenskrar tónlistar erlendis. Þá voru uppi áform um að rekstur sérstakrar blaðadeildar sem legði erlendum blöðum til efni um listir og mannlíf á íslandi.
En sömu lögmál giltu fyrir Islandia Edition sem og mörg önnur fyrirtæki að starfsemi þess var háð gjaldeyrisyfirvöldum í landinu. Sannfæra varð stjórnvöld um að starfsemin myndi ekki hafa stór gjaldeyrisútlát í för með sér. Við aðild að Bernarsamkomulaginu og þar með löggildingu á STEFi varð að greiða erlendum höfundum fyrir útgáfurétt hér á landi, og því meira sem STEF vann af einurð í þeim málum fyrir erlenda höfunda þá fjölgaði gjaldeyrisumsóknum. Segja má að mörg góð mál í tengslum við tónlistina hafi tafist í marga áratugi vegna takmarkana á gjaldeyri til handa þessum málaflokki.

Starfsskilyrði útgáfufyrirtækisins voru slæm þrátt fyrir að félagið ætti sér góða stuðningsmenn. Miðað við markmið félagsins mætti ætla að umsvif þess yrðu svo mikil að ekki yrði hægt að reka það án stuðnings opinberra aðila. Árið 1948 var hlutafé félagsins orðið 90.000 krónur. Islandia Edition náði aldrei þeim markmiðum sem að var stefnt.
Jóni Leifs og Hallgrími Helgasyni var vel til vina og áttu þeir mörg sameiginleg áhugamál. Hallgrímur rak einnig útgáfufélag – Gígjan – sem átti við sömu vandamál að stríða. Í bréfi til Jóns Leifs skrifar hann m.a.: (130)

Hvernig er með Island editionina þína? Vildurðu ekki forleggja hjá henni eitt verk eftir mig? Sjálfsforlagsbaslið er alveg að setja mig á höfuðið, eintóm útgjöld og ekkert selzt. Er líka leiðinlegt til lengdar að vera að vafstra í þessum kaupsýsluhliðum músíkframleiðslunnar. Það dreifir huganum um of frá mergi málsins, sjálfri tónsköpuninni….. Gaman væri að heyra frá þér um þetta. Vildirðu kannske láta bræða saman GÍGJUNA og þína EDITION?

130 Bréf frá Hallgrími Helgasyni til Jóns Leifs, dags. 12.júlí, 1954.

Þarna er lýsandi dæmi um ástand tónlistarmála á umræddum tíma. Of mikill tími fór í alls kyns félagsmál (þó aðallega hjá Jóni) á kostnað tónsköpunar. Þó að Íslandsútgáfunni hafi tekist að láta prenta mörg verk var hætta á að fyrir henni færi eins og Gígjunni hjá Hallgrími “eintóm útgjöld og ekkert selzt”. Á vegum Islandia Edition útgáfunnar komu út nokkur verk íslenskra tónskálda meðan Jón Leifs lifði. Fyrirtækið varð þó aldrei að því sem til var ætlast í upphafi.

 

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is