Kór iðnaðarmanna

Kór iðnaðarmanna. Halldór bókbindari Þórðarson var formaður kórsins, sem söng í fyrsta sinn opinberlega árið 1888.  Jónas Helgason var söngstjórinn. Á þessum tíma var „Harpa“ í fullu fjöri, svo að Jónas hefur þá haft tvo karlakóra á hendinni í senn.

Það er eftirtektarvert við þennan samsöng, að söngtextarnir við erlendu lögin voru á íslenzku. Þetta var nýtt. „Harpa“ og skólapiltar sungu oftast erlendu textana. Um það eru ekki skiptar skoðanir, að góður íslenzkur texti er skilyrði þess, að sönglag fái notið sín til fulls hjá íslenzkum áheyrendum. Lagið eftir Franz Abt „Um sumardag er sólin skín“ á vinsældir sínar hér á landi að þakka kvæðinu, sem Benedikt Þ. Gröndal orti. Þýzki textinn er um þýzkan skóg og snertir ekki strengi í íslenzkri sál, – jafnvel góð þýðing myndi ekki fá hljómgrunn hjá okkur.

Þessi samsöngur iðnaðarmannakórsins varð tilefni ádeilugreinar í „Þjóðólfi“ á erlendu söngtextana hjá „Hörpu“ og skólapiltakórnum. Þess var krafizt, að sungið sé á íslenzku, „þegar slíkir textar fyrirliggja eða séu fáanlegir.“

Þetta var þörf ábending hjá blaðinu og hefur síðan verið stefnt að þessu, en því miður hafa góðir íslenzkir söngtextar ekki ávallt verið fáanlegir og lélegir textar á íslenzku eru einskis nýtir.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is