Keflavíkurútvarpið

Menntamálaráðherra, Björn Ólafsson fyrirskipaði þáverandi útvarpsstjóra, Jónasi Þorbergssyni að veita Bandaríkjaher “leyfi” til reksturs útvarpsstöðvar á Keflavíkurflugvelli með bréfi dagsettu 13. febrúar árið 1952. Þetta “leyfi” var gefið út í fullkominni mótsögn við íslensk lög nr. 68 frá 28. desember 1934 sem kveða á um að ríkisstjórn landsins hafi einkarétt á að reka útvarpsstöð á Íslandi. Oft hefur verið bent á þessa staðreynd í ræðum og rituðu máli. Það var ekki fyrr en rúmum 30 árum síðar að þetta einkaleyfi ríkisins var afnumið.
Á fundi stjórnar STEFs 13. ágúst 1953 var samþykkt að gera kröfur á hendur Keflavíkurútvarpinu um greiðslu 2500 dollara á mánuði, eða um þrefalt hærri upphæð en Ríkisútvarpið greiddi. Forsendan var að það flytti þrisvar sinnum meiri tónlist en Ríkisútvarpið, enda sendi það dagskrá sína út allan sólarhringinn.
Þrátt fyrir kurteisleg bréfaskrif milli STEFS og útvarpsstöðvar bandaríska hersins í Keflavík bar það engan árangur. Í byrjun ársins 1955 var af alvöru unnið að undirbúningi málshöfðunar á hendur Bandaríkjaher. Helsti hvatinn var tilkynning frá franska stefjasambandsfélaginu SACEM þess efnis að ef ekki hefði borist viðurkenning Bandarískra yfirvalda fyrir þann 1. mars árið 1955 um greiðsluskyldu fyrir tónlistarflutning í útvarpsstöðvum hersins yrði höfðað mál á hendur þeim.
Nú varð að afla upplýsinga og sannana í málinu. Upptökur voru gerðar af útsendingum útvarpsins í Keflavík og fólk beðið að undirrita staðfestingu þess efnis að það hefði heyrt tiltekin tónverk í útvarpsstöðinni. Mikil vinna hvíldi á herðum Sigurðar Reynis Péturssonar lögfræðings STEFs, og á Jóni Leifs framkvæmdastjóra STEFs við undirbúning málshöfðunar, en þeir höfðu fengið einskonar hvataloforð frá stjórn STEFs þess efnis að hvor um sig fengi greidd 6% af því fé sem innheimtist frá Varnarliðinu þegar sigur ynnist.
Að undangengnum mörgum dómum á hendur Varnaliðsins, að það viðurkenndi greiðsluskyldu sína með ákveðnu tilboði til STEFs, tókst að fá viðurkenningu á kröfunum haustið 1957. Vandamálið var, að íslensk lög gengu miklu lengra hvað varðaði verndun hugverka en bandarísk. Ekki var tekið fram í Bernarsáttmálanum neitt þess efnis að útvarpstöðvar herja væru á neinn hátt undanskildar þessum lögum, enda greiddu bæði breski og franski herinn gjöld til félaga þeirra landa. Höfundarrétturinn tók til eftirfarandi atriða:

1    Þegar verkið var samið af Íslendingi, eða erlendum aðila, útgefið á Íslandi.
2    Óútgefin verk höfunda búsettra í landi með aðild að Bernarsáttmálanum.
3    Öll tónverk sem fyrst eru gefin út í aðildarlandi að Bernarsáttmálanum hvort sem höfundur þessa verk kemur frá aðildarlandi Bernarsáttmálans eður ei.

Höfuðatriði samkomulagsins er það að rétturinn tekur til þess staðar sem verkið er gefið út en ekki til þjóðernis höfundar. Ef verk bandarísks höfundar (Bandaríkin voru ekki aðilar að Bernarsáttmálanum) var gefið út á Íslandi, þá naut það fullrar verndar hvað varðaði opinberan flutning.
Bandaríkjamenn litu aftur á móti svo á að útgefin verk væru almenningseign – “public domain” – en furðuðu sig á að það sem skilgreint var á þann hátt í Bandaríkjunum ætti ekki við á Íslandi, þar sem verk nutu verndar í 50 ár eftir dauða höfundar. Vernd í Bandaríkjunum náði til 56 ára eftir fyrstu útgáfu verksins – og að því tilskildu að skráning þess færi eftir settum reglum þar í landi. Meðal 30 systurfélaga STEFs voru þrjú bandarísk, ASCAP, BMI og ALACA. Á þessum grundvelli byggði STEF málshöfðun sína þar sem útvarp Bandaríska hersins í Keflavík flutti verk sem nutu verndar þessara félaga.
Það sem einnig batt hendur bandaríska hersins var klásúla í lögum nr. 110 frá 19. desember 1951 þar sem segir: “It is the duty of members of the United States forces and their dependents in Iceland to respect the laws of Iceland” (bandaríksa varnarliðið hóf útvarpsrekstur í Keflavík 1. nóvember 1951). Undir þessa skilgreiningu féllu einnig lög um höfundar- og útgáfurétt.
Sigurður Reynir Pétursson lögfræðingur STEFs hafði til langs tíma unnið að samningum við Varnarliðið í Keflavík og reynt að ná árangri bæði með almennum samningum og einnig með dómsmálum. Varnarliðsmenn voru alltaf “með málið í athugun” og því dróst málið á langinn.
Stjórnarfundur STEFs í febrúar 1958 (137) samþykkti svo að lokum heimild til handa formanni sínum þess efnis að ganga frá samningum við Varnarliðið fyrir eina greiðslu 3.000 dollara fram til ársloka 1955 og síðan 4500 dollara fyrir hvert ár eftir það. Niðurstaðan varð að Varnarliðið samþykkti að greiða 4500 dollara á ári næstu þrjú árin.

137 Gerðabók STEFs: 228. fundur 5. febrúar 1958.

En lokaáhlaupið gekk ekki átakalaust. Allt frá miðju sumri 1958 fram til febrúar 1959 fékk Varnarliðið senda stefnu á hverjum degi og fóru formaður og lögfræðingur félagsins til Keflavíkur til viðræðna í hverri viku allan þann tíma. Samtímis voru stöðug fundarhöld með varnarliðsnefndinni og málið var sótt á öllum vígstöðvum, bæði við Varnarliðið, untanríkismálaráðuneytið og fjármálaráðuneytið. Hafði það verið í gangi í 8 ár. Umtalsverður árangur náðist árið 1956 er dómur féll í bæjarþingi Reykjavíkur þess efnis að Varnarliðinu bæri að greiða gjöld til STEFs, en það tók samt rúm tvö ár til viðbótar að fá málið í höfn.
STEF vann sig mikið í álit fyrir málið og vakti það víða athygli erlendis enda hafði félagið sýnt alþjóðlega forystu í málinu og varð niðurstaðan m.a. sú að erlendu sambandsfélögin samþykktu að greiða allan málareksturskostnað STEFs í málinu.

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is