Kantatan

Eins og áður er sagt þá var síðasti skiladagur hátíðarljóðanna 1. nóvember 1928. Ekki þótti tækt að bíða svo lengi eftir úrslitum í ljóðakeppninni til að tilkynna tónskáldum hvers vænta mátti. Því kom svohljóðandi tilkynning frá söngmálastjóra í dagblöðum í Reykjavík í byrjun september 1928:

Skorað er á þau íslenzk tónskáld, heima og erlendis, er vilja freista þess, að semja lög við ljóðaflokk þann (kantötu), er flutt verður á Þingvöllum 1930, að senda hátíðarnefndinni skriflega tilkynningu um það sem fyrst, og verður þeim þá sent afrit af ljóðum þeim, sem valin verða, jafnskjótt sem dómur er upp kveðinn, en það mun verða í nóvembermánuði næstkomandi. Tilkynningunni skal fylgja skuldbinding keppenda um að birta ekki kvæðin né láta af hendi afrit af þeim. (17) Lögin skulu samin fyrir “blandaðan” kór (sópran, alt, tenór, bassa) (18) og litla symfóníu-hljómsveit, með allri þeirri tilbreytni um notkun söngraddanna, sem ljóðin gefa tilefni til og tónskáldin kunna að óska. Píanóundirleikur skal þó talinn góður og gildur með þeim skildaga, að höfundur beri kostnaðinn af því, að búa hann í hendur hljómsveit (“instrumentera” hann), ef verk höfundar verður tekið til söngs við aðalhátíðina, og dregst þá kostnaðurinn frá verðlaununum. Lögin ber að senda Alþingishátíðarnefndinni fyrir 1. október 1929, nafnlaus, en merkt einkunn. Nafn tónskáldsins skal fylgja í lokuðu umslagi, er merkt sé sömu einkunn sem lögin. Fimm mánuðum áður, eða í síðasta lagi 1. maí 1929, skulu keppendur tilkynna nefndinni, hvers af þeim má vænta, svo að hún geti gengið úr skugga um það, að verkinu miði áfram. Hátíðarnefndin mun leggja til við Alþingi, að greiddar verði 2500 kr. (1. verðlaun) fyrir þann lagaflokk, er kjörinn verður til söngs við aðalhátíðina, en 1000 kr. (2. verðlaun) fyrir þann, sem næstur því kemst, enda ráði hátíðarnefndin yfir báðum flokkum fram yfir hátíðina, og er tónskáldunum sjálfum óheimilt að birta lög sín, flytja eða láta aðra flytja þau opinberlega fyrr en henni er lokið. Ef keppendur kynna að óska skýringar um eitthvert atriði, sem að ofan getur, má senda nefndinni tilmæli um þær, og mun hún þá sjá fyrir því, að upplýsingar verði gefnar, eins og um er beðið. (19)

Alls bárust nefndinni 7 (20) kantötur (21) frá tónskáldunum Bjarna Þorsteinssyni, Emil Thoroddsen, Sigurði Þórðarsyni, Björgvin Guðmundssyni (22), Sigurði Helgasyni (23) í Kanada Páli Ísólfssyni og Þórarni Jónssyni, en til íslenska sendiráðsins í Kaupmannahöfn mun hafa borist bréf þess efnis að Jón Leifs sendi ekki kantötu á hátíðina (sjá nánar síðar).

17 Í minnisbók Sigfúsar Einarssonar segir: Sept. 3. Auglýsing um kantötuna kemur úr í “Vísi”. Daginn eftir (þ.4.) í Morgunblaðinu.
18 Hér er eitt gott dæmi þess hve karlakórahefðin í landinu var sterk. Athyglisvert er að orðið “blandaður” kór, með skýringum í sviga er undirstrikað sérstaklega þar sem það virðist ekki algengt í málinu af eðlilegum ástæðum. Annað hvort voru kórar karlakórar eða kirkjukórar.
19 Alþingishátíðin 1930: bls 33 og 34.
20 Fleiri munu hafa samið kantötu þótt ekki hafi hún komið fyrir dómnefndina. Í bókinni Saga Íslendinga í Vesturheimi, 5. bindi, segir á bls. 240: “Jón Friðfinnsson (1875 – 1936) var eitt vinsælasta tónskáld, sem Vestur Íslendingar hafa eignazt … Árið 1930 samdi Jón kantötu við Alþingishátíðarljóð Davíðs Stefánssonar. Var sú kantata sungin í Winnipeg 1936 af Karlakór Íslendinga og The Icelandic Choral Society, og þótti takast vel”. Ennfremur segir í 4. bindi sama rits, bls. 111: “… Síðasta og merkilegasta tónverk hans [Jóns Friðfinnssonar] var kantata við hátíðarljóð Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi”.
Í vörslu Þjóðskjalasafns er bréf til Sigfúsar Einarssonar, dags. 29/5, en þar segir m.a.: “… nú vil ég einnig láta yður vita, samkvæmt tilmælum hátíðarnefndarinnar, að ég muni geta sent yður lög mín, (kantötu) við hátíðarljóð Davíðs Stefánssonar á komandi sumri ásamt undirleik fyrir (Hljómsveit) eins og um er beðið”, undirritað, Jón Friðfinnsson.
21 Fleiri tónskáld tóku við ljóðunum. Má þar nefna Árna Thorsteinson, Höskuld B. ólafsson, Jón Leifs, Emil Thoroddsen, Jóni Friðfinnsson, Jónas Tómasson, Bjarni Þorsteinsson, Sigurður Þórðarson, Ragnar E. Kvaran (til Björgvins Guðmundssonar) Winnipeg, Sigurður Helgason Canada, Reynir Gíslason Kaupmannahöfn [síðar segir að að hann hafi endursent ljóðin] og Þórarinn Jónsson Berlín. Einnig eru heimildir um að ljóðin hafi verið send Þórdísi Ottesen í Kaliforníu.
22 Í bókinni Saga Íslendinga í Vesturheimi segir um Björgvin Guðmundsson: “Í Winnipeg samdi hann Alþingishátíðarkantötu, og var hún sungin þar af kór undir stjórn Björgvins sjálfs”.
23 Í minnisbók Sigfúsar Einarsson 17. okt. 1929 setur hann spurningarmerki fyrir aftan nafnið Sigurður Helgason og les ég það þannig að hann hafi ekki þekkt hann enda hefur hann aldrei verið þekktur á Íslandi. Í bókinni Saga Íslendinga í Vesturheimi má lesa eftirfarandi um hann: “Helgi Sigurður Helgason (1872 – [?] tónskáld dvaldist í Winnipeg á árunum 1890 – 1894, en hvarf síðan til Bandaríkjanna og vestur að hafi. Hefur hann getið sér mikinn orðstír fyrir tónsmíði, þótt ekki sé því lýst hér. Á meðan hann dvaldist í Winnipeg, gerðist hann einn af stofnendum, með Halldóri Oddssyni, að The Icelandic String Band, lék í lúðrasveit og samdi nokkur lög, þar á meðal hið þjóðkunna lag við kvæði séra Matthíasar “Skagafjörður”. Hann er sonur Helga tónskálds Helgasonar, sem ættaður var úr Mývatnssveit, og konu hans, Guðrúnar Sigurðardóttur í Þerney Arasonar. Helgi Sigurður fluttist til þessa lands [Kanada]árið 1890. Hann er nú búsettur í Blaine,Washington”. Saga Íslendinga í Vesturheimi; V. bindi, bls. 239, Reykjavík 1953.

Haustið 1929 var skipuð dómnefnd til að meta þessar sjö kantötur. Í nefndinni sátu þeir Sigfús Einarsson, Carl Nielsen tónskáld í Kaupmannahöfn og Haraldur Sigurðsson píanóleikari í Kaupmannahöfn. Sigfús fór með handritin til Kaupmannahafnar en Sigfús Blöndal þýddi texta kantatanna á dönsku í óbundnu máli. (24) Carl Nielsen var falið að rita greinargerð um niðurstöður nefndarinnar. Hún virtist í dagblöðum í Reykjavík og var svohljóðandi:

Undirbúningsnefnd Alþingishátíðar tilkynnir: Dómnefndin um söngvana við hátíðarljóðin 1930 hefir lagt fyrir hátíðarnefndina svolátandi álit og tilögur, sem hátíðarnefndin óskar birt í heild, út af ýmsum sögusögnum, er gengið hafa um málið hér í bænum: “Vér undirritaðir, er kvaddir vorum til þess að dæma um hátíðasöngva í tilefni af 1000 ára afmæli Alþingis, leyfum oss hér með að tilkynna, að vér hófum starf vort 26. október þ.á. og að vér í dag höfum orðið ásáttir um eftirfarandi tillögur: Það varð oss, hverjum um sig, brátt ljóst, að af öllum þeim verkum, sem send voru, mundi ekki verða nema milli tveggja að velja, sem báru tvímælalaust af af hinum, sem sé hátíðasöngvar Páls Ísólfssonar, er hann hafði að öllu leyti gengið frá í píanó-búnaði, og Emils Thoroddsens, er hann hafði að nokkru búið fyrir hljóðfæraflokk, en ekki eru fullsamdir, með því að lítið eitt vantar á niðurlag tónsmíðarinnar. Var þó ekki tekið tillit til þess við dómsúrslitin. Eftir sameiginlegan lokafund um málið er niðurstaða vor sú, að tónsmíð Páls Ísólfssonar sé bezt fallin til flutnings á hátíðinni, með því að hún gerir hvorttveggja, að lýsa gáfum og hagleika, og er auk þess skýr að framsetningu og auðskilin að efni. Þó getum við ekki afdráttarlaust metið honum fyrstu verðlaun fyrir verkið, nema hann vilji gera breytingar á tilteknum minni háttar atriðum, sem honum mun verða bent á. Þegar þessar breytingar hafa verið gerðar, svo að oss þyki fullnægjandi, leggjum vér til, að verk Páls Ísólfssonar hljóti 1. verðlaun og verk Emils Thoroddsens 2. verðlaun. Vér viljum um leið taka það fram, að einstaka þættir í tónsmíð Emils Thoroddsens hafa vakið alveg sérstaka athygli vora fyrir sakir hugkvæmni þeirra og skáldlegu tilþrifa, sem þar verður vart. Bregður þar og fyrir frumlegum blæ, sem kemur mönnum á óvart. En kunnátta og leikni er því miður ekki á borð við eðlisgáfu hans. Höfum vér því, að vandlega athuguðu máli, komizt að framanritaðri bráðabirgðaniðurstöðu.

Kaupmannahöfn, 8. nóv. 1929
Carl Nielsen. Sigfús Einarsson. Haraldur Sigurðsson.

24 Í minnisbók Sigfúsar Einarssonar má finna eftirfarandi: “… okt. 17. [1929] Fór til Kaupmannahafnar með Lyru “vi” Bergen með 5 kantötur: sr. Bjarna Þorsteinssonar, Emil Thoroddsens, Sigurðar Þórðarsonar, Björgvins Guðmundssonar og Sigurðar Helgasonar (?) – Þegar til Hafnar kom lá fyrir í Sendiráði Íslands handrit Páls Ísólfssonar. Frá Jóni Leifs hafði komið brjef um, að hann sendi ekki (hafði hann þó til undirbúningsnefndar brjeflega boðist til að senda það sem hann væri búinn með, en það voru samkv. brjefi hans til sendiráðsins 3 lög). Handrit frá Þórarni Jónssyni kom í hendur okkar dómnefndarmanna þ. 6. nóvember. Athugðum það samt eins og hin. – Fór hver fyrir sig (Carl Nielsen, Haraldur Sigurðsson og Sigf. E.) yfir kantöturnar og síðan sameiginlega. Aðstoð veitti próf. Chr. Christiansen píanóleikari og fyrir 50. kr. Um niðurstöðuna var einginn ágreiningur. Bað jeg Carl Nielsen um að semja greinargerð, er við allir undirrituðum í Tónlistarskólanum 8. nóv”.
Í apríl 1928 var tekin ákvörðun um að halda tvenna tónleika á hátíðinni; einir yrðu með fornum söng en hinir seinni með nýrri tíma verkum. (25) Þegar talað er um nýrri tíma verk skalþað skoðast í þeirri hefð sem á Íslandi var á þeim tíma í tónlistarmálum þar sem söngurinn réði ríkjum; enda segir í Minnisbók Sigfúsar Einarssonar um þau mál:

að starfað verði næstkomandi sumar að undirbúningi þessara tveggja konserta,
1) með því að taka til forn lög og kvæði og búa þau í hendur söngfólki og hljóðfæraleikurum,
2) með því að endurskoða frágang þeirra íslenskra tónsmíða – einkum kórsöngva – frá seinni tímum, sem til eru prentaðir og líklegastir þykja til söngs á Þingvöllum 1930, og er þá ekki aðeins átt við þau lög sem landskór og “kantötukór” (öllum eða nokkrum hluta hans) verða fengin til flutnings, heldur einnig þau önnur íslensk lög, er samkomulags kynni að verða leitað við aðra flokka að flytja,
3) með því að leggja drög fyrir óprentaðar tónsmíðar íslenskra tónskálda, eldri og yngri, heima og erlendis.
4) með því að sjá fyrir “instrumentation” þessara sönglaga – einkum einsöngva – frá síðari tímum, er kynnu að álítast til þess fallin og hæf til söngs á Alþingishátíðinni.
25 Úr minnisbók Sigfúsar Einarssonar: “Tillögur Söngmálanefndar um 2 konserta á Þingvöllum. Nefndin leggur til, fluttur verði á Þinvöllum 1930 forn söngur (einsöngvar, tvísöngvar og vikivakar – “historisk konsert”, þar verði fluttar nýrri tíma tónsmíðar – “moderne konsert”.

Hér skilgreinir Sigfús að mínu mati hugtakið “nýrri tíma verk” sem sönglög eingöngu. Það segir okkur, að ekki var um nein hljóðfæra- og hljómsveitarverk að ræða á þessum tíma (eða að minnsta kosti fá verk) né hefð fyrir flutningi þeirra.

Hafist var handa af alvöru. Nokkrir valinkunnir menn voru ráðnir til að velja fólk í um 100 manna blandaðan kór er skyldi sjá um söng á hátíðinni. Prófaðar voru 138 konur og úr þeim hópi voru valdar 60. (26) Ekki var neitt vandamál með að fá konur til að syngja því möguleikar þeirra fram að þessu til að syngja í kór höfðu engir verið vegna karlakórahefðarinnar og voru því takmarkaðir við söng í kirkjum. En önnur lögmál giltu um karlaraddirnar. Karlakóra- “veldið” í landinu var slíkt að ekki var hægt að finna karlmenn sem gátu sungið nema innan raða þeirra. Af 35 karlmönnum sem buðu sig fram til prufusöngs reyndust aðeins 3 nothæfir. (27) Leitað var því til þriggja karlakóra í Reykjavík um aðstoð við góðar karlaraddir, en viðbrögðin ollu vonbrigðum. Einn kóranna, Söngfélag stúdenta, svaraði ekki fyrirspurninni, en hinir tveir, Karlakór Reykjavíkur og Karlakór K.F.U.M. vildu gjarnan syngja með í blönduðum kór, en þá aðeins sem heild og þá sem sjálfstæður hópur, því þeim var í mun að sýna “tónlistarlegan þroska” sinn. Niðurstaðan varð sú að karlakór K.F.U.M. var ráðinn til verksins eftir heilmiklar samningaumleitanir, gegn ákveðinni greiðslu, og þar með var kominn á stofn 100 manna kór undir heitinu Þingvallakór.

Um 50 manna úrvalshópur úr þessum kór tók þátt í Norrænu söngmóti í Kaupmannahöfn árið 1929. Í stuttu máli, þá “sigraði” þessi kór á mótinu þó svo ekki hafi verið um neitt keppnismót að ræða. Olli frammistaða kórsins undrun og ánægju allra þátttakanda sem viðstaddir voru. Gekk svo langt að hljómplötufyrirtækin H.M.V. og Polyphon buðu kórnum að syngja öll lögin sem hann söng á mótinu inn á hljómplötu. Urðu endalokin þó þau að meðlimir úr karlakór K.F.U.M. neituðu að syngja inn á hljómplötu í fyrsta sinn nema undir stjórn söngstjóra síns, þ.e. þeir álitu sig sjálfstæðan hóp óháðan heildinni, og kom þar bersýnilega í ljós samheldni karlakórsmanna. Þarna misstu íslenskir tónlistarmenn af gullnu tækifæri til að auglýsa land sitt og tónlist víða um heim, og var þetta ekki í fyrsta skipti sem heimóttaskapur hindrar framsækna þróun tónlistarmála á Íslandi.
27 Í bók Sigrúnar Gísladóttur um Sigfús Einarsson er þessi tala nefnd 128. Leiðréttist það hér með.
27 Sama: “Nov. 10 [1929] Móttekið bréf frá Sigurði Birkis –, greinargerð um nefndarstörf – reyndar 138 kven- og 35 karlmannsraddir. Reyndust hæfar 60 konur, karlm. alls óhæfir nema þrír.”

Í framhaldi af kóramótinu í Kaupmannahöfn fór Sigfús til Vínarborgar til að reka erindi í tengslum við Alþingishátíðina. Hann komst þar í kynni við Franz Lehár, sem síðar kom honum í kynni við tónlistarmenn í borginni. Niðurstaðan af heimsókninni varð sú, að Franz Mixa var ráðinn til Íslands til að æfa Hljómsveit Reykjavíkur. Hann kom til Íslands í nóvember 1929 og hóf þá þegar æfingar.

Á hátíðinni skiptu menn þannig með sér verkum að Páll Ísólfsson stjórnaði Þingvallakórnum, ásamt Sigfúsi sem stjórnaði sínum eigin lögum og raddsetningum, Jón Halldórsson stjórnaði Karlakór K.F.U.M. lögum raddsettum fyrir karlakór og einnig Landskórnum, sem var kór er samanstóð af meðlimum karlakóra í landinu, Sigurður Birkis þjálfaði raddir á heimili sínu og Mixa þjálfaði hljómsveitina í Hljómskálanum. Til styrktar hljómsveitinni voru ráðnir 9 hljóðfæraleikarar úr Konunglegu hljómsveitinni í Kaupmannahöfn. (28) Heilmikil vinna var að fá þessa hljóðfæraleikara til aðstoðar á Íslandi og mun sú vinna mest hafa mætt á Haraldi Sigurðssyni í Kaupmannahöfn. Í bréfi frá Haraldi til Sigfúsar Einarssonar segir m.a.:

Kæri vinur,

Bestu þekki fyrir brjefið. Jeg fór strax að garfa í að útvega þessa menn í víðbót í hljómsveitina, sem því ekki tókst betur en þetta, að basunistinn og oboistinn reyndust ófáanlegir. Jeg sner mér til Felumbs[Christian] sem ég þekki vel (Høeberg [kgl. kapelmester] er ekki heima) og hann hjelt í fyrstu að það mundi reynast erfitt að fá nokkurn yfir höfuð, því að mjög margir úr kgl. kapellunni hafa aukaatvinnu á sumrin, en honum tókst þó að ná í hina 4, sem sje 2 fiðluleikara, 1 bratsch og 1 trompet. Sjálfur er Felumb því miður forfallaður, hann skrifar þjer víst um það. Hann rjeði mjer eindregið frá því að leita til Orkesterforeningen upp á að fá þessa 2 sem vanta, því að þeir úr kgl. kap. mundu ekki kæra sig um að Fagforeningen vissi neitt um að þeir gerðu þetta kauplaust, en þér (í orkesterf.) væri þýðingarlaust að fara fram á þetta, borgunarlaust. Hins vegar yrðu þeir gömlu óánægðir ef nýir menn væru ráðnir upp á kaup en þeir ekki. Felumb talað um hvort ekki væri mögulegt að breyta einhverju í partítúrnum svo að hægt væri að komast af án þessara tveggja hljóðfæra. Jeg gat náttúrlega ekki sagt neitt um það, en það mætti þó nefna það við Pál, ef til vandræða horfir, en það er kanske fleira en kantatan sem á að færa upp? Þeir verða því 9 alls sem koma: 1.Gandrup (fiðla), 2.Hegner (kontrabas), 3.Aksel Jørgensen, (bratch), 4. Knud Larsen (fagot), 5. Kortensen (bratch),6. Friis Petersen (fløjte) 7. Heindrich Petersen (obo í stað Felumb) 8. Gerhard Rafn (fiðla) 9. Laurids Sørensen (trompet)… (29).
28 Heimildum ber ekki saman um þessa tölu. Hef ég séð allt frá tölunni 11 upp í það að öll hljómsveitin hafi verið dönsk. Nefni ég þessa tölu hér þar sem hún kemur fram í bréfi Haralds Sigurðssonar til Sigfúsar Einarssonar.
29  Bréf Haralds Sigurðssonar til Sigfúsar Einarssonar, dagsett 20. maí 1930. Í vörslu Þjóðskjalasafns.

Að morgni 26. júní 1930 kl. 9.00 hófst Alþingishátíðin í Almannagjá á Þingvöllum með guðsþjónustu. Fyrst voru sungnir sálmar undir stjórn Sigfúsar Einarssonar, við undirleik Lúðrasveitar Reykjavíkur, og því næst var gengið til Lögbergs og söng Þingvallakórinn þar Ó, guð vors lands. Að því loknu hélt forsætisráðherra setningarræðu og síðan var sunginn fyrri hluti Alþingishátíðarkantötunnar undir stjórn höfundar, Páls Ísólfssonar. Þá kvaddi Kristján konungur X til fundar, og að honum loknum var fluttur síðari hluti kantötunnar. Það má því af framansögðu vera ljóst að um var að ræða geysimikla hátíð sem var vel undirbúin og vel að staðið hvað varðaði tónlistarmálin. Má segja að öllum öðrum ólöstuðum að Sigfús Einarsson hafi verið sá samnefnari tónlistarinnar sem mest vinna og undirbúningur mæddi á, og hann leysti sitt hlutverk af alúð og kostgæfni.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is