Kammermúsíkklúbburinn

Ýmsir einkaaðilar er brennandi áhuga höfðu á tónlist stofnuðu með sér samtök af ýmsum toga til að standa fyrir tónlistarflutningi. Ekki voru allir þessir menn tónlistarmenntaðir en höfðu áhugann einn að vegarnesti. Ein þessara samtaka fengu heitið Kammermúsíkklúbburinn, en ritaðar heimildir um stofnun félagsins eru nánast engar. Þó segir lítillega frá þessum félagsskap í vikublaðinu Fálkanum. Þar segir m.a.:

Nokkrir tónlistarvinir í Reykjavík hafa bundist samtökum um stofnun kammermúsíkklúbbs hér. Tilgangur samtaka þessara er að fá íslenska og erlenda listamenn til að flytja hér tónlist, sem erfiðleikar hafa verið á að fá hér flutta, og þá einnig ýmsa tónlist aðra, sem yfirleitt ekki hefir verið flutt hér á opinberum tónleikum til þessa. …Fyrstu tónleikarnir voru haldnir s.l. miðvikudag og söng þá mr. Roy Hickman (barítón) úr breska flughernum hér, söngva eftir Schubert og Schumann, við mjög góðar undirtektir áheyrenda, þá einnig gömul og ný ensk lög, sem einnig vöktu aðdáun. Dr. Urbantschitsch aðstoðaði af list, sem hans er von og vísa. …Formaður félagsins verður fyrst um sinn Bjarni Guðmundsson, en Árni Kristjánsson píanóleikari verðu sennilega ráðunautur um val tónverka. (79)

Einnig segir lítillega frá tónleikum í Alþýðublaðinu og þar er minnst á stofnun félagsins. (80) Félagið var stofnað 4 árum áður og voru félagar orðnir 150 er greinin var skrifuð. Það sem helst háði starfsemi félagsins var að vegna anna þeirra hljóðfæraleikara sem störfuðu í borginni, bæði við kennslu og hljómleikahald, var erfitt um vik að fá þá til að æfa upp efnisskrá fyrir þá fáu menn er voru félagsmenn í klúbbnum. Engin starfsemi var á vegum klúbbsins á árunum 1947-48. Tónleikarnir í janúar 1949 voru tilraun til að endurlífga starfið og var gerð í samvinnu við hið nýstofnaða félag nútímatónlistar sem var deild í ISCM (International Society for Contemporary Music). Á tónleikunum voru flutt verk eftir Stravinsky, Honegger, Hindemith og Jón Nordal. Aðeins um 30-40 manns sóttu þessa tónleika og ekki mun hafa verið um frekari starfsemi þessa félags að ræða að sinni. Stofnendur þessa fyrsta Kammermúsíkklúbbs voru Bjarni Guðmundsson, Árni Kristjánsson og Sigrún Gísladóttir.
Ekki minnkuðu verkefni hljóðfæraleikara á næstunni því nú styttist bæði í opnun Þjóðleikhússins og stofnun Sinfóníuhljómsveitarinnar. Kammertónlist var þó flutt reglulega og sá Tónlistarfélagið um þá tónleika. Eftir stofnun Symfóníuhljómsveitarinnar varð til nokkuð sem hét kammersveit Symfóníuhljómsveitarinnar undir handleiðslu Björns Ólafssonar fiðluleikara. Hélt sveitin fjölda kammertónleika í Austurbæjabíói og víðar á komandi árum.

79 Fálkinn, 3. ágúst 1945.
80 Alþýðublaðið, 22. janúar 1949.

Eitt af vandamálum áhugafélaga var fjárhagurinn. Menn voru nú orðnir sáttir á að hljóðfæraleikur væri “vinna” og að hljóðfæraleikarar fengju greitt fyrir vinnu sína. Slík félög höfðu enga tekjustofna nema félagsgjöld og aðgangseyri af tónleikum og því var erfitt um vik að halda slíkri starfsemi uppi.
Önnur tilraun var gerð til stofnunar kammermúsíkklúbbs árið 1957 og var starfsemi þess mjög virk. Í mars 1958 greinir Þjóðviljinn frá öðrum tónleikum annars starfsárs Kammermúsíkklúbbsins. Í greininni er sagt frá styrk til félagsins úr Músíksjóði Guðjóns Sigurðssonar er gerði félaginu kleift að flytja stærri kammertónverk og nýtti stjórn klúbbsins styrkinn til að flytja alla Brandenborgarkonserta Bachs á komandi tónleikum. Á þessum tónleikum voru einnig flutt verk eftir Schubert og Beethoven og voru flytjendur Ingvar Jónasson og Jón Nordal. Starfsemi félagsins hélt áfram og voru haldnir margir tónleikar með kammermúsík þar sem hljóðfæraleikarar voru ýmist innlendir sem erlendir. Starfsemin var mjög mikilvæg fyrir hina ungu íslensku hljóðfæraleikara og söngvara sem fengu tækifæri að vinna að list sinni á vegum félagsins.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is