Jón Þórarinsson

Jón Þórarinsson er fæddur 13. sept. 1917 í Gilsárteigi í Eiðaþinghá, Suður-Múlasýslu, sonur Þórarins Benediktssonar hreppstjóra og alþingismanns og konu hans Önnu Maríu Jónsdóttur. Jón varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1937. hann stundaði nám í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Á árunum 1944-46 stundaði hann tónlistarnám við Yale háskólann í Bandaríkjunum undir handleiðslu Pauls Hindemith og lauk þar prófum í tónfræði og tónsmíði. Um sumarið 1945 hafði hann ennfremur stundað nám í Juilliardtónlistarskólanum í New York. Löngu síðar, 1954-55, fór hann til námsdvalar í Austurríki og Þýzkalandi.

Jón Þórarinsson kom heim frá tónlistarnáminu í Ameríku á árinu 1947 og tók þá við fulltrúastarfi í tónlistardeild Ríkisútvarpsins, en starfsmaður stofnunarinnar hafði hann verið nær óslitið síðan 1938. Hann var nú orðinn náinn samstarfsmaður tónlistarstjórans, Páls Ísólfssonar. Þeir unnu báðir að því að koma hljómsveitarmálunum í hagkvæmara horf, en að því var stefnt að sameina hljómsveitirnar í bænum í eina fullkomna sinfóniska hljómsveit. Það lá í augum uppi, að Þjóðleikhúsið yrði aðili að slíkri hljómsveit, en komið var að því að það tæki til starfa. Fyrir ábendingu Páls Ísólfssonar var Jón ráðinn tónlistarráðunautur Þjóðleikhússins. Sinfóníuhljómsveitin tók til starfa 9. marz 1950 og var þá Jón stjórnarformaður hennar 1950-51. Þegar hljómsveitin var endurskipulögð 1. mars 1956 og nefndist úr því Sinfóníuhljómsveit Íslands, var Jón ráðinn framkvæmdarstjóri hennar og sleppti hann þá fulltrúastöðunni hjá útvarpinu. Árið 1961 tók Ríkisútvarpið við rekstri hljómsveitarinnar og lét Jón þá af framkvæmdarstjórastarfinu.

Eftir að Jón var kominn heim frá Ameríku 1947 var hann ráðinn yfirkennari við Tónlistarskólann í tónfræði og tónsmíði og hefur gegnt því starfi síðan með öðrum störfum sínum. Er Jón Halldórsson lét af söngstjórastarfinu hjá „Fóstbræður“ árið 1950 tók Jón Þórarinsson við og var söngstjóri karlakórsins árin 1950-54.

Jón er í fremstu röð íslenzkra tónskálda. Tónsmíðar hans eru með traustu handbragði, gætir á þeim áhrifa frá Hindemith, kennara hana, jafnframt því sem þær sverja sig í ættina til síns íslenska uppruna. Meðal þeirra er sónata fyrir klarínett og píanó, ennfremur orgelmúsík, hvorttveggja prentað. Einnig hafa sönglög eftir hann verið prentuð, þar á meðal einsöngslagið „Fuglinn í fjörunni“, sem er vinsælasta lagið. Kórlagið „Í skógi“, sem birt er í Söngvasafni L.B.K. 1948, gerði hann fyrst kunnan. Meðal óprentaðra tónsmíða er sónata fyrir píanó, sónata fyrir fiðlu og píanó, kantatan „Kubla Kahn“ fyrir baritón, kór og hljómsveit og lagaflokkurinn „Of Love and Death“ fyrir barítón og hljómsveit. Auk þess eru í handritum hljómsveitarverk, píanólög, kórlög, einsöngslög o.fl.

Jón hefur ritað allmikið um músíkmál og var um tíma tónlistargagnrýnandi við Alþýðublaðið (1948-50) og um árabil við Morgunblaðið (frá 1962 ). Eftir hann eru Þessi rit: Stafróf tónfræðinnar, kennslubók-handbók, Rvík. 1962 (2. pr. 1963), Páll Ísólfsson, Rvík. 1963. Þýðing á Beethoven (Eric Valentin), Rvík. 1962 og ævisaga Sveinbjarnar Sveinbjörnssonar (frumsamin), Rvík. 1969. Jón var meðritstjóri Sohlmans Musiklexikon I-IV, Stkh. 1948-52, og ritaði í það tugi greina um tónlist og tónlistarmenn.

Jón hefur staðið framarlega í félagsmálum tónlistarmann, gegnt stjórnarstörfum í ýmsum samtökum þeirra og verið forseti Bandalags íslenzkra listamanna frá 1963.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is