Jón Nordal

Jón Nordal, tónskáld og píanóleikari, er fæddur 6. marz 1926 í Reykjavík. Hann er sonur Sigurðar Nordals prófessors og konu hans Ólafar Jónsdóttur. Ólöf er dóttir Jóns yfirdómara Jenssonar rektors Sigurðssonar prests á Rafnseyri Jónssonar. Jens Sigurðsson var mikilsmetinn rektor Lærða skólans, sem hann starfaði við frá því skólinn fluttist til Reykjavíkur frá Bessastöðum. Jens rektor var albróðir Jóns Sigurðssonar forseta.

Jón Nordal stundaði nám í Tónlistarskólanum í Reykjavík og lauk þaðan burtfararprófi í píanóleik 1943 og í tónsmíðum 1949. Framhaldsnám stundaði hann hjá W. Buckhard í tónlistarskólanum í Zürich 1949-51. Árin 1955-57 dvaldi hann við tónlistarnám í París og Róm.

Jón hefur starfað við Tónlistarskólann í Reykjavík, fyrst sem kennari frá 1951, að undanteknum námsárunum í París og Róm, og sem skólastjóri frá 1959.

Jón vakti fyrst athygli á sér sem tónskáld með fiðluverkinu „Systurnar í Garðshorni“, sem flutt var á listamannaþinginu 1945. Síðan með hljómsveitarverkinu „Concerto grosso“ (1950). Ennfremur með konsert fyrir píanó og hljómsveit, sem flutt var í fyrsta sinn í Þjóðleikhúsinu 10. des. 1957, og lék þá höfundurinn sjálfur píanóhlutverkið með Sinfóníuhljómsveit Íslands, sem Wilhelm Schleuning, ríkishljómsveitarstjóri í Dresden stjórnaði sem gestur. Píanókonsertinn er frábrugðinn píanókonsertum í klassískum stíl að því leyti, að mjög er dregið úr forustuhlutverki einleikshljóðfærisins. Konsertinn er í einum þætti og er veigamikið tónverk. Af öðrum tónsmíðum eftir hann, sem Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur flutt, er „Sinfonietta seriosa“ (Bjarkamál), ennfremur konsert fyrir píanó og hljómsveit í einum kafla (Brotaspil) og Adagio fyrir flautur, hörpu og strengjasveit. Karlakórlög eftir Jón, sem „Fóstbræður“ hafa sungið, hafa vakið verðskuldaða athygli. Í stuttu máli, þá hefur Jón samið hljómsveitarverk, kammermúsíkverk, einleiksverk fyrir píanó, fiðlu, karlakórlög og einsöngslög. Sem tónskáld er hann sjálfstæður og sérkennilegur, er í snertingu við þær hræringar sem eru í nútímanum og hefur fullkomið vald á tónsmíðatækni. Jón Nordal er eitt eftirtektarverðasta tónskáldið af hinni yngri kynslóð.

Jón er góður píanóleikari og hefur komið opinberlega fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands í verkum eftir sjálfan sig og önnur tónskáld.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is