Íslensk Tónverkamiðstöð – aðdragandi að stofnun

Eitt af baráttumálum íslenskra tónskálda var stofnun svokallaðrar MIC stöðvar (Music Information Center) – Tónverkamiðstöðvar. Umræðan um stofnun hennar fór fyrir alvöru af stað upp úr 1960 og leiddi að lokum til stofnunar Íslenskrar Tónverkaviðstöðvar árið 1968 – en þó ekki á vegum Tónskáldafélagsins.
Upp komu hugmyndir hjá Tónskáldafélaginu um að ráða erlendan nótnaskrifara á vegum Menningarsjóðs til að gera góðar raddskrár af íslenskri tónlist og í framhaldi af því sjái um útgáfu “fullkominnar verkaskrár og upplýsingarits um íslenska tónlist”. (188) Á aðalfundi Tónskáldafélagsins árið 1963 bar formaður félagsins, Jón Leifs, fram eftirfarandi tillögu:

Aðalfundur Tónskáldafélags Íslands 31. janúar 1963 fer þess á leit við menntamálaráðherra og Menntamálaráð Íslands að Tónskáldafélaginu verði veittur fjárstyrkur til að starfrækja upplýsingaskrifstofu um íslenzka tónlist með svipuðum hætti og tónskáldafélög annarra menningarþjóða kynna sína tónlist. (189)

188 Gerðabók Tónskáldafélags Íslands 6. maí 1961.
189 Gerðabók Tónskáldafélags Íslands 31. janúar 1963.

Tillaga þessi var samþykkt og var Jóni Nordal, Magnúsi Blöndal Jóhannssyni og Þorkeli Sigurbjörnssyni falið að vinna að framgangi málsins.
Til undirbúnings stofnunar Tónverkamiðstöðvarinnar hélt Páll Kr. Pálsson í lok september 1964, á vegum Menntamálaráðuneytis og Menningarsjóðs, til Amsterdam í Hollandi til að kynna starfsemi aðalstöðva MIC (Donemus). Í framhaldi af því hélt hann til Árósa í Danmörku og sat þar 4. alþjóðafund MIC – stöðva sem áheyrnarfulltrúi.
Mikill áhugi var meðal tónskálda um stofnun tónverkamiðstöðvar á Íslandi. Til þess að flýta fyrir stofnun hennar undirrituðu félagsmenn Tónskáldafélagsins, að Sigurði Þórðarsyni undanskildum, skjal þess efnis að úthlutun sú úr Tónskáldasjóði Ríkisútvarpsins, sem samkvæmt skipulagsskrá var leyfileg fyrir árið 1964 og 1965, yrði látin renna til stofnunar og rekstur upplýsinga – og útbreiðslumiðstöðvar fyrir íslenska tónlist – með því skilyrði þó að Menningarsjóður Íslands legði fram sömu upphæð og Tónskáldasjóðurinn.
Með bréfi, dagsettu 25. janúar 1965, skipaði Menntamálaráðherra nefnd “sem athuga [skyldi] möguleika á stofnun tónverkamiðstöðvar” sem hefði það að markmiði að vinna að kynningu íslenskrar tónlistar erlendis með líkum hætti og slíkar stöðvar í öðrum löndum. Af hálfu Tónskáldafélags Íslands voru þeir Jón Leifs og Sigurður Reynir Pétursson skipaðir í nefndina, af Ríkisútvarpinu þeir, Vilhjálmur Þ. Gíslason og Árni Kristjánsson, af Menntamálaráðuneytinu, Baldvin Tryggvason og Kristján Benediktsson ásamt Þórði Einarssyni sem skipaður var formaður nefndarinnar.
Nefndin hélt fyrsta fund sinn 1. febrúar 1965 og reyndu nefndarmenn að gera sér grein fyrir því hvernig staðið væri að kynningu á íslenskri tónlist erlendis. Útvarpsstjóri, Vilhjhjálmur Þ. Gíslason, taldi “að Ríkisútvarpið hefði yfirleitt beztu aðstöðuna til að vinna að útbreiðslu ísl. tónlistar erlendis, enda væri útvarpið nú búið góðum og dýrum tækjum, svo sem upptökutækjum fyrir segulbönd og plötuskurðarvél”. (190) Benti hann m.a. á að Ríkisútvarpið hefði sent lista til 99 erlendra útvarpsstöðva þar sem þeim var boðin íslensk tónlist á böndum. (191) Jón Leifs sagði þetta starf að sjálfsögðu góðra gjalda vert, en hvorki nægilega mikið né nógu vel undirbúið. Mun betur þyrfti að standa að þessum málum.
Á næsta fundi nefndarinnar, 17. febrúar 1965, mætti Páll Kr. Pálsson á fundinn að ósk nefndarinnar og gerði grein fyrir ferð sinni til Evrópu, sem greint var frá hér að framan. Að auki gerði hann nefndinni grein fyrir hvert almennt starfssvið MIC stöðva væri og á hvern hátt þær ynnu saman. Einnig bent hann á að:

…eitt höfuðverkefni slíkrar stöðvar yrði að senda íslenzk tónverk til systurstöðva í öðrum löndum og óska eftir því að þær sjái um flutning þeirra, og þá helzt “lifandi” flutning fremur en “mekanískan”, en slíku fylgdi sú kvöð, eða “mórölsk” skylda, að sjá um flutning jafnmargra erlendra tónverka hér á landi. Ef t.d. tónverkamiðstöðin hér á landi ákveður að senda 3 tónverk til tveggja MIC-stöðva erlendis og óskaði eftir flutningi þeirra, þá þyrfti að sjá um flutning 6 útlendra tónverka hér. Sagðist Páll hafa rætt þessa kvöð við fulltrúa MIC-stöðvanna og m.a. bent á að það væri nokkuð erfitt fyrir okkur Íslendinga að uppfylla þetta skilyrði, þar sem hér var t.d. aðeins starfandi ein sinfóníuhljómsveit. Sagði hann að þessu hefði verið tekið af skilningi og teldi hann ugglaust að við fengjum afslátt frá þessari kvöð. (192)

190 Fyrsta fundargerð nefndar, dags. 1.2.1965.
191 Um 20 útvarpsstöðvar svöruðu jákvætt.
192 Fundargerð 2. fundar nefndar til athugunar á stofnun Tónverkamiðstöðvar dags. 17. febrúar 1965.

Vorið 1956 var ráðinn þýskur hljómsveitarstjóri til að stjórna hljómsveitinni, Wilhelm Scleuning að nafni. Viðfangsefnin á tónleikunum auk einsöngs Þorsteins Hannessonar í aríum úr óperum eftir Weber og Beethoven, voru tvö verk eftir Stravinsky, Pulcenella og Eldfuglinn.
Það var því margs að gæta við stofnun tónverkamiðstöðvar, m.a. hvernig skyldi fjármagna stofnun íslenskrar tónverkamiðstöðvar.

Á fundi Menntamálaráðs þann 22. mars 1965 var samþykkt að veita árlega 200.000 krónum til stofnunar og reksturs slíkrar stöðvar, svo framarlega sem næðist samkomulag milli Menntamálaráðuneytis, stjórnar Tónskáldafélagsins og Ríkisútvarpsins um nauðsynleg fjárframlög til starfseminnar. Í framhaldi af þessu samþykkti nefndin að fela Vilhjálmi Þ. Gíslasyni útvarpsstjóra, Jóni Leifs tónskáldi og Þórði Einarssyni stjórnarráðsfulltrúa að semja drög að stofnskrá og reglum fyrir tónverkamiðstöð, og er hún dagsett 10. desember 1965. Á fundi stjórnar Tónskáldasjóðs Ríkisútvarpsins þann 9. desember 1965 var einnig samþykkt að veita 200.000 krónum til stofnunar og reksturs tónverkamiðstöðvar, en reksturskostnaður var áætlaður 629.000 krónur. Hér voru því komin fram loforð fyrir um 60% stofn- og rekstrarfjár slíkrar stofnunar. Samþykkt var að reyna að fá það sem upp á vantaði úr ríkissjóði þar til rekstri stöðvarinnar væri tryggður annar tekjustofn.
Í þriðju grein stofnskrár Tónverkamiðstöðvar Íslands segir:
Stjórn Tónverkamiðstöðvarinnar skal skipuð fimm mönnum. Skal einn þeirra tilnefndur af Tónskáldafélagi Íslands; einn af STEFI, Sambandi tónskálda og eigenda flutningsréttar; einn af Menntamálaráði Íslands og einn af Ríkisútvarpinu, en fimmta meðlim stjórnarinnar skipar menntamálaráðherra án sérstakrar tilnefningar, og skal hann jafnframt vera formaður stjórnar. Stjórn Tónverkamiðstöðvarinnar skipuleggur starfsemi hennar, ræður framkvæmdastjóra og annað starfslið, eftir því sem henni þykir þurfa, og í samræmi við ákvæði stofnskrárinnar. (193)
Þegar hér var komið sögu hindraði Jóni Leifs framgang málsins. Þann 13. desember 1965 ritar hann formanni nefndarinnar, Þórði Einarssyni, bréf þar sem hann skrifar m.a.:

Það er mjög ólíklegt að íslenzk tónskáld og rétthafar íslenzkra tónverka muni almennt fallast á að afhenda verk sín tónverkamiðstöðinni til útbreiðslu, ef meiri hluti stjórnar hennar er skipaður ósérfróðum mönnum eða fulltrúum ósérfróðra aðilja. (194)

Í tillögum um breytingu á 3. grein stofnskrárinnar skrifar Jón Leifs:

Þeir menn, sem Menntamálaráð og menntamálaráðherra skipar, skulu vera hljómsveitarstjórar eða einleikarar úr Sinfóníuhljómsveit Íslands, og skulu jafnframt skipaðir vara menn þeirra með sömu sérmenntun… (195)

Á lokafundi nefndarinnar, sem haldinn var 2. febrúar 1966, kom fram að á fundi Menntamálaráðs 31. janúar 1966 hefði þessi breytingartillaga verið ítarlega rædd “og hefði ráðið einróma verið þeirrar skoðunar að það gæti ekki samþykkt það að tilnefning þess á fulltrúa í stjórn tónverkamiðstöðvarinnar væri háð neinum sérstökum skilyrðum.” (196) Einu breytingartillögurnar við hina upphaflegu tillögu um stofnskrá vörðuðu varamenn og voru þær samþykktar á fundinum.

193 Úr stofnaskrá Tónverkamiðstöðvar Íslands.
194 Bréf frá Tónskáldafélagi Íslands til Þórðar Einarssonar fulltrúa Menntamálaráðuneytis dags. 13. des. 1965, undirritað af Jóni Leifs.
195 Tillögur Tónskáldafélags Íslands um breytingu á stofnskrá Tónverkamiðstöðvar Íslands.
196 Fundargerð 5. fundar nefndar til athugunar á stofnun tónverkamiðstöðvar, haldinn 2. febrúar 1966.
Eftir þessa fundi og eftir þann “fleyg” sem Jón Leifs rak í framgang málsins verður að ætla að Jón Leifs hafi verið uggandi um völd sín og yfirráð í þessari nýju stofnun. Löngu áður en tónverkamiðstöðin var sett á laggirnar var hann farinn að starfa á hennar vegum á alþjóðlegum vettvangi eins og kemur fram í fundargerðum Tónskáldafélagsins. Frá stjórnarfundi þann 25. júní 1965 er eftirfarandi bókun:

Stjórnin samþykkti að fela formanni sínum að senda forstjóra Alþjóðasambands tónverkamiðstöðva (M.I.C. Centers) símskeyti þess efnis að af ófyrirsjáanlegum ástæðum geti Tónverkamiðstöð Íslands ekki sent fulltrúa á fund sambandsins í Dijon í næstu viku, en að fundurinn sé beðinn að staðfesta og viðurkenna nú þegar fulla þátttöku og aðild Tónverkamiðstöðvar Íslands í alþjóðasambandinu. (197)

Óljóst er hvort þessar athugasemdir Jón Leifs eru komnar frá honum einum eða hvort hann hefur í upphafi haft einhvern stuðning við þær í Tónskáldafélaginu. Á framhaldsaðalfundi 16. febrúar er bókað í gerðarbók Tónskáldafélagsins:

Formaður óskar bókað að hann harmi mjög að félagsmenn hefðu þrátt fyrir skrifleg tilmæli hans ekki kynnt sér nefndarálitið um stofnun tónverkamiðstöðvar sem legið hefði frammi á skrifstofu félagsins og hann hefði vonað að einkum þeir menn sem á aðalfundinum 28. f. mán. hefðu óskað eftir breytingu á forystu félagsins, mundu nota tækifærið til að kynna sér betur starfsemi þess og undirbúa stjórnarskipti síðar, en þeir hefðu að engu sinnt fyrrgreindum tilmælum. (198)

Hér kemur greinilega fram að í fyrsta lagi hafi félagsmenn ekki kynnt sér það nefndarálit sem fjallað var um hér að framan, og á sama tíma ávítar hann félagsmenn fyrir að óska breytinga á stjórn félagsins, en við stjórnarkosningu á aðalfundi 28. janúar sama ár hlaut Jón Leifs 8 atkvæði í formannskjöri á móti 5 atkvæðum Jóns Nordal.

197 Gerðabók Tónskáldafélags Íslands 25. júní 1965.
198 Gerðabók Tónskáldafélags íslands 16. febrúar 1966.
Jón Leifs hafði í upphafi ekkert umboð Tónskáldafélagsins til athugasemda við greinar stofnskrárinnar því þær voru, samkvæmt gerðabók, aldrei ræddar né neinar samþykktir gerðar. En á aðalfundi Tónskáldafélagsins 30. janúar fékk Jón samþykki fyrir þessum fyrirvörum sínum, en þá fyrst þegar búið var að ganga frá áliti nefndarinnar.
Það líða tæp tvö ár þar til orðið “tónverkamiðstöð” er nefnt aftir í gerðabókum Tónskáldafélagsins. Það er á stjórnarfundi 12. janúar 1968, en þar segir:

Samþykkt var að boða stofnfund Íslenskrar tónverkamiðstöðvar miðvikudaginn 17. jan. nk. að Bókhlöðustíg 2 kl. 20.30, alla félagsmenn Tónskáldafélags Íslands og önnur tónskáld sem hafa undirskrifað stofnsamþykkt miðstöðvarinnar.

Nú fóru hlutirnir að ganga hratt fyrir sig og um leið fór að grafa undan valdastóli Jóns Leifs sem leiðandi manns fyrir hönd íslenskra tónskálda. Mörg ný tónskáld voru komin í hópinn sem höfðu önnur viðhorf og kærðu sig lítt um “ráðsmennsku” Jóns Leifs í málum félagsins. Í gerðabók Tónskáldafélagsins er síða sem hefur yfirskriftina “Stofnfundur Íslenskrar tónverkamiðstöðvar”, dagsett 17. janúar 1968 á Hótel Sögu, herbergi 513. Á þennan fund voru mættir: Jón Leifs, Siguringi E. Hjörleifsson, Sigursveinn D. Kristinsson, Atli Heimir Sveinsson, Sigurður Þórðarson, Jón Ásgeirsson, Karl O. Runólfsson, Jón Nordal, Jón Þórarinsson, (199) Þorkell Sigurbjörnsson, Páll P. Pálsson, Jórunn Viðar, Skúli Halldórsson, Þórarinn Jónsson, Fjölnir Stefánsson, Magnús Blöndal Jóhannsson, Leifur Þórarinsson og Þorkell Sigurbjörnsson, sem hafði umboð frá Gunnari Reyni Sveinssyni.
Engin mál voru afgreidd á fundinum en eftir miklar umræður var kosin nefnd til að endurskoða frumvarp til laga fyrir Tónverkamiðstöðina. Í hana voru kosnir Fjölnir Stefánsson, Karl O. Runólfsson og frá Ríkisútvarpinu, Þorkell Sigurbjörnsson.
Skömmu síðar eða 25. janúar var haldinn stjórnarfundur í Tónskáldafélaginu þar sem formaður lagði fram frumvarp til laga, ásamt breytingartillögum fyrir íslenska tónverkamiðstöð. Á þeim fundi var ákveðið að funda með nefndinni er kosin hafði verið á “stofnfundinum”. Sá fundur var svo haldinn 31. janúar. Þar lagði nefndin fram álitsgerð sem var rædd.
Í framhaldi af þeirri umræðu sagði Jón Leifs það álit sitt að þessi drög þyrftu frekari skoðunar við “og að óhugsandi væri að reka tónverkamiðstöð nema í sem nánustum tengslum við aðalfundi Tónskáldafélags Íslands og STEFs og við Ríkisútvarpið og helst einnig við Landsbókasafnið”. (200) Erfitt er að gera sér grein fyrir þessum endalausu fyrirvörum frá Jóni Leifs. Fyrir honum virðist hafa vakað að tryggja eigin stöðu í yfirráðum yfir þessari stofnun, með ofuráherslu á að ekkert megi gera nema í náinni samvinnu við Tónskáldafélagið og STEF, en hann gegndi formennsku í báðum þeim félögum.
Á aðalfundi Tónskáldafélagsins sama dag, þ.e. 31. janúar 1968, samþykkti fundurinn einróma eftirfarandi tillögu Jóns Leifs:

 Í því trausti, að nægilegt fé sé fáanlegt fyrir stofnun og rekstur útbreiðslumiðstöðvar íslenskrar tónlistar ályktar fundurinn í tilefni af 20 ára afmæli STEFs í dag að stofna slíka miðstöð og fresta yfirstandandi aðalfundi til þess að ganga endanlega frá lögum og starfsreglum fyrir útbreiðslumiðstöðina.
Auk þessarar tillögu lagði formaður til að nefndin sem minnst hefur verið hér á að framan endurskoðaði drögin að stofnun miðstöðvarinnar í samráði við stjórn Tónskáldafélagsins. Var á þessum fundi ákveðið að fresta aðalfundi til 24. febrúar.

199 Jón Þórarinsson var ekki meðlimur í Tónskáldafélaginu á þessum tíma.
200 Gerðabók Tónskáldafélags Íslands 31. janúar 1968.

Til baka

 

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is