Íslensk Tónlistaræska

Upp úr 1950 fór brautryðjendastarfið í Tónlistarskólanum í Reykjavík að skila sér á fleiri vegu en að mennta hljóðfæraleikara. Haustið 1953 stofnuðu nokkrir áhugasamir nemendur við Tónlistarskólann með sér félag er þeir nefndu Íslensk tónlistaræska. (187) Markmið félagsins var “að reyna að gefa sem allra flestum tækifæri til að kynnast fyrir lítið verð (árgjald er kr. 65.00 á ári) ýmsu af því merkasta og fegursta, sem til er í nýrri og eldri tónlist”. Félagið var einkum ætlað æskufólki á aldrinum 12-30 ára og ætlun þess að glæða áhuga æskufólks á fagurri tónlist.

Í fyrstu stjórn félagsins sátu Leifur Þórarinsson, Kristinn Gestsson og Sigurður Örn Steingrímsson. Fyrstu tónleikar félagsins voru haldnir haustið 1953 og léku á þeim tónleikum Ingvar Jónasson fiðluleikari og Jón Nordal tónskáld. Félagið var geysivirkt og mikill áhugi meðal félagsmanna að fá tækifæri til að heyra tónlist, nýja sem gamla og einnig var flutt íslensk tónlist eftir föngum.

Í ársbyrjun 1954 fór félagið fram á það við Ríkisútvarpið að fá tvo æskulýðshljómleika hjá Sinfóníuhljómsveitinni sem var nýjung í starfi hljómsveitarinnar. Einnig var leikin kammertónlist á vegum félagsins og lék m.a. Björn Guðjónsson Sónötu fyrir trompet og píanó op. 23 eftir Karl O. Runólfsson við undirleik Victors Urbancic. Egill Jónsson lék sónatínu fyrir klarínett og píanó eftir Honegger og svo lék strengjakvartett undir stjórn Björns Ólafssonar kvartett eftir Schostakovic. Öll verkin á tónleikunum voru kynnt. Ári eftir stofnun félagsins voru félagsmenn orðnir um 200 talsins. Upp var að rísa ung og ný kynslóð tónlistarmanna sem átti eftir að marka spor sín í tónlistarlífinu á komandi árum, bæði sem skapandi og túlkandi listamenn.
Íslandi.

187 Þessi klúbbur var á engan hátt tengdur Federation Internationale des Jeunesses musicales í Belgíu.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is