Inngangur

Á árunum kringum aldamótin var það ekki óalgeng sjón að sjá heimasæturnar tifa um götur bæjarins með gítar undir hendinni. Þá voru þær annaðhvort að koma úr kennslustund eða á leiðinni í hana. Gítarinn var notaður til undirleiks með söng og var hann vel til þess fallinn. Á gömlum heimilum í Reykjavík mátti lengi sjá gítar hanga á veggnum, sem minjagrip um húsmúsíkina á þeim árum, er húsmóðirin var ung og lék á hljóðfærið. En það var annað hljóðfæri, sem brátt kom mikið við sögu á heimilum, þar sem tónlist var iðkuð. Það var harmoníum, sem í daglegu tali var kallað stofuorgel eða blátt áfram orgel. Þetta hljóðfæri hafði þann kost að ekki tók langan tíma að læra að leika á það, og ekki þurfti að stemma það eins og píanóin, og auk þess var það ekki dýrara en svo, að margir gátu eignast það. Það náði fljótt mikilli útbreiðslu í kauptúnum og sveitum, og var lengi algengasta hljóðfærið hér á landi. Þetta hljóðfæri hefur veitt Íslendingum margar ánægjustundir og margir tóku það fram yfir píanóið, enda kunnu fáir á þeim árum að leika á píanó nokkuð að gagni, en aftur á móti léku margir laglega á harmoníum. Á fyrsta áratug aldarinnar voru píanó óvíða til í Reykjavík; helzt á heimilum efnamanna, þar sem músíkin var í heiðri höfð. Einstaka konur lærðu píanóleik erlendis og léku opinberlega í Reykjavík (sjá bls. 202), en karlmenn lögðu ekki þá list fyrir sig fyrr en síðar.

Karlakórsöngur var iðkaður frá því löngu fyrir aldamótin og átti jafnan mikilli hylli að fagna. Það kom ekki ósjaldan fyrir á kyrrum vor- og sumarkvöldum, að karlakórinn söng úti fyrir bæjarbúa, annaðhvort í Tjarnarbrekkunni eða á öðrum stað. Einu sinni var sungið í Tjarnarhólmanum. Þá var byggðin að mestu bundin við Miðbæinn, Þingholtin, Vesturgötuna og Bráðræðisholtið. Söngurinn barst í kvöldkyrrðinni um allan bæinn og fólkið kom út úr húsunum, hlustaði og hafði af góða skemmtun. Á öðrum tug aldarinnar, þegar karlakórinn „17. júní“ var enn í fullu fjöri, hélzt þessi siður enn, en síðar hefur hann að mestu lagst niður, útisöngur karlakóra þekkist nú ekki nema eitthvert tilefni sé til hans annað en blíðviðrið.

Er líða tók á annan áratuginn, fóru kaffihúsin í bænum að hafa hljóðfæraslátt til að laða að gesti. Margir minnast bræðranna Eggerts Gilfer og Þórarins Guðmundssonar, sem lengi léku á aðalkaffihúsum bæjarins, og Bernburgs fiðluleikara, sem lék á Hótel Íslandi. Oft voru hljóðfæraleikarar sóttir til útlanda, allt frá því að Oscar Johansen var ráðinn til að leika á Hótel Ísland kringum árið 1910. Hann var ágætur fiðluleikari, lék nær eingöngu klassísk lög og jókst aðsóknin mikið, því að svo góður fiðluleikur hafði aldrei áður heyrst í Reykjavík. Hann dvaldi hér í 2-3 ár, fór síðan til Ameríku og varð hljómsveitarstjóri í Chicago. Á þessu tímabili er kaffihúsamúsíkin yfirleitt góð, margir hljóðfæraleikararnir góðir listamenn, eins og píanóleikarinn Ernst Schact, sem lék á Hótel Skjaldbreið um 1925. Hann var snillingur. Einnig þótti gott að hlýða á píanóleikarann Carl Billich og hljómsveit hans, sem kom seinna til sögunnar, og lék fyrstá Hótel Ísland, síðan í veitingasal Sjálfstæðishússins við Austurvöll og síðast í Nausti. Með honum lék fiðluleikarinn Josef Felzmann, báðir góðir og vinsælir listamenn. Um 1930 varð breyting á kaffihúsalífinu, því þá var farið að dansa þar. Og þá dunar dansinn undir jazz og annarri dansmúsík þar kvöld eftir kvöld og unglingarnir fylla salina. En á daginn eru þar leikin létt klassísk lög og ráðsettir borgarar drekka þar síðdegiskaffið og hlusta.

Þegar líður á annan áratuginn fór þeim Íslendingum fjölgandi, sem lærðu á fiðlu og önnur hljóðfæri, svo sem blásturshljóðfæri. Þegar frá leið, var svo komið, að Íslendingar voru orðnir einir um að halda uppi hljóðfæraslætti í veitingasölum borgarinnar, hvort heldur var dansmúsík eða klassíska músík að ræða.

Einstaka framagjarnir hæfileikamenn leituðu út fyrir pollinn til að svala menntaþrá sinni á tónlistarsviðinu, og fór þeim fjölgandi með árunum. Páll Ísólfsson lærði orgelleik hjá Straube í Leipzig, Haraldur Sigurðsson píanóleik hjá Rappoldi Kahrer í Dresden og urðu báðir snillingar. Pétur Jónsson hafði rutt sér braut inn á helztu óperusvið Þýzkalands. Fleiri mætti nefna, sem komu á eftir, en á þá hefur verið minnst áður (sjá bls. 210). Þegar þessir menn komu til Íslands í sumarfríum sínum, héldu þeir konserta, sem ávallt þóttu mikill tónlistarviðburður. Svo hurfu þeir, aftur með haustinu og tónlistarlífið í bænum féll í sama far aftur.

Þegar komið er fram að 1930 höfðum við eignast nokkra góða listamenn, söngvara, píanóleikara, fiðluleikara, cellóleikara og orgelsnilling. Þessir menn voru Þá farnir að láta að sér kveða í tónlistarlífinu. Allir höfðu þeir lært tónlistina erlendis. Hvað karlakórsöng snertir, þá var hann kominn á það stig sem hann gerist beztur hjá nágrannaþjóðunum, en þá er auðvitað átt við beztu kórana okkar. Þetta varð ljóst eftir söngför karlakórsins K.F.U.M. til Noregs 1926, og kom það Íslendingum sjálfum á óvart. Sama er að segja um blandaðan kórsöng. Sá blandaði kór, sem síðar var nefndur „Heimir“, og Sigfús Einarsson fór með á norrænt söngmót í Kaupmannahöfn 1929, reyndist vera einhver besti kórinn á því móti, og voru það þó eingöngu úrvalskórar á Norðurlöndum, sem þar sungu. En í hljómsveitarmálunum stóðu spilin ver, því þar vorum við stutt á veg komnir. Þó varð stofnun Hljómsveitar Reykjavíkur árið 1925 til þess, að tónlistarlífið komst inn á nýja braut, sem reyndist heillavænleg, og verður sagt frá því hér á eftir.

Hljómsveit Reykjavíkur var stofnuð 11. okt. 1925 af Jóni Laxdal, og Sigfúsi Einarssyni. Orðið „hljómsveit“ er teygjanlegt hugtak. Það er mikill munur á fullkominni sinfónískri hljómsveit og þeirri, sem hér var að verki. Hljómsveit Reykjavíkur var á þessum árum í rauninni ekki annað en „salon-hljómsveit“, því að í hana vantaði mörg hljóðfæri, sem í sinfónískri hljómsveit eiga að vera. Hún gat því ekki flutt hinar, fögru tónsmíðar í þeim búningi, sem tónskáldin höfðu klætt þær. Árið 1930 var hún ekki komin lengra á veg en það, að hún var ekki einfær um að annast undirleikinn í Hátíðarkantötu Páls Ísólfssonar á Þingvöllum og varð að ráða hóp hljóðfæraleikara frá Kaupmannahöfn (11 menn alls) til viðbótar þeim, sem fyrir voru. Stofnun hljómsveitarinnar er samt merkur viðburður. Forráðamenn hennar vissu mæta vel, að hún var ekkert annað en vísir að fullkominni sinfónískri hljómsveit og hlaut að verða það um langan tíma. Hér var við erfiðleika að etja. Hljóðfæraleikararnir urðu á þessum árum yfirleitt að leita til útlanda til að ná fullkomnun í listinni. Það var ekki líklegt, að margir vildu leggja í þann kostnað og eyða tíma í það, þegar ekki var annað í aðra hönd en ánægjan að leika í hljómsveitinni endurgjaldslaust, en það urðu hljómsveitarmennirnir að gera allt fram að 1950 er Sinfóníuhljómsveitin var stofnuð. Hér var úr vöndu að ráða. Menn sáu fram á nauðsyn þess að stofnaður yrði tónlistarskóli í Reykjavík, sem veitt gæti kennslu á þau hljóðfæri, sem nauðsynleg eru í hljómsveit. Námið í tónlistarskólanum mætti hafa í hjáverkum með öðrum störfum. Þeir hlutu og að verða fleiri, sem gerðu tónlist að atvinnu sinni, eftir því sem bærinn stækkaði, en Reykjavík var þá í örum vexti. Tónlistarskólinn var síðan stofnaður og tók til starfa haustið 1930. Páll Ísólfsson var ráðinn skólastjóri, og veitti skólanum forstöðu í áratugi, en þá tók Árni Kristjánsson við skólastjórn og síðan Jón Nordal. Hljómsveit Reykjavíkur stofnaði skólann, enda ætlunarverk hans fyrst og fremst að veita félögum hljómsveitarinnar tilsögn. Fyrstu tvo veturna annaðist hljómsveitin reksturinn, en það kom í ljós, að á þessu voru annmarkar, sérstaklega þar sem um fjárhagslega ábyrgð var að ræða. Hljómsveitin var ekki nægilega fastmótuð og skipulögð sem félag, menn komu og fóru eftir ástæðum, en hún bar fjárhagslega ábyrgð á rekstri skólans eins og áður er sagt. Varð þetta til þess, að 12 menn stofnuðu Tónlistarfélagið 27. júní 1932, sem síðan tók við rekstri hljómsveitarinnar og skólans, og hafa þessir þrír aðilar, hljómsveitin, skólinn og Tónlistarfélagið síðan verið aðalstoðirnar í tónlistarlífi bæjarins.

Tónlistarskólinn fór hægt af stað, en færðist í aukana og bætti við sig fleiri kennslugreinum jafnskjótt og þess var kostur. Skólinn hafði frá fyrstu tíð góðu kennaraliði á að skipa, íslenzkum og útlendum mönnum sem flestir eru þjóðkunnir listamenn.

Starf Tónlistarfélagsins er þríþætt. Fyrst rekstur Tónlistarskólans, annað rekstur hljómsveitarinnar og þriðja tónleikahald í Reykjavík. Tónlistarskólinn er nú búinn að starfa í 40 ár með góðu kennaraliði og fjölmennum nemendahóp. Hinir árlegu nemendatónleikar skólans hafa borið kennslunni fagurt vitni. Hljómsveit Reykjavíkur tók framförum undir handleiðslu þeirra dr. Mixa og dr. Urbancic og aldrei var sleppt auganu af takmarkinu að gera úr henni fullkomna sinfóníska hljómsveit. Mestu vandkvæðin voru skortur á blásurum. Úr þessu reyndi skólinn að bæta, með því að veita þremur efnilegum blásurum nokkurn styrk til náms erlendis. Einnig réði skólinn til starfa hér snjallasta hornleikara á Norðurlöndum, Wilhelm Lanzky-Otto. Eftir að þessir menn tóku til starfa hér, varð allur annar svipur á leik hljómsveitarinnar en áður hafði verið. Enn þurfti að bæta við 6-7 mönnum, svo hér væri komin rétt skipuð sinfónísk hljómsveit, og var úr þessu bætt. Fyrstu tónleikar Sinfóníuhljómsveitarinnar, sem var ný hljómsveit, voru haldnir í Austurbæjarbíó 9. marz 1950 undir stjórn Róberts Abrahams Ottóssonar.

Saga Hljómsveitar Reykjavíkur er að öðru leyti sögð á öðrum stað en saga Sinfóníuhljómsveitarinnar, tilheyrir næsta tímabili.

Þriðji þátturinn í starfi Tónlistarfélagsins er tónleikahald í Reykjavík. Það skal tekið fram, að nær allir tónleikar í Reykjavík, eftir að félagið var stofnað, voru haldnir á vegum félagsins að undanteknum samsöngvum karlakóra og blandaðra kóra, en þó ekki Tónlistarfélagskórsins (áður Samkór Tónlistarfélagsins). Ennfremur héldu nokkrir íslenzkir söngvarar konserta, upp á eigin spýtur. Í kaflanum hér á eftir um tónlistarlíf í Reykjavík 1930-50 eru þeir listamenn taldir, íslenzkir og erlendir, sem komu opinberlega fram hér í bænum á þessum árum. Má af þeirri upptalningu sjá, að Tónlistarfélagið hefur vandað val listamannanna, því allt eru þetta góðir listamenn og sumir heimsfrægir snillingar. Það er stefna félagsins að bjóða það bezta, og má með sanni segja, að allir þessir tónleikar hafa orðið til að bæta músíksmekkinn og auka þekkingu manna á góðri tónlist.

Tólfmenningarnir í Tónlistarfélaginu voru hugsjónamenn, framsýnir og ötulir, og misstu aldrei sjónar af því marki, sem Þeir höfðu sett sér. Í Morgunblaðinu 11. marz 1938 birtizt grein, þar sem meðal annars segir svo: „Það er ekki ofmælt, að meðal þeirra menningarfélaga sem starfa með þjóð vorri á síðustu tímum, hefur Tónlistarfélagið verið stórstígast, og svo stórhuga, að mörgum meðalmanni hefur fundizt það nálgast fífldirfsku“.

En hverjir eru þessir stórhuga hugsjónamenn? Ber fyrst að nefna dr. Pál Ísólfsson, sem hefur verið ráðunautur Tónlistarfélagsins í þessum málum og hefur átt mestan þátt í að marka stefnuna, ásamt þeim Ragnari Jónssyni forstjóra í Smára og Birni Jónssyni fyrv. kaupmanni og nú framkvæmdarstjóra Tónlistarfélagsins, sem báðir eru ötulir og framtakssamir. Eftir að Björn Ólafsson fiðluleikari var kominn heim frá námi í Vínarborg, varð hann aðalkennari Tónlistarskólans í fiðluleik og hefur síðan unnið mjög vel að hljómsveitarmálunum. Einnig er hlutur Jóns Þórarinssonar tónskálds góður, en hann hefur verið yfirkennari skólans síðan 1947. Fleiri menn hafa lagt hönd á plóginn þótt ekki séu þeir taldir hér.

Það urðu þáttaskil í íslenzkri tónlist um 1930, og það er ekki ofmælt, að Tónlistarfélagið hafi átt drjúgan þátt í að breyta viðhorfi manna til tónlistar eftir það, svo að nú eru þeir fleiri en áður, sem kunna að njóta og meta það, sem gildi hefur í tónlist. Félagið hefur náð því marki að skapa fullkomna sinfóníska hljómsveit, en það er almennt viðurkennt, að slík hljómsveit er undirstaða hærri tónlistarmenningar. Sinfóníuhljómsveitin okkar er menningarvottur sem öll þjóðin getur verið stolt af.

Þau straumhvörf í íslenzkri tónlist, sem urðu upp úr 1930, ber ekki sízt að þakka Ríkisútvarpinu, sem þá tók til starfa. Þessi menningarstofnun hefur síðan, svo að segja daglega, kynnt landsmönnum góða og fjölbreytta tónlist, íslenzka sem útlenda, og hefur þannig aukið mjög músíkþekkingu og breitt smekk landsmanna.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is