Hljómsveit undir stjórn Þórarins Guðmundssonar

Tónleikalíf í Reykjavík á árunum um 1920 – 30 var miklu fjölbreyttara frá því sem þekkst hafði áður. Viðfangsefnin urðu stærri og tónleikum fór fjölgandi. Auk hefbundinna kór- og einsöngstónleika, sem svo ríkan þátt áttu í tónlistarlífinu, voru haldnir fleiri og fleiri hljóðfæratónleikar, píanó-, fiðlu- og orgeltónleikar. Fyrir utan þann stórviðburð á þessum áratug, sem var heimsókn Hamburger Philharmonisches Orchester, undir stjórn Jóns Leifs árið 1926, þá verður stofnun Hljómsveitar Reykjavíkur og tónleikahald hennar og vöxtur, að teljst eitt mikilvægasta skref sem stigið var í tónlistarmálum þjóðarinnar. Kórsöngur hafði fram að þessu verið ríkjandi form tónleikahalds í landinu, en á þessum áratug var hljóðfæratónlist ört vaxandi, og hljóðfærakunnátta tónlistarfólks jókst að sama skapi.

Kjör þeirra fáu hljóðfæraleikara sem voru í Reykjavík á árunum fyrir 1930, og einnig enn í nokkra árutugi, gátu orðið ströng hvað varðaði vinnutíma og laun. Starf þeirra sem tónlistarmanna var kennsla sem og hljóðfæraleikur á kaffihúsum og í kvikmyndahúsum. Auk þess unnu flestir einhver föst störf, annaðhvort verslunar- eða skrifstofustörf. Kaffihúsamenning í Reykjavík var afar blómleg á þessum árum og má þar sem dæmi nefna eitt fínasta kaffihúsið, Café Rosenberg, sem hóf starfsemi sína í kjallara Nýja Bíós árið 1920, á sama tíma og bíóið tók til starfa. Þar starfaði hljómsveit undir stjórn Þórarins Guðmundssonar í um 10 ár. Mikið menningarsnið var á þessum stað og má þar til nefna að hljómsveitin sem lék á kaffihúsinu gaf út hljómleikaskrá, að hætti sumra fínni erlendra kaffihúsa á þeim tíma, sem lá frammi fyrir gesti. Í þessari skrá Café Rosenberg voru 615 lög sem hljómsveitin hafði á takteinum fyrir gesti og skyldu þeir aðeins gefa upp númer úr skránni og fengu á þann hátt óskalagið leikið.

Hljómsveitin flutti síðdegistónlist á kaffihúsinu og svo aftur á kvöldin að lokinni bíósýningu. Tveir hljóðfæraleikaranna léku einnig tónlist undir kvikmyndunum, eins og venja var á þeim árum þöglu myndanna. Með Þórarni störfuðu í hljómsveitinni fjórir menn, Eggert Guðmundsson (bróðir hans, en hann tók síðar upp eftirnafnið Gilfer), Karl O. Runólfsson, Torfi Sigmundsson og Björn Jónsson. Hljóðfæraskipan var dálítið óvenjuleg, eða tvær klarinettur, trompet, píanó og fiðla. Bræðurnir, Þórarinn og Eggert, léku síðdegistónlist og undir í kvikmyndunum, en á kvöldin var “hljómsveitin” fullskipuð. Hópurinn starfaði allt fram til ársins 1930, en þá leystu talmyndirnar þöglu myndirnar af hólmi. Ríkisútvarpið hóf þá einnig útsendingar sínar og Þórarinn réðst þangað til starfa til að annast tónlistarflutning. Um 1920 var að auki í Reykjavík lítill hópur manna sem lék tónlist við ýmis tækifæri, annaðhvort einir sér eða saman í litlum hópum, líkt þeim sem minnst var á hér að framan.Ekki var um marga stóratburði að ræða í bæjarlífinu og vakti heimsókn Kristjáns konungs X árið 1921 mikla athygli. Margt var gert til að taka sem best á móti konungi. Nefnd, sem stóð að konungsheimsókninni, vakti athygli á að tónlistarflutningur yrði að skipa ákveðinn sess þó svo að opinberir framámenn sæju ekki ástæðu að öðru leyti til að hafa nein afskipti af tónlistarmönnum, né tónlistarmálum yfirleitt. Ljóst var að við veisluhöldin dygði ekki að láta hina “bjargföstu” karlakóra landsins syngja undir borðhaldi og við dansinn, þó svo þeir tækju þátt í öðrum viðburðum í tengslum við hátíðarhöldin. Þórarinn Guðmundsson fékk það hlutverk að safna saman hópi hljóðfæraleikara og sjá um æfingar og útsetningar fyrir þetta tækifæri.

Sem einskonar æfingu fyrir konungskomuna hélt hópurinn, sem skipaður var 20 hljóðfæraleikurum, tónleika í Reykjavík í maímánuði 1921. Um sögulegan atburð var að ræða í íslenskum tónlistarmálum, þar sem þetta er í fyrsta skipti sem “hljómsveitar”-tónleikar voru haldnir hérlendis og hljómsveitin eingöngu skipuð íslenskum hljóðfæraleikurum. 24. maí skrifaði Árni Thorsteinson tónskáld og gagnrýnandi m.a. í Morgunblaðið í tilefni þessara tónleika:

Orchester-hljómleikar hr. Þórarins Guðmundssonar og hljóð færasveitar hans fóru fram í sal Nýja bíós síðastliðinn sunnudag. Salurinn var troðfullur af áheyrendum, sem launuðu hina góðu frammistöðu flokksins með dynjandi lófataki. Það var töluverður “orchesterhreimur” í hljómleikunum, enda gaf þarna í fyrsta sinn að líta innlendan flokk, þar sem hver maður sat við hljóðfæri sitt í “orchesterröð”, og þar sem gott innbyrðis hljóðfall milli hinna einstöku hljóðfærategunda var undirstaðan. (1)

Einnig segir í endurminningum Árna Thorsteinson:

22. maí [1921] eru nýstárlegir og athyglisverðir hljómleikar í Nýja bíó. Þar leikur 20 manna hljóðfæraasveit undir stjórn Þórarins Guðmundssonar…. Þetta voru fyrstu alvarlegu skrefin til myndunar á hljómsveit höfuðstaðarins. Þau voru seint stigin og auðvitað ófullkomin frá listrænu sjónarmiði, en mátt samt teljast góð byrjun ,framar öllum vonun. Þórarinn á heiðurinn fyrir að hafa byrjað með þessum 20 árhugamönnum, þótt aðrir tækju við síðar”. (2)

Viðfangsefnin voru ekki stór, ýmis erlend lög, marsar og danslög, sem skyldi nota í tengslum við veisluhöldin. Hljóðfæraskipan á tónleikunum var eftirfarandi: Píanó, harmonium, flautur, klarínettur, fagott, trompetar og strengjahljóðfæri. Það var með öðrum orðum notast við það sem til var. Hópurinn hélt áfram að koma saman eftir heimsókn konungs, og var Hljómsveit Reykjavíkur undir stjórn Þórarins Guðmundssonar formlega stofnuð 26. desember 1921 (3). Aðrir í stjórn voru Sigfús Einarsson ritari og Jón Laxdal gjaldkeri. Fyrstu opinberu tónleikar þessarar hljómsveitar voru annan jóladag 1921 og voru þá 23 hljóðfæraleikarar í hljómsveitinni.

1 Morgunblaðið: 24. maí 1921.
2 Ingólfur Kristjánsson: Harpa minninganna; bls. 403 – 404.
3 Sjá nánar: Ingólfur Kristjánsson: Strokið um strengi; endurminningar Þórarins Guðmundssonar bls. 212ff.

Hver sem titillinn varð á hljóðfærahópum þessara ára og síðar, var það sama fólkið sem lék, og kom það til vegna þess hve fáir hljóðfæraleikarar voru í Reykjavík. Samkvæm tónleikaskrá þeirri sem birtist í bókinni Harpa Minninganna lék þessi hljóðfæraflokkur undir stjórn Þórarins aðeins þrisvar sinnum (4). Í flestum tilfellum voru á ferðinni áhugamenn sem áttu þá ósk heitasta að fá að taka þátt í tónlistarstarfi. Að sjálfsögðu varð árangurinn eftir efninu og getunni. Þó svo leikur hópsins hafi fengið góða dóma í blöðum, þá vel ég að líta á þá dóma sem opinberlega hvatningu fyrst og fremst. Eflaust má segja, að miðað við það sem fyrir hendi var í Reykjavík þá hafi frammistaðan verið þokkalegt en ef tekið er mið af leik þeirrar hljómsveitar sem Jón Leifs kom með til Íslands nokkrum árum síðar, þá standist leikur þessara hópa ekki samanburð. Mikilvægast í þessum efnum var, að það var hljómsveit að spila. Það var að fæðast líf.

Hljómsveit undir sama heiti – Hljómsveit Reykjavíkur – kom svo fram stuttu síðar, undir stjórn Sigfúsar Einarssonar. Í þeirri “saloonhljómsveit” sem hann stofnaði fyrri hluta árs 1925, og verða skyldi í framtíðinni sinfóníuhljómsveit, voru hljóðfæraleikararnir að mestu þeir sömu og í hljómsveit Þórarins. Hljómsveitin sem Sigfús stjórnaði kom einnig fram undir nafninu Hljómsveit Reykjavíkur og hélt hún sína fyrstu tónleika í marsmánuði 1925. Mönnum þótti framtak hans það merkilegt að Morgunblaðið bað Sigfús að segja dálítið frá þessu í blaðaviðtali:

Hljómsveitirnar- Sinfoniuhljómsveitirnar – leggja langmestan skerfinn til sönglífs og söngmenningar annarra þjóða. Hér hefir engin hljóðfærasveit verið til, nema flokkur hr. Þórarins Guðmundssonar fiðluleikara um eitt skeið, og lúðraflokkur. Þess vegna er allt í molum hjá okkur – tilviljun ein hvort nokkur “konsert” er haldinn hér í bænum mánuðum saman. Söngflokkarnir svo dauðans þungir í vöfum. Undirbúningurinn svo langur, að flokkarnir geta ekki látið til sína heyra nema einu sinni eða tvisvar á vetri. Og viðfangsefnin eðlilega minni háttar. Ef ráðizt er í einhver stærri, þá vantar undirspilið. Slagharpa ein, með 30 – 50 manna kór, er vitanlega gjörsamlega ófullnægjandi – neyðarúrræði. Annars konar söngskemmtanir fátíðar. Hið eina sem getur bætt úr þessu ástandi er það, að upp rísi í bænum skynsamlega samsett hljóðfærasveit, skipuð öllum þeim innlendu hljóðfæraleikurum, sem eru lengst komnir, auk hinna útlendu hljóðfæraleikara, er hér starfa. Þetta er ráðið – eina ráðið. Viðfangsefnum okkar á þriðjudagskvöld ætla ég ekki að lýsa. Menn verða að heyra þau. Aðeins vil ég geta þess, að þetta er í fyrsta skipti, sem sinfónía er leikin af hljóðfærasveit á Íslandi – þessi mesti og merkilegasti háttur í allri hljóðfæralist. Og Sinfónía Schuberts er skínandi gull. (5)

Sigfús átti hér við H-moll sinfóníu Schuberts, sem síðar hefur oft verið flutt á Íslandi. Haustið 1925 var haldinn nýr stofnfundur Hljómsveitar Reykjavíkur og ný stjórn kosin. Jón Laxdal var kosinn formaður, Björn Jónsson gjaldkeri, Sigfús Einarsson ritari, og jafnframt hljómsveitarstjóri, og Sveinn Björnsson (sem síðar varð forseti Íslands). Sigfús og Jón sátu einnig í stjórn fyrri hljómsveitarinnar. Þessi nýja hljómsveit lék metnaðarfyllri verk og var miklu virkari í allri starfsemi sinni. Eitt sinn skipuðu hana 35 hljóðfæraleikara.

4 Tekið skal fram að þessi tónleikaskrá er byggð á tónleikaskrám þeim er til eru í Landsbókasafni. Ekki er víst að allar upplýsingar um tónleika hljómsveitarinnar hafi skilað sér þangað.
5 Sigrún Gísladóttir: Sigfús Einarsson Tónskáld, 1972, bls. 107-108.

Tónleikar voru haldnir í des. 1925 og á tónleikaskránni voru m.a. verk eftir Mozart, Haydn, Beethoven og Grieg. Í maí 1926 hélt hljómsveitin þrenna tónleika og svo eina tónleika á mánuði á haustmánuðum fram til desember. Taka skal fram að Þórarinn Guðmundsson tók virkan þátt í starsemi hljómsveitarinnar sem fiðluleikari. Hljómsveitin hélt marga tónleika undir stjórn Sigfúsar árið 1927, en árið 1928 lætur hann af stjórn því hann var ráðinn söngmálastjóri Alþingishátíðarinnar sem halda skyldi árið 1930. Í maímánuði árið 1928 hélt Hljómsveitin fund og samþykkti að ráða erlendan mann til að halda námskeið fyrir hljóðfæraleikarana. Ráðinn var tékkneskur prófessor, Jóhannes Velden að nafni og kom hann til Íslands haustið 1928. Páll Ísólfsson sá um hljómsveitarstjórn á tvennum tónleikum þar á milli. Velden stjórnaði nokkrum tónleikum og léku íslenskir hljóðfæraleikarar einleik eða íslenskir söngvarar sungu einsöng. Til stóð að Velden yrði aðeins einn mánuð á landinu, en hann ílentist allan veturinn og fram á vor 1929. Hljómsveitin hélt síðustu tónleika sína undir hans stjórn í marsmánuði 1929. Árið 1930 tók svo Franz Mixa við stjórn hljómsveitarinnar og sá hann um hana næstu árin.

Nú var fyrirsjáanlegt stórt verkefni fyrir tónlistarfólk í landinu – haldin skyldi Alþingishátíð í tilefni af 1000 ára afmæli alþingis Íslendinga, og hafði hátíðarnefndin gert sér í hugarlund að sönglist og hljóðfæraleikur myndi skipa stóran sess við hátíð þessa (sjá nánar síðar).

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is