Hljóðritanir og sala á hljómplötum

Ein elsta og virtasta hljómplötu- og hljóðfæraverslun á Íslandi var Fálkinn hf. Þetta fyrirtæki undir stjórn eiganda þess, Haraldar Ólafssonar, hafði umboð á Íslandi fyrir nokkur stærstu hljómplötufyrirtæki heims, svo sem His Masters Voice og Columbia. Í desember 1950 opnaði Fálkinn sérstaka deild með hljómplötum og gátu menn hlustað þar á plötur, bæði í hátölurum og í sérstökum heyrnartækjum. Þarna opnaðist nýr heimur fyrir tónlistaráhugamenn en möguleikar þeirra á að nálgast plötur höfðu verið nánast engir. Frá fyrsta degi voru hillur verslunarinnar fullar af hljómplötum. Þar mátti finna plötur með sígildri tónlist og annarri tónlist sem lengi hafði verið ófáanleg og þar að auki plötur með nýrri tónlist. Ásamt Ríkisútvarpinu gekkst Fálkinn fyrir því að gefa út hljómplötur með íslenskri tónlist, bæði einsöngvara og svo með hljómlistarmönnum. Einnig gaf Fálkinn út hljómplötur er teknar höfðu verið upp erlendis af His Masters Voice og Columbia.

Fyrstu hljómplötupptökur hér á landi voru gerðar árið 1930 og var það Fálkinn sem stóð fyrir upptökunni. Til landsins komu tveir verkfræðingar frá Columbia til að sinna verkinu sem var í tilefni Alþingishátíðarinnar sama ár. Þeir tóku með sér öll nauðsynlegustu tæki af nýjustu gerð, og fóru upptökurnar fram í íþrótta- og samkomuhúsinu Bárunni. Hljóðritaður var upplestur, söngur og hljóðfæraleikur á um 50 plötur og léku þar nokkrir þekktustu tónlistarmanna okkar frá þeim tíma. Þarna er um merkan viðburð að ræða og sá Fálkinn síðan um útgáfu á þessum upptökum. Meðal þess er hljóðritað var, voru nokkrir okkar helstu söngvarar og kórar, þar á meðal Karlakór K.F.U.M. og Landskórinn.

Ein af merkari hljómplötuútgáfum um miðja öldina er eflaust orgelleikur Páls Ísólfssonar þar sem hann leikur verk eftir Bach. Í tilefni sextugsafmælis hans árið 1953 fóru nokkrir vinir hans fram á við hann að hann færi til London og léki nokkur verka Bachs, inn á hljómplötur að eigin vali. Voru plöturnar, 6 að tölu, gefnar út í sérstöku bindi, í allt 400 eintök, númeruð og árituð af Páli sjálfum. Stutt greinargerð fylgdi hverri plötu og undirrituðu hana margir þjóðkunnir menn og þ.á,m. forseti Íslands, herra Ásgeir Ásgeirsson. Þetta voru 78 snúninga plötur, en þær voru síðan endurútgefnar á LP plötu árið 1957. Þetta mikilvæga starf á vegum Fálkans hélt áfram og geymir það sögu “lifandi” tónlistarflutnings í landinu. – verður Haraldi Ólafssyni forstjóra seint þakkað framlag sitt til tónlistarmála á Íslandi.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is