Hljóðfærtaleikarar (píanóleikarar, fiðluleikarar og cellóleikarar)

Á þessu tímabili koma fram með þjóðinni gáfaðir hljóðfæraleikarar, sem lært hafa utanlands. Haraldur Sigurðsson frá Kaldaðarnesi heldur fyrstu píanóhljómleika sína í Reykjavík árið 1912; hann á þá enn langt nám fyrir höndum. Listamannsferill hans verður síðan glæsilegur. Haraldur varð snemma píanókennari við Kgl. tónlistarskólann í Kaupmannahöfn, síðast með prófessors nafnbót. Eftir heimstyrjöldina fyrri skreppur hann stundum árlega til Íslands og heldur þá píanóhljómleika í Reykjavík, stundum með konu sinni, sem syngur milli píanólaganna. Þetta er list fyrir þá vandlátu. Jón Norðmann kom í fyrsta sinn fram sem píanóleikari á skemmtun í Bárunni vorið 1912. Tveimur árum síðar, sumarið 1914, heldur hann sína fyrstu sjálfstæðu hljómleika í Reykjavík, eftir nám við músíkháskólann í Berlín. Hann var mjög efnilegur píanóleikari, en dó ungur. Páll Ísólfsson er alinn upp í andrúmslofti kirkjusöngsins á Stokkseyri, fer ungur utan og lærir orgelleik hjá Straube í Leipzig. Hann kemur heim á sumrin, meðan hann er við nám, heldur orgelhljómleika í Dómkirkjunni, og að námi loknu, 1919, heldur hann næstum ár hvert orgelhljómleika út þetta tímabil, fyrst í Dómkirkjunni og síðan í Fríkirkjunni, eftir að vandað pípuorgel var komið á þá kirkju. Hann er orgelsnillingur og kynnir Reykvíkingum Bach og aðra gamla meistara, einnig Reger og Cecar Franck. Eftir að málaralistin og tónlistin höfðu togast á um Emil Thoroddsen, sigrar tónlistin. Hann heldur fyrstu píanótónleika sína í Reykjavík 1922, eftir nám í Þýzkalandi, og marga eftir það. Hann er sá píanóleikarinn, sem mest kveður að á þessum árum, bæði sem einleikari og undirleikari. Á þessum árum var hann jafnan kallaður píanóleikari, en brátt kom að því, að tónskáldanafnið festist við hann. Markús Kristjánsson heldur fyrstu píanóhljómleika sína í Reykjavík árið 1927, eftir nám í Kaupmannahöfn og Leipzig, og fer vel af stað. Hann heldur aftur hljómleika um haustið árið eftir, eftir framhaldsnám í Berlín, en naut sín ekki, því þá hafði hann tekið þann sjúkdóm, sem lagði hann í gröfina þremur árum síðar. Hann var gott tónskáld, eins og Emil, og eins og hann einn af mest notuðu undirleikurum við söng á þessum árum. Árni Kristjánsson heldur fyrstu píanóhljómleika sína í Reykjavík í Gamla Bíó árið 1929, þá í samvinnu við Kristján Kristjánsson söngvara, sem þá var einnig nýr maður á listsviðinu. Árni átti þá langt nám að baki sér í Berlín og Kaupmannahöfn. Hann á eftir að halda marga píanóhljómleika í Reykjavík. Hann er einn bezti tónlistarmaður þjóðarinnar.

Þá skal minnst á kven-píanóleikara í Reykjavík á þessu tímabili. Áður hefur verið rætt um Herdísi Matthíasdóttur, sem lék opinberlega á árunum um og eftir 1910. Annie Leifs, kona Jóns Leifs, er íslenzkur ríkisborgari og því talin hér með. Hún er snjall píanóleikari. Hún lærði hjá Teichmüller í tónlistarskólanum í Leipzig og kynntist þá Jóni, sem einnig var nemandi hans. Þau hjón héldu píanóhljómleika í Reykjavík sumarið 1921og um haustið hélt Annie ein hljómleika í Nýja Bíó. Árið 1925 héldu þau enn hljómleika í Reykjavík og voru þá m.a. leikin íslenzk þjóðlög, raddsett af Jóni, og frumsamin lög eftir hann. Um sumarið 1926 kom Jón með Hamborgarfílharmoníska orkestrið til Reykjavíkur, sem er ein af frægustu hljómsveitum í Evrópu, og stjórnaði henni sjálfur. Þá heyrðist í fyrsta sinn á Íslandi fullkominn hljómsveitarleikur. Annie lék þá með hljómsveitinni píanókonsert eftir Mozart og gerði það afbragðsvel. Annie Leifs er frá Teplitz í Bæheimi. Faðir hennar, Riethof, var auðugur verksmiðjueigandi. Hann var gyðingur og varð fjölskyldan illa fyrir barðinu á nazismanum. Þau hjón, Jón og Annie, skildu, en Annie hefur búið hér í Reykjavík og kennt píanóleik.

Anna Pjeturss, dóttir vísindamannsins dr. Helga Pjeturss, hélt píanóhljómleika í Nýja Bíó 2. júní 1927, eftir nám í kgl. tónlistarskólanum í Kaupmannahöfn hjá Haraldi Sigurðssyni. Hún lærði síðar hjá Teichmüller í Leipzig og prófessor Riera í París, en Harald taldi hún sinn aðalkennara. Anna hélt ekki sjálfstæða píanóhljómleika eftir það, en lék oft undir hjá söngvurum og kórum. Margra ára vanheilsa og aðrir erfiðleikar komu í veg fyrir, að þessi gáfaða listakona fengi að njóta sín sem píanóleikari. Amma hennar var Anna Pjetursson, sem fólkið kallaði frú Petersen, því það þótti fínna að snúa öllu upp á dönsku, kenndi píanóleik í Reykjavík í meira en hálfa öld og leiddi marga fyrstu sporin. Hún hafði lært hjá landshöfðingjafrú Olufu Finsen og einnig í Kaupmannahöfn.

Fiðluleikarar í Reykjavík á þessu tímabili eru atvinnuspilarar. Þeir leika á veitingahúsum og í kvikmyndahúsum, en taka jafnframt þátt í opinberu hljómleikahaldi, stundum með sjálfstæða hljómleika. Flestir eru þeir útlendingar, eins og Oscar Johansen og Bernburg, sem báðir léku á Hótel Ísland. Íslenzkir fiðluleikarar á þessu tímabili eru aðeins þrír: Eymundur Einarsson, Theódór Árnason og Þórarinn Guðmundsson. Það kveður mest af Þórarni af þessum mönnum og er hann aðal fiðluleikarinn í Reykjavík á þessum árum. Einn cellóleikara hafði þjóðin eignast, Þórhall Árnason.

Þórarinn Guðmundsson lærði fiðluleik hjá Anton Svendsen í Kgl. tónlistarskólanum í Kaupmannahöfn og útskrifaðist úr þeim skóla 17 ára gamall með bezta vitnisburði. Síðan stundaði hann framhaldsnám í eitt ár hjá fiðlumeistaranum Peder Möller. Eftir að hann var kominn heim frá Höfn lék hann árum saman í veitingasölum Rosenbergs og einnig undir kvikmyndum í Nýja Bíó, 1920-30, meðan þöglu myndirnar voru sýndar. Hann vann á þessum árum merkilegt brautryðjandastarf með opinberum hljómleikum og kennslu í fiðluleik. Á þessum árum sóttu menn kaffihúsin fyrst og fremst til þess að hlusta á músíkina, þótt kaffisopinn skipti ávallt nokkru mál. Þetta var veitingamönnunum ljóst og vönduðu þeir sem bezt til hljóðfæraleiksins og réðu oft útlenda listamenn, stundum mjög góða. Það var einmitt á þessum árum, að útlendingur gat þess í bók um Ísland, að Reykvíkingar gerði kaffihúsin að musterum, þar sem músíkgyðjan væri tilbeðin. En um 1930 verður á þessu breyting, dansinn með tilheyrandi jazzmúsík tekur við, og unga fólkið setur sinn svip á lífið þar inni á kvöldin. Músíkgyðjan er ekki lengur tilbeðin, heldur Venus og Bacchus.

Eggert Gilfer var píanóundirleikarinn hjá Þórarni bróður sínum. Hann lærði í Kaupmannahöfn að leika á orgel og píanó. Þeir bræður héldu saman opinbera hljómleika í Reykjavík, m.a. í Dómkirkjunni, og lék þá Eggert orgelverk eftir Bach og aðra meistara, en Þórarinn lék fiðluverk með orgelundirleik Eggerts. Eins og kunnugt er, vann Eggert sér frægð sem skákmeistari.

Eymundur Einarsson fiðluleikari lék um tíma á Hótel Skjaldbreið. Eftir fjögurra ára nám í Danmörku og Þýzkalandi hélt hann hljómleika í Nýja Bíó um sumarið 1924 og lék þá fiðlukonsert Mendelssohns og aðrar frægar tónsmíðar. Hann var þá orðinn góður fiðluleikari og fékk góða blaðadóma. Hann fór síðan til Danmerkur og hefur búið þar síðan.

Theódór Árnason fiðluleikari hélt við og við hljómleika í Reykjavík, m.a. í Bárunni um páskana 1917 með aðstoð Valborgar Einarsson, og á sama stað sumarið 1920 með aðstoð Markúsar Kristjánssonar. Ennfremur í Nýja Bíó í desember 1929 með aðstoð Emils Thoroddsens og lék þá m.a. tvö fiðlulög, eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson, „Vögguvísu“ og „Humoresque“. Theodór þýddi „Æsku Mozarts“ og samdi „Tónlistarþætti I“, sem innheldur ævisögur 35 erlendra tónskálda og tónlistarmanna.

Þórhallur Árnason er fyrsti Íslendingurinn, sem leggur fyrir sig cellóleik. Hann lærði hjá Emíl Leichsenring í Hamborg. Um vorið 1925 kom hann til Reykjavíkur með ungum vini sínum, píanóleikaranum Otto Stöterau frá Hamborg. Þeir héldu þá saman hljómleika í Nýja Bíó og léku til skiptis sóló á píanóið og cellóið. Þeim var báðum vel tekið. Þórhallur var þá orðinn dugandi cellóleikari og hefur síðan verið góður kraftur í tónlistarlífi Reykjavíkur. Hann hélt hér kveðjuhljómleika árið 1930. Síðan kom hann aftur og leikur nú í Sinfóníuhljómsveitinni. Otto Stöterau er nú prófessor í Hamborg og einn af leiðandi mönnum í músíklífi borgarinnar. Hann er ágætur píanóleikari og mikill Íslandsvinur. Hefur heimsótt Ísland nokkrum sinnum. Á hann verður nánar minnst síðar.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is