Helgi Helgason tónskáld (1848 – 1922)

Í söngsögunni er Helga Helgasonar minnst sem tónskálds og fyrsta brautryðjanda lúðrasveita hér á landi. Séð hefi ég í handritum um 100 sönglög eftir hann hjá Soffíu Jacobsen kaupkonu, dóttur hans. Meiri hlutinn er enn óprentaður, en telja má víst, að Helgi hafi valið beztu lögin í sönglagaútgáfur sínar. Afköstin eru ólíkt meiri í sönglögum hjá Helga en Jónasi bróður hans, enda var það skoðun Helga og sannfæring, að Íslendingar ættu að semja lög við kvæði skáldanna, og því sagði hann eitt sinn við Jónas bróður sinn, er Jónas var að gefa út sönglagahefti sín: „Það á ekki að setja útlend lög við íslenzk kvæði: við eigum að semja lögin sjálfir. Ekki veit ég hverju Jónas hefur svarað, en hann hélt ótrauður áfram að setja útlend lög við íslenzk kvæði, enda ekki um annað að gera, meðan góð íslenzk sönglög voru enn ósamin.

Helgi Helgason er fæddur í Reykjavík, 23. janúar 1848. Hann er næstum 9 árum yngri en Jónas bróðir hans. Helgi ólst upp hjá foreldrum sínum í Reykjavík, lærði trésmíði hjá föður sínum og fékk sveinsbréf 21, marz 1867, þá orðinn 19 ára. Árið 1870 kvæntist Helgi Guðrúnu Sigurðardóttur frá Þerney í Kjalarnesþingi. Hann var þá orðinn 22 ára gamall. Fimm árum síðar fékk hann borgarabréf sem trésmiður.

Helgi lagði margt á gjörva hönd. Af íbúðarhúsum í Reykjavík, sem hann smíðaði, skal nefna Kvennaskólann gamla við Austurvöll, sem nú er eign Sjálfstæðisflokksins; Amtmannshúsið við Ingólfsstræti, þar sem Félagsbókbandið er nú til húsa; verzlunarhús það, sem hann reisti á lóðinni nr. 2 við Pósthússtræti, sem skrifstofuhús Eimskipafélags Íslands h.f. stendur á; í þessu húsi rak Helgi um tíma verzlun, en síðar var þar afgreiðsluhús Sameinaða gufuskipafélagsins, þar til það hús var flutt í Tryggvagötu, er Eimskipafélag Íslands h. f. hafði eignast lóðina. Ennfremur smíðaði Helgi brýr yfir ár á Suðurlandi. Jafnframt verzluninni rak Helgi þilskipaútgerð og smíðaði skipin sjálfur. Stærsta skipið var 30 smálestir. Ýmis önnur störf hafði hann á hendi, var lengi slökkviliðsstjóri, sat í byggingarnefnd og niðurjöfnunarnefnd. Ennfremur var hann meðhjálpari dómkirkjunnar.

Helgi var með allra nýtustu borgurum bæjarins, mikill athafnamaður og mikill kraftur í bæjarmálum og báru verk hans dugnaði hans og stórhug vitni. Konungur sæmdi hann heiðursmerki dannebrogsmanna 1894.

„En svo hafði söngdísin vafið hann örmum sínum, að ekki mátti hann laus verða.“ (Sunnanfari 1898). Tónlistin stóð hjarta hans næst og ást hans á henni kom snemma í ljós. Þegar efnin voru ekki til að kaupa fiðlu, þá smíðaði hann sér fiðlu sjálfur – þá var hann enn á fermingaraldri. Hann fór þá að leika lög á fiðluna og einnig að semja lög. Hann var ekki nema 14 ára gamall, þegar hann samdi lag við „Vorið góða, grænt og hlýtt.“

Helgi var lengi formaður söngfélagsins Hörpu, en Jónas, bróðir hans, var söngstjórinn. „Voru það glaðir dagar og söngáhugi allmikill í ungum mönnum í Reykjavík.“ (Sunnanfari 1898). Eftir konungskomuna 1874 vaknaði hjá Helga löngun til að stofna hornaflokk, eftir að hafa heyrt lúðrasveit konungs leika í Reykjavík og á Þingvöllum. Hann fór þá til Kaupmannahafnar árið eftir (1875) og lærði að blása í lúðra hjá Balduin Dahl, hljómsveitarstjóra í Tivoli. Balduin Dahl (1834-91) var frá blautu barnsbeini þaulkunnugur blásturshljóðfærum; hann varð eftirmaður „gamla Lumbys“ í Tivoli árið 1872. Helgi mun fyrstur Íslendinga hafa lært þetta, að því er bezt vitað. Helgi hafði frá barnsaldri iðkað fiðluleik og þennan vetur í Kaupmannahöfn lærði hann þá list hjá nafnkunnum kennara, O. Paulsen.

Eftir að hann var kominn heim stofnaði hann Lúðraþeytarafélag Reykjavíkur 26. marz 1876. Félag þetta starfaði í 28 ár undir hans stjórn og er það fyrsta félag í sinni grein hér á landi. Samskonar félög voru síðan stofnuð úti um land, og höfðu forgöngumenn þeirra notið tilsagnar Helga. Þegar Helgi fluttizt til Vesturheims 1902, varð Eiríkur Bjarnason járnsmiður, tengdasonur hans, formaður félagsins og stjórnandi lúðraflokksins. Félagið nefndist síðar Lúðrafélag Reykjavíkur og er reyndar sama félagið og Lúðrasveit Reykjavíkur, sem nú starfar og er í fullu fjöri. Þetta er því elzta tónlistarfélag á landinu. Stofnun Lúðraþeytarafélags Reykjavíkur er merkur söngsögulegur viðburður, sem ávallt verður minnst.

Helgi fór enn utan 1880 og lærði um veturinn tónfræði hjá Peter Rasmussen (1838-1913), organista við Garnisonskirkjuna í Kaupmannahöfn og tónfræðikennara. Upp frá því fer Helgi að gefa sig við sönglagasmíði fyrir alvöru, en hafði þó fengist við það áður. Enn fer Helgi til Kaupmannahafnar 1883 og lærir þá orgel- og harmoníumsmíði. Sama ár fékk hann heiðurspening úr silfri frá iðnsýningunni í Reykjavík fyrir hið fyrsta harmonium, er hann hafði smíðað. Frá sömu sýningu fékk hann einnig heiðursskjal fyrir uppdrætti af húsum.

Verzlun og útgerð Helga bar sig ekki – hann byrjaði að verzla 1889 – og venti hann þá sínu kvæði í kross og fór til Vesturheims. Þetta var árið 1902. Hann nam fyrst þar land, en hvarf frá því litlu síðar og settist að í bænum Wynyard, kom þar upp lúðraflokki og smíðaði meðal annars pípuorgel í kirkju Íslendinga þar í bænum.

„Römm er sú taug“ o. s. frv. Helgi kom aftur heim til Íslands árið 1914. Eftir stutta dvöl í Reykjavík, settist hann að í Hafnarfirði og smíðar pípuorgel í Fríkirkjuna þar. Að tveimur árum liðnum flyzt hann til Vestmannaeyja og stofnar þar lúðrasveit. Vestmannaeyingar heiðruðu Helga sjötugan; héldu honum þá samsæti og færðu honum álitlega peningagjöf, sem kom sér vel, því þá var róðurinn þungur hjá hinu aldraða tónskáldi. Á undan samsætinu var haldinn opinber söngskemmtun, þar sem sungin vöru sönglög eftir Helga. Helgi andaðist í Reykjavík 14. desember 1922, þá orðinn 75 ára og ellefu mánuðum betur. Hann hafði síðast verið í Reykjavík í skjóli ættingja sinna.

Reykjavíkurblöðin minntust á andlát hans og að jarðarförin hafi farið fram, en á tónskáldið og brautryðjandastarf þess á músíksviðinu höfðu þau ekkert að segja. Á þetta minnist Árni Thorsteinson í söngsögu sinni og segir síðan: „En lög Helga munu lifa, óbrotin og eðlileg, svo sem þau öll eru, með þjóð vorri, svo lengi sem nokkur Íslendingur getur sungið.“

Sönglagaútgáfur Helga Helgasonar eru þessar: Íslenzk sönglög, Rvík. 1892, Fjallkonusöngvar, Rvík. 1914 og Íslenzk sönglög fyrir blandaðar raddir, Rvík. 1918. Þar að auki komu út einstök sönglög eftir hann sérprentuð, þ.á.m. Gunnarhólmi.

Sönglög Helga hafa náð miklum vinsældum meðal almennings og hafa verið tekin upp í íslenzk söngvasöfn og einnig í skólasöngbækur. Hér eru mest eru sungin: „Buldi við brestur“, „Eyjafjörður“, „Nú er glatt í hverjum hól“, „Raddir heyri ég ótal óma“, „Svífðu nú sæta söngsins englamál“,„Víðbláins veldi“, „Yfir fornum frægðarströndum“, „Þá sönglist ég heyri“, „Þið þekki fold með blíðri brá“, „Þrútið var loft“ og „Öxar við ána.“

Friðrik Bjarnason tónskáld þekkti Helga og lýsir manninum þannig: „Helgi gamli var maður ræðinn og viðkynningargóður, enda prúðmenni í framgöngu, og varð honum því gott til vina, enda þurfti hann oft á því að halda, einkum hin síðari árin. Því að ævibrautin var oft ógreið, og honum, gamalmenninu, þungfær. Síðustu mánuðina, sem hann lifði, var hann hjá ættingjum sínum í Reykjavík, og sáu þeir um útförina. Vinir hans úr lúðrafélögunum mættu við jarðarförina.“ Friðrik Bjarnason endar grein sína um Helga með þessum orðum: „Hann Helgi gamli er nú fallinn í valinn, en verkin hans 1ifa. (Heimir, söngmálablað, 1923). Meðal barna Helga og Guðrúnar konu hans er tónskáldið Sigurður Helgason í Vesturheimi, sem samdi hið ágæta sönglag „Skín við sólu Skagafjörður.“ Hann hét fullu nafni Helgi Sigurður, og fyrir vestan kenndi hann sig gjarnan við Þingholt, enda fæddur í Þingholtsstræti 11 hér í Reykjavík 12, febrúar 1872. Hann ólst upp í foreldrahúsum til 18 ára aldurs, en fluttizt þá vestur um haf og settist að í Winnipeg. Síðar fluttizt hann til Kyrrahafsstrandarinnar og bjó fyrst í Seattle og síðar í Los Angeles í Caleforníu, en allmörg síðustu árin í Blaine í Washingtonríki þar sem hann hafði kennaraleyfi og kenndi söng, bæði einstaklingum og söngfélögum, auk þess sem hann sjálfur lék í hornaflokkum og hljómsveitum. Hann andaðist í hárri elli fyrir nokkrum árum.

Sigurður Helgason er gott tónskáld og samdi allmörg sönglög, flest við íslenzka texta. Lagið „Skín við sólu Skagafjörður“ mun lengi halda nafni hans á lofti.

Að lokum eru hér ummæli hins góðkunna Reykvíkings, Geirs Sigurðssonar skipstjóra, um skipasmiðinn og lagasmiðinn Helga Helgason: „Seinna var ég hjá Helga Helgasyni, tónskáldinu okkar. Það var bezti maður. Hann smíðaði hús og byggði skip. Ég man eftir þrem skipum, sem hann byggði, fyrst Stíganda, svo Guðrúnu og svo Elínu, sem var kölluð í höfuðið á landshöfðingjafrúnni. Þetta voru 17-30 tonna skip. Þótti það mikið í þá daga, og var flösku hent í stefnið, Þegar skipin skriðu á flot. Það var siðurinn. Helgi smíðaði líka orgel eða píanó, sem þótti ákaflega mikið listaverk, og samdi mörg ágætislög, m. a. „Öxar við ána“ og „Hanablessunina.“ Hvað segir þú? Ég sagði þetta svona „prívat“ í spaugi. Þú manst eftir laginu „Þið þekkið fold með blíðri brá“ (Geir raular lagið), og svo kemur drúpi hana blessun o. s. frv. Af því fékk lagið nafn.

Svo var það einu sinni, að Helgi var að leggja skífur á barnaskólann, sem þá var, seinna símstöð og nú lögreglustöð, að ein skífan hraut úr hendi hans og datt niður á götuna. Þegar hann heyrði brothljóðið, datt honum í hug: „Buldi við brestur og brotnaði þekjan.“ Hann tók nagla og skífu og rissaði upp lagið, svo að hann skyldi ekki gleyma því“ (Morgunblaðið, 8.sept.1943).

Þetta segir Geir skipstjóri á sinn skemmtilega máta um þessi sönglög.En sagan um „Hanablessunina“ þarfnast nánari skýringar. Tónskáldið flaskaði á því að hafa sterkan takthluta og einn hæðarpunktinn í laginu á áherzlulausa orðinu „hana“ í textanum ( fyrra atkvæði orðsins ), en hinsvegar veikan takthluta á áherzluorðinu „drúpi“ . Lagið var því stundum í gamni kallað „Hanablessunin“. Í sönglagaútgáfu sinni frá 1928 hefur Helgi breytt laginu á þessum stað og haft áherzlunnar réttar. En lagið sem lag mun þó mörgum þykja fallegra í sinni upprunalegu mynd og birtir Björgvin Guðmundsson lagið þannig í Söngvasafni L. B. K., 1, hefti, 1948, nr. 46.

Nú heyrist oftast lag Gretrys við þetta kvæði sungið, enda er það í söngvasöfnum okkar. Lag Helga verðskuldar sannarlega, að þjóðin syngi það, því að það er gott lag. Hér áður fyrri kunni hvert mannsbarn í landinu lagið hans Helga; „Þið þekkið fold með blíðri brá.“

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is