Heimildagerð Q – Erlendar nótur

Þær erlendu nótur sem ég nefni í heimildalistanum hafa gegnt höfuðhlutverki í ákvörðun um áhrif á tónlist Magnúsar Blöndal Jóhannssonar og eru í því samhengi mjög mikilvæg heimild.

* * *

Þó svo þessi listi virðist langur gæti hann í rauninni hafa verið miklu lengri. Ég hef farið í gegnum “heilt bílhlass” af gömlum bréfum frá Tónskáldafélaginu og STEFi ásamt fjölda bréfa frá tónlistardeild Ríkisútvarpsins. Einnig hef ég farið yfir fjölda bréfa og skjala í Menntamálaráðuneytinu. Sem dæmi um bréf hef ég lesið yfir mörg hundruð handskrifuð bréf frá Jóni Leifs frá tíma hans sem formanns Tónskáldafélagsins. En öll þessi bréf eru uppköst að vélrituðum bréfum eða bréfum sem birtast sem viðtöl (v) í dagblöðum. Þessi bréf fann ég í bílskúrskjallara húsnæðis Tónskáldafélagsins. Ég setti þau í öskjur og nú eru þau varðveitt í Handritadeild Landsbókasafns í Þjóðarbókhlöðu.

v ) Jón Leifsskrifaði flest viðtöl við sig, sem birtust í íslenskum dagblöðum, sjálfur.

Sérstakur viðauki um Magnús Blöndal Jóhannsson inniheldur lista yfir 117 segulbönd og allt annað skriflegt efni.

 

* * *

Fyrstu heimildir um söngkennslu á Íslandi eru um þá kennslu í söng og söngfræði sem fór fram í skóla þeim er Jón biskup helgi Ögmundsson stofnaði á Hólum í Hjaltadal árið 1107. Þangað var ráðinn söngkennari frá Frakklandi að nafni Richini og kenndi hann þar “sönglist og versgerð”.

Næstu kaflaskipti í íslenskri tónlistarsögu, sem eru einskonar inngangur að þeim tímamótum er urðu árið 1930, eru svo ekki fyrr en árið 1840, er orgel kom í Dómkirkjuna í Reykjavík. Um svipað leyti kom Pétur Guðjónsson organleikari til starfa á Íslandi. Með tilkomu þessa hljóðfæris, og svo starfi Péturs, skapast nýtt hugtak í íslenskri tónlistarsögu; “hinn nýi söngur”. Þar er átt við að gömlu íslensku sönglögin eru stílfærð eftir dúr og moll kerfinu, og tilkoma nýrra laga sem bárust til landsins, aðallega frá Danmörku. Þessi þróun, frá 1840 fram undir 1930, var hægfara en stígandi. Íslensk tónlistarhefð þróast smám saman í þá átt er þekktist í Evrópu á þeim tíma; ungir og efnilegir menn fóru til útlanda til tónlistarnáms og náðu sumir þeirra góðum árangri sem tónlistarmenn.

Hér skal nefna tvo menn, sem í upphafi voru einna mest áberandi og gáfu íslensku tónlistarlífi á okkar öld þann kraft sem til þurfti, til að hefja það til flugs og í átt til nútíðar. Það voru þeir Sigfús Einarsson (1877-39) og Páll Ísólfsson (1893-74). Báðir höfðu þeir sótt menntun til útlanda, Sigfús í Danmörku og Páll í Þýskalandi, og báðir voru fullir þeirrar lífsorku sem þurfti til að koma hlutunum í gang. Til að byrja með fór stór hluti starfa þeirra fram í sjálfboðavinnu, en það tók samfélagið töluverðan tíma að átta sig á því að það að iðka tónlist gat verið “vinna”. Sigfús kom heim frá námi í Kaupmannahöfn vorið 1906 ásamt konu sinni, Valborgu Hellemann píanóleikara, og áttu þau hjónin eftir að vera íslenskri sönglist mikil lyftistöng með störfum sínum allt fram til andláts Sigfúsar árið 1939. Páll Ísólfsson flutti heim alkominn árið 1921 og átti næstu 50 árin eftir að vera virkur þátttakandi í nánast öllu tónlistarlífi í landinu.

Ég vil í þessum fyrsta kafla rekja þróun helstu mála sem viðkomu uppbyggingu tónlistarlífsins á árunum 1920-60. Það má segja að í kringum 1960 hafi flestar þær stofnanir verið komnar á laggirnar sem þurftu að vera fyrir hendi í nútímalegu menningarsamfélagi til að tónlistarmálin gætu þróast á eðlilegan hátt. Um það leyti urðu einnig ákveðin kynslóðaskipti meðal tónlistarfólks, ungir menn komu inn í tónlistarlífið með ný viðhorf og markmið í tónlist. Modernisminn í tónlist kemur af fullu afli inn í íslenskt tónlistarlíf. Fram að þeim tíma eru sett á laggirnar ýmis þjóðþrifamál eins og Hljómsveit Reykjavíkur, Ríkisútvarpið, Tónlistarskólinn í Reykjavík, Tónlistarfélagið, Félag íslenskra Hljómlistarmanna, Tónskáldafélag íslands, STEF, Þjóðleikhúsið, Háskólabíó og aðrar minni stofnanir. Mun ég nú rekja upphaf og þróun þeirra mála fram til um 1960, en inn í hana fléttast ýmis mál eins og minni samspilshópar, einstakir tónlistarmenn og viðburðir, baráttumál um réttindi, barátta við fordóma og völd, og einnig mun ég fjalla um ýmis ágreiningsmál sem upp komu meðal tónlistarfólks fram að þeim tíma. Frekar er um yfirlit að ræða en mjög nákvæma lýsingu á þróun þessara mála, m.a. vegna þess hve það hefur verið mjög tímafrekt að afla frumheimilda í ýmsum málum, bæði vegna þess hve dreifðar þær eru og hreinlega að finna hvar þær eru.

Í þessum næstu köflum mun ég styðjast við þær heimildir sem ég hef fundið og vona ég að mér takist að skapa heildstæða mynd af þeirri þróun sem varð á þessum árum. Ætlun mín er að gefa yfirlit yfir hvernig lítilli, einangraðri þjóð norður í Atlantshafi tekst á fáum árum að lyfta Grettistaki í tónlistarlífi sínu, frá því að vera með einföldum þorpsbrag upp í stórborgarbrag á alþjóðlegum mælikvarða.

Ef fram kemur spurning í þá átt hvernig ég hef fundið allt þetta efni og hvernig mér tókst að fara í gegnum það, þá verður svarið: – Ég veit það ekki og ég skil það ekki, en ég hef þó gert það. Hin íslenska sumarnótt er svo björt að maður getur “tínt lús úr fötum sínum um miðnætti” (vi). Ég hef ekki alltaf farið snemma í háttinn.

vi) Þessa tilvitnun má finna í bók írsks munks fyrir landnámstíð íslands, þar sem hann lýsir eyjunni í norðri.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is