Heimildagerð C – Tímarit

Í íslensku tónlistarlífi hefur ekki tekist að gefa út eigið tónlistartímarit, og tilraunir í þá áttina hafa varað stutt eða fáein ár. Síðasta tilraun sem gerð hefur verið er um það bil 50 ára gömul, þ.e. tímaritið Tónlistin sem kom út á árunum 1942-47. Ástæða þessa er m.a. skortur bæði á menntun í tónvísindum á Íslandi og einnig á stofnun sem staðið gæti að baki útgáfu slíkra tímarita.

Til að „leysa“ þetta vandamál hafa menn í einstökum tilfellum fengið inni með greinar sínar í öðrum menningartímaritum eins og Andvara og Birtingi. Í tímaritinu Helgafell frá 6. áratugnum má finna nokkrar greinar um menningarlífið í heild sinni og þar með tónlistarlífið. Við lestur þessara greina þarf maður að gera sér grein fyrir stöðu Helgafells og eiganda þess, Ragnars Jónssonar í tónlistarlífinu. Tímaritið endurspeglaði, hvað tónlistarlífið varðar, sjónarmið Tónlistarfélagsins og tónlistarlífið og stofnanir þess. Gott dæmi um þetta er sú kúvending sem varð á meðhöndlun á stöðu Viktors Urbancic sem hljómsveitarstjóra eftir að hann var ráðinn sem hljómsveitarstjóri við Þjóðleikhúsið. Urbancic hafði starfað sem stjórnandi Hljómsveitar Reykjavíkur og Kórs Tónlistarfélagsins í fjölda ára. Hann hafði stjórnað ýmsum tónleikum á vegum félagsins og fengið miklar þakkir fyrir framtak sitt, sökum mikillar þekkingar og hæfileika. En um leið og hann var ekki lengur „maður Tónlistarfélagsins“ þegar hann þáði stöðu hljómsveitarstjóra við Þjóðleikhúsið og hreyfði þar með við valdajafnvæginu í tónlistarlífinu í Reykjavík, kom annað hljóð frá formanni Tónlistarfélagsins, Ragnari Jónssyni – á margan hátt „eiganda“ menningarlífsins – í garð Urbancic. Því skal þessi heimild skoðast út frá því.

Ég hef jafnframt stuðst við nokkrar greinar frá öðrum norrænum tónlistartímaritum eins og hinu danska Dansk Musiktidsskrift og hinu sænska Nutida Musik. Dansk Musiktidsskrift hef ég í aðalatriðum notað til að finna upplýsingar um sameiginlega norræna tónleika, þar sem Ísland hefur verið þátttakandi og Nutida Musik hef ég í aðalatriðum notað sem heimild í tengslum við þau vandamál sem upp komu við ISCM hátíðina á Íslandi árið 1973.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is