Hátíðarljóðin

Haustið 1927 lá fyrir frumvarp til auglýsingar um hátíðarljóð fyrir Alþingishátíðina og hljóðaði það svo:

Einn þáttur hátíðarhaldanna á Þingvöllum 1930 á að vera söngur og flutningur hátíðarljóða (kantötu), er ort sé til minningar um 1000 ára afmæli Alþingis. Nú er skorað á þau íslenzku skáld, er freista vilja að yrkja slík ljóð, að senda þau til hátíðarnefndarinnar fyrir 1. nóvember 1928. Svo er til ætlazt, að íslenzkum tónskáldum verði síðan boðið að semja lög við þann ljóðaflokk, sem beztur verður dæmdur. Því verður m.a. lögð áherzla á, að ljóðin séu sönghæf, auðvitað að undan skildum framsagnarþætti (recitativ). Að öðru leyti verður hver höfundur að vera sjálfráður um lengd og skipan ljóðanna. Kvæðin skulu send vélrituð og nafnlaus, en merkt einkunn. Nafn höfundar skal fylgja í lokuðu umslagi, er merkt sé sömu einkunn og kvæðið. Fyrir þann ljóðaflokk, er kosinn verður til söngs við aðalhátíðina, verða greidd 2000 króna verðlaun, en 500 og 300 kr. fyrir tvo flokkana, sem næst þykja komast, enda ráði hátíðarnefndin yfir öllum hinum verðlaunuðu flokkum fram yfir hátíðina til söngs, flutnings og prentunar, og er höfundunum sjálfum ekki heimilt að birta þá fyrr en hún er um garð gengin. (16)

116 Alþingishátíðin 1930 bls. 33.

Ekki virtist skáldaandinn birtast einu íslensku skáldi fremur en öðru á þessu eina ári sem þau fengu til að yrkja ljóðin. Dómnefndin taldi engan ljóðaflokk bera af, en valdi að lokum þrjá. Þeir voru eftir Einar Benediktsson, Davíð Stefánsson og Jóhannes úr Kötlum. Að loknum viðræðum við skáldin um lítilsháttar breytingar á ljóðunum varð niðurstaðan sú að Davíð Stefánsson fékk fyrstu verðlaun fyrir sín ljóð og einnig Einar Benediktsson þó svo ljóð hans yrði ekki flutt á hátíðinni. Jóhannes úr Kötlum hlaut því önnur verðlaun (sjá einnig um þátttöku hans í gerð hátíðarljóða í kaflanaum um Lýðveldishátíðina 1944).

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is