Hátíðarkvæði

Vegna þess að mörg fegurstu ljóð íslenskrar tungu hafa verið ort í tengslum við ákveðna atburði í sögu og frelsisbaráttu þjóðarinnar, þótti þjóðhátíðarnefnd sjálfsagt, að hvetja íslensk skáld til að semja “alþýðlegt og örvandi ljóð, er gæti orðið frelsissöngur Íslendinga”. Alls bárust dómnefnd þjóðhátíðarnefndar kvæði frá 104 skáldum. Í henni sátu Alexander Jóhannesson, Símon Jóhann Ágústsson og Þorkell Jóhannesson. Dómnefndin lauk störfum og sendi hún þá frá sér eftirfarandi álit. (60)
Til Þjóðhátíðarnefndar lýðveldisstofnunar á Íslandi:

Við undirritaðir, er Þjóðhátíðarnefnd fól að dæma um ættjarðarkvæði þau, er berast kynnu, höfum við nú lokið störfum. Alls bárust 104 kvæði, og komu sum þeirra eftir tilsettan tíma, en oss fanst ekki ástæða til að hafna þeim af þeirri ástæðu, og höfum vér því dæmt um öll kvæðin. Það er álit vort, að ekkert eitt kvæði skari fram úr öllum öðrum, eða fullnægi allskostar þeim kröfum, sem Þjóðhátíðarnefnd virðist hafa sett. Hinsvegar hafa mörg falleg kvæði borizt, og er það samróma álit vort, að tvö þeirra beri af hinum, og leggjum vér því til, að verðlaununum, sem heitið var, sé skipt jafnt á milli þeirra. Kvæði þessi nefnast: “Söngvar helgaðir Þjóðhátíðardegi Íslands 17. júní 1944”, merkt smára blað, og reyndist höfundur vera Unnur Benediksdóttir Bjarklind (Hulda) og “Íslendingaljóð 17. júní 1944”, merkt I.D., og reyndist höfundur vera Jóhannes úr Kötlum.

Virðingarfyllst,
Reykjavík, 27. apríl 1944
Alexander Jóhannesson
Símon Jóh. Ágústsson
Þorkell Jóhannesson

60 Bréf úr skjölum forsætisráðuneytis um Lýðveldishátíð. Þjóðskjalasafn.

Ekki urðu allir sammála þessu áliti dómnefndarinnar og komust sögusagnir á kreik, m.a. þess eðlis að vegna þess að kvæði Huldu var póstlagt norður í landi, þá hafi menn talið það vera eftir Davíð Stefánsson. Urðu þetta einungis munnmæli úr smiðju Gróu á Leiti. En þó voru aðrir sem sýndu viðbrögð og rituðu Landsnefndinni lýðveldiskosningabréf þar sem þeir lýstu áliti sínu á kvæði Huldu. Við lestur eins bréfs er ekki laust við að telja megi forsendur óánægjunnar dálítið langsóttar, en ég birti það hér til gamans:

Landsnefnd lýðveldiskosninga, Alþingishúsi, Reykjavík

 Hæstvirta nefnd!
Hugsæi (rómantík) sem enga stoð á í raunveruleikanum, (realism) má nú kallast dauðadæmd með flestum siðmenntuðum þjóðum. – þér hafið með vali þessa svonefnda “hátíðarkvæðis”, (Huldu) misvirt land vort og þjóð og sanna skáldmennt á Íslandi. – Þér megið reiða yður á, að alþýða manna á landi hér hefur miklu meira vit á þessum málum en þér hyggið, gerið yður grein fyrir eða ætlist til, og mun ekki láta skenkja sér hvaða rómatízt guttl sem vera skal, án þess, að endurgjalda í þeirri mynt er sanngjörnust mun reynast. Eitthvert mesta skáld og hetja, sem nokkru sinni hefur uppi verið: Jesú frá Nazaret, sameinaði ávalt og í hvívetna hugsæi og raunveruleika, enda fékk hann engin verðlaun hjá þjóðhátíðarnefnd sinnar tíðar í lifandi lífi, en mátti hinsvegar blæða. Ég geri ekki ráð fyrir að þér skiljið þetta, með því yður mun vera ókunnugt um hvað er sannur skáldskapur og kristinndómur. Kannski skoðið þér hvortveggja sem rómantízt atvinnuspursmál, vitandi þess eða óvitandi, að Jesús Kristur hefur, eftir líkamsdauða sinn, jafnan verði stærzti og mesti atvinnurekandi á jörðu hér, – að öllum ólöstuðu

Virðingarfyllst,
Reykjavík, 7. júní, 1944

Jochum M. Eggertson (Skuggi). (61)

61 Bréf úr skjölum forsætisráðuneytis um Lýðveldishátíð. Þjóðskjalasafn.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is