Gjaldskrá STEFs

Það sem ýmsir menn höfðu helst á móti stofnun STEFs var hættan á að mikill gjaldeyrir streymdi út úr landinu til erlendra höfunda. Miklar gjaldeyrishömlur grúfðu yfir landsmönnum enda gjaldeyrisskortur á Íslandi. Oft var ekki hægt að fá gjaldeyri til greiðslu erlendra skulda eða reikninga nema með svokölluðum bátagjaldeyri, þ.e. afgreiðslu gjaldeyrisumsókna er tengdist sölu íslenskra skipa erlendis.
Við staðfestingu á Bernarsáttmálanum á Íslandi jukust greiðslur til erlendra höfunda til muna. Benda skal á í þessu sambandi að við opnun Þjóðleikhússins árið 1950 jókst flutningur á erlendum verkum sem voru vernduð og krafðist flutningur þeirra erlends gjaldeyris í höfundarréttargjöld.
Eins og nefnt hefur verið var STEF stofnað árið 1948. Félagið fékk vilyrði frá þáverandi menntamálaráðherra, Eysteini Jónssyni, fyrir að hann setti nýja reglugerð um flutningsrétt og þar með löggilti STEF. Skilyrðin voru þó að STEF gengi frá samningum við Ríkisútvarpið, sem setti ákveðin skilyrði um greiðslurnar. Niðurstaðan var að gjaldskrá sú er Ríkisútvarpið fór eftir reyndist allt of lág. Bundu menn þá vonir við að sú gjaldskrá sem innheimt væri hjá kvikmyndahúsum, veitinga- og skemmtistöðum yrði á móti miklu hærri. STEF leitaði árangurslaust samninga við hina margvíslegu aðila, og í sumum tilfellum innheimtu höfundarnir sjálfir fyrir flutning án þess að greiða neitt til STEFs.
Þegar samningaleiðin virtist þrautreynd gaf STEF út gjaldskrá vorið 1949 og sendi Lögbirtingarblaðinu til birtingar. Menntamálaráðherra brást harkalega við og lagði hann bann við birtingu gjaldskrárinnar. Gengu lögfræðingar STEFs þá á fund skrifstofustjóra menntamálaráðuneytisins og bentu á að bannið við birtingu gjaldskrárinnar væri ólöglegt. Til að komast hjá málshöfðun birti STEF gjaldskrá sína í dagblöðum ásamt meðfylgjandi greinargerð. Gjaldskráin var hugsuð sem viðmiðun til greiðslu skaðabóta fyrir ólöglega flutta tónlist og höfðu STEF-menn til viðmiðunar svipuð dæmi frá Danmörku allt frá árinu 1917 þar sem sektin fyrir að flytja tónlist án greiðslu var 50 danskar krónur í hvert skipti. Að loknum Alþingiskosningum árið 1950 mætti Jóhannes Elíasson fulltrúi menntamálaráðherra á stjórnarfund STEFS með nýjar tillögur um gjaldskrá ásamt loforði um birtingu slíkrar skrár í Lögbirtingarblaðinu.
Ósk STEFs um að almennan rekstur þessarar innheimtustofnunar yrði styrktur af ríkisvaldinu rættist ekki. Umræður fóru fram milli STEFs og Samband veitinga- og gistihúsaeigenda og óskuðu veitingamenn eftir að upplýsingar kæmu frá hinum Norðurlöndunum um hvernig þessum málum væri háttað þar. Mun Hans G. Andersen, sem var milligöngumaður í umboði ráðherra, ekki hafa sinnt því að afla þessara upplýsinga og dróst því málið á langinn. (131) Að lokum kom í ljós að sænska gjaldskráin var töluvert hærri en gjaldskrá STEFs kvað á um, en gjaldskráin í Noregi og Danmörku töluvert lægri. Þó skal undirstrika í þessu sambandi að greiðsla útvarpsins danska var þrefalt hærri miðað við heildartekjur en á Íslandi. Þann 28. ágúst 1950 gerðu svo fulltrúar STEFs og fulltrúar S.V.G. með sér samning í fullri vinsemd og virðingu. Á aðalfundi S.V.G. var þessum samingi hafnað og krafist var sama gjalds og í Danmörku, þrátt fyrir mikinn aðstöðumun félaganna.
Málin stóðu föst. Hinn nýi menntamálaráðherra, Björn Ólafsson, gaf í skyn að Ísland myndi ef til vill segja sig úr Bernarsambandinu og löggilding STEFs yrði afturkölluð enda mátti telja löggildinguna lítils virði þar sem stuðningur af hálfu ríkisvaldsins var enginn. Í skýrslu stjórnar STEFs segir eftirfarandi:

Núverandi menntamálaráðherra hefur lýst því yfir, að hann muni ekki veita STEFi neina aðstoð meðan hann sé ráðherra. Hefir hann að svo stöddu synjað um staðfestingu á úthlutunarreglum STEFs, (sem eru nærri því samhljóða úthlutunarreglum sænska félagsins STIM), og eigi heldur staðfest viðauka við samþykktir STEFs varðandi dramatísk réttindi. (132)

Eftir að ráðherra hafði neitað öllum stuðningi við STEF var engin leið önnur til úrlausnar en að fara til dómstólanna með málið.

131 Skýrsla framkvæmdastjóra STEFs, 17. júlí 1951.
132 Skýrsla STEFs dags. 22.ágúst 1951.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is