Fyrstu tónleikarnir

Tónlistarmennirnir fóru “varlega” af stað. Á fyrstu tónleikum félagsins var flutt tónlist þekktra höfunda og ekkert gert til að “ómstríða” fólki með nútímalegum tóna- / hljóðasamböndum. Þessir tónleikar voru fyrst og fremst tónleikar hljóðfæraleikaranna í hópnum. Efnisskráin var þannig (dæmi 3 á næstu síðu): Kvintett, op 71. eftir Beethoven, Þrjú sönglög eftir Hugo Wolf frá 1897, Duo Sonata eftir eftir Sergei Prokofieff og Trois Pieces Breves eftir Jacques Ibert. Flytjendur voru: Kristinn Hallsson óperusöngvari, Gísli Magnússon píanóleikari, Ingvar Jónasson fiðluleikari, Einar G. Sveinbjörnsson fiðluleikari, Peter Ramm flautuleikari, Karel Lang óbóleikari, Gunnar Egilsson klarínettleikari, Sigurður Markússon fagottleikari og Olaf Klaman hornleikari.
Ástæða þess að erlendir hljóðfæraleikarar voru í hópnum var sú að á þeim tíma voru engir Íslendingar sem gátu tekið að sér svo erfið hlutverk á þessi hljóðfæri, en útlendingarnir voru fengnir til Íslands til að leika á þessi hljóðfæri í Sinfóníuhljómsveitinni svo og að kenna á þau við Tónlistarskólann.

Þessir fyrstu tónleikar voru haldnir í Þjóðleikhússkjallaranum. Að geta notið veitinga á tónleikum var allnýstárlegt fyrirkomulag og vakti mikla forvitni. Tónlistarmennirnir höfðu lagt mikla vinnu í efnisskrána – meiri en áður hafði þekkst, og mátti t.d. sjá í henni ljósmynd af öllum flytjendum, ásamt stuttri lýsingu á menntun þeirra og starfi.
Frá upphafi hafði félagsskapurinn á að skipa tréblásarakvintett og strokkvartett og höfðu ýmsir aðrir hljóðfæraleikarar og söngvarar einnig lofað að leggja sitt af mörkum til að flytja mætti sem fjölbreyttasta tónlist. Að fyrstu tónleikunum loknum var efnt til umræðna í Listamannaklúbbnum, í baðstofu veitingahússins Naustsins um nýja tónlist. Málshefjandi var Jón Leifs og í framsöguræðunni ræddi hann um breytingar á hljóðheiminum í aldanna rás og hvernig nýjum verkum hefði verið tekið bæði af flytjendum og áheyrendum allt frá tímum Beethovens og fram til vorra daga. Einnig ræddi hann um að stofnun félags er hefði það að markmiði að flytja “nýja” tónlist ætti sér margar hliðstæður. Nefndi hann t.d. félagið sem Liszt hafði stofnað til kynningar á nýrri tónlist og hét Allgemeiner Deutscher Musikverein og 20. aldar félagið International Society for Contemporary Music. Einnig ræddi hann um það að hin svokallaða “konkreta” músík og “elektróníska” músík væri líklega það nýjasta sem menn væru að fást við í dag. Öll opinber umfjöllun um þessa tónleika var mjög jákvæð og fylgdu hvatningarorð og þakkir til handa hinni ungu kynslóð fyrir framtakið.
Eins og fram kemur hér að framan þá voru fyrstu tónleikar félagsins frekar “saklausir” ef haft er í huga sá nútímalegi boðskapur, sem átti eftir að koma síðar meir. Í upphafi greinar í Tímariti Máls og Menningar árið 1962 rifjar Björn Franzson upp fyrstu tónleika félagsins og líkir stofnendum við einskonar úlfa í sauðagæru miðað við það sem síðar átti eftir að koma fram. Hann skrifar m.a. í þessari grein:

Tónleikar þessir hafa yfirleitt verið helgaðir tónskáldum nýtízkunnar hérlendum og erlendum. Þeir fyrstu sem fram fóru 10. febrúar 1960 í Þjóðleikhússkjallaranum, voru þó undantekning í því efni. Hinir ungu menn, sem að félagsskapnum standa, fóru sem sé einkar hógværlega af stað. Það sem þeir höfðu valið til flutnings á fyrstu tónleikunum, var allt eftir tiltölulega “meinlausa” menn eins og Beethoven, Hugo Wolf, Prokofiev og Ibert. Þetta var stórlega snjöll herstjórnarlist, eflaust útreiknuð  með þann tilgang í huga, að ekki kæmist styggð að áheyrendum, meðan verið væri að venja þá við. Áheyrendur komu því til næsta tónleikakvölds í Framsóknarhúsinu grunlausir að kalla og uggðu ekki að sér. (205)

En hvað var það sem “úlfarnir” voru að bralla að mati Björns? Fullyrða má að ekki var um að ræða neina herstjórnarlist frá hendi tónlistarmannanna. Ekki hafði gefist mikill tími til æfinga, allra síst á hinum nýju verkum íslenskra höfunda þar eð stutt var frá stofnun Musica Nova. Aðalmálið var að komast í gang og því var gripið til verka eftir þá höfunda sem nefndir hafa verið – þekkt verk.
205 Björn Franzson: Nokkar hugleiðingar um nýja tónlist; Tímarit Máls og Menningar, 4.-5. hefti 1962

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is