Fyrsta óperettan

Til að afla Tónlistarskólanum rekstrarfjár, beitti Tónlistarfélagið sér m.a. fyrir því at færa upp óperettu. Fyrir valinu varð “Dreimäderlhaus” – sem fékk íslenska titilinn Meyjarskemman. Þetta var árið 1934 og var það um leið í fyrsta sinn sem slíkt verk var fært upp hér á landi. Úr þessu má lesa hvílíkar framfarir höfðu orðið í músíklífi Reykjavíkur undanfarin 10 ár. Um aldamótin mátti telja á fingrum annarrar handar þá sem “leikið gátu” á fiðlu, og það vakti m.a. undrun og furðu almennings þegar Rósenbergkjallarinn hóf að skemmta gestum sínum með fiðluleik. Tónlistarfélagið átti eftir að beita sér fyrir flutningi fjölda slíkra verka bæði í Reykjavík og einnig úti á landsbyggðinni. Þetta starf skóp m.a. hljómsveitinni skemmtileg verkefni að glíma við.

Í hljómsveitinni, sem lék undir í óperettunni, voru 20 hljóðfæraleikarar úr Hljómsveit Reykjavíkur undir stjórn Franz Mixa en leikstjóri var Ragnar Kvaran sem að auki lék eitt aðalhlutverkið, þ.e. gleðimanninn Schober. Aðrir sem voru í helstu hlutverkum voru Kristján Kristjánsson, Gestur Pálsson, Jóhanna Jónsdóttir, Salbjörg Thorlacius, Elín Júlísdóttur, Sigurður Markan, Erling Ólafsson, Nína Sveinsdóttir, Óskar Guðnason og Gunnar Guðmundsson. Þessum sýningum var forkunnarvel tekið og þótti mikil framför í tónlistarlífi bæjarins.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is