Fyrsta íslenska óperettan

Árið 1944 stóð Tónlistarfélagið fyrir sýningu á fyrstu íslensku óperettunni. Var það verkið Í álögum eftir þá Sigurð Þórðarson, sem samdi tónlistina, og Dagfinn Sveinbjörnsson sem fléttaði saman textann.

Efni þessarar fyrstu íslenzku óperettu er sótt tvær aldir aftur í þjóðlífið, þegar einokun og önnur óáran hafa þjáð þjóðina og lamað orku hennar, en fyrstu glætu viðreisnar og vakningar bregður fyrir. Inn í söguþráð leiksins er ofið ýmsum þjóðsögum og fyrirbrigðum liðinna tíða, og þó að efnið sé hvorki staðfært né tímabundið í sögunni, má telja það táknrænt um baráttu þjóðarinnar við hin illu öfl og sigur hennar á 19. öld með vakningu Fjölnismanna, er þá koma fram. (51)

Hér var um viðburð að ræða í tónlistar- og leiklistarlífinu. Í leikskránni skrifaði Haraldur Björnsson leikari m.a.: “Árið 1929 bauð ég í fyrsta skipti Leikfélagi Reykjavíkur óperettu til sýningar, en þá voru ástæðurnar þannig í tónlistarmálunum, að ekki var hægt að ráðist í að sýna hana vegna vöntunar á samæfðri hljómsveit”. (52) Það var samstarfið við Leikfélag Reykjavíkur sem gerði þessar uppfærslur mögulegar. Talið var að leiksviðið hafi verið eitt það fegursta sem þá hafði verið skapað í íslenskri leiksögu. Mjög góð aðsókn var að óperettunni og vakti hún mikla athygli. Skemmtilegt er að hugsa til orðanna á forsíðu Fálkans þar sem birt er mynd af leiksviðinu undir fyrirsögninni Álfahöll – – – Tónlistarhöll. Í textanum segir m.a.

En því oftar, sem leikurinn fyllir húsið, því styttra verður þangað til tónlistarhöllin kemst upp, því að til hennar rennur ágóðinn af sýningum. Það er því tengsl milli álfa- og tónlistarhallarinnar. (53)

Í íslenskum álfasögum talar maður gjarnan um að álfheimur sé mönnum ósýnilegur. Vera má að tónlistarhöllin sé risin – en þá er það í álfheimum.

51 Útvarpstíðindi: 6. árg., 6.-20. maí 1944.
52 Vikan: 4. maí 1944.
53 Fálkinn: 19. maí 1944.

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is