Frá fortíð til nútíðar

Þessi kafli fjallar um tímabilið í íslenskri tónlistarsögu, þegar 20. aldar tónlist – og þá um leið ný tónlist á Íslandi í stíl 20. aldarinnar – fyrst fór að heyrast að ráði á opinberum tónleikum. Ekki verður dvalið við einstaka tónverk önnur en þau sem að hluta eða öllu leyti skilgreinast sem elektrónísk – en sú tónlist er meginefni þessarar ritgerðar. Sama gildir um tónskáldin. Einungis verður minnst á þau tónskáld sem samið hafa elektróníska tónlist. Frá árinu 1960 hafa ný íslensk tónverk verið flutt nokkuð reglulega á tónleikum á Íslandi og gildir þá einu hver stíllinn er. En fyrst frá árinu 1960 fóru straumar vestrænnar nútímatónlistar að líða um tónlistarheiminn á Íslandi í formi nýrra verka, sem samin voru í takt við hræringar í tónlistarheiminum í löndunum í kringum Ísland. Orsakast það bæði af því að um það leyti komu nokkuð mörg tónskáld heim til Íslands að loknu framhaldsnámi erlendis og einnig vegna aukins upplýsingastreymis og bættra samgangna til og frá landinu. Ég tel því árið 1960 vera það ár þegar tónlistarlífið á Íslandi fluttist af alvöru frá fortíð til nútíðar.

Þó svo að einstaka 20. aldar tónverk hafi “slæðst” inn á stöku tónleika á árunum á undan þá voru fastar hefðir ríkjandi fyrir tónlistarflutningi, þ.e. klassísk og rómantísk tónlist. Við lestur á tónlistargagnrýni í íslensku dagblöðum frá árunum 1930-60 kemur í ljós að Hljómsveit Reykjavíkur / Sinfóníuhljómsveitin héldu sig við “minni” verk framan af, en eftir því sem árin liðu jókst færni flestra hljóðfæraleikaranna – og þar með voru stærri verk tekin til flutnings. En nánast var eingöngu um að ræða stór verk fortíðarinnar. Á þessum árum eignuðust Íslendingar mjög færa hljóðfæraleikara með Pál Ísólfsson (orgel), Björn Ólafsson (fiðlu), Árna Kristjánsson (píanó) og Rögnvald Sigurjónsson (píanó) í fararbroddi, og síðan komu fleiri til sögunnar. Sama gilti um söngvarana. Þessir tónlistarmenn fluttu nánast einungis tónlist “hinna tvö hundruðu ára”, þ.e. frá tónlist Bachs og fram til Debussy. Nánast undantekning var ef þeir fluttu verk sem samið var á 20. öldinni, og ef svo var átti það verk rætur í klassísk/rómantískum hefðum.

Þrátt fyrir að Jón Þórarinsson tónskáld og kennari við Tónlistarskólann í Reykjavík hafi sett sig samviskusamlega inn í tónsmíðaaðferðir Hindemith á námsárum sínum í Bandaríkjunum, og síðan miðlað þeim nemendum sínum í tónsmíðum við Tónlistarskólann, var tónlist Hindemith fremur sjaldan flutt á Íslandi. Finna má nokkur íslensk tónverk sem rætur eiga í þessari kennslu, en ekkert tónskáldanna tók “trúna” á Hindemith né hans aðferðir, en margir lærðu þó kórréttan kontrapunkt hjá Jóni. Því má segja að áhrif frá Hindemith hafi komið og farið með Jóni Þórarinssyni.

Ungu tónskáldin og hljóðfæraleikararnir drukku í sig það sem var að gerst í núinu, og við stofnun samtakanna Musica Nova haustið 1959 má segja að nútíminn hafi haft innreið sína í íslenskt tónlistarlíf.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is