Fjórðu tónleikarnir

Næsta stórátak félagsins í flutningi nýrrar íslenskrar tónlistar var í desember 1961 (5). Á þessum tónleikum voru frumflutt ný verk. Þarna mátti heyra svokallaða “aleatoriska” tónlist í 15 tóndæmi fyrir flautu, óbó, klarínettu og fagott eftir Magnús Blöndal, tvö elektrónísk verk, sónötu eftir Jón S. Jónsson og svo Kvintett op. 50. Það voru hin elektrónísku verk Magnúsar Blöndal og Þorkels Sigurbjörnssonar sem boðuðu dómsdag. Átti virkilega að stofna “hinum lifandi uppsprettulindum” í eilífa glötun?

 

…En þeir sem heyrðu hin elektrónísku “tónverk” þessa kvölds, (220) – hljóta þeir ekki flestallir að gera sér þess grein, að hér með er öfugþróun listarinnar komin á leiðarenda? Héðan af á hún ekki nema um tvennt að velja: Lokaskrefið út í tómið kalt og dimmt og dautt eða afturhvarf að hinum lifandi uppsprettulindum allrar sannrar listsköpunar. (221)

Dæmi 5

220 Hér á Björn við tónleika Musica Nova sem haldnir voru 6. desember 1961 en þar voru flutt tvö elektrónísk verk, Constellation eftir Magnús Blöndal og Leikar 3 eftir Þorkel Sigurbjörnsson.
221 Björn Franzson: Tímarit Máls og Menningar 4. – 5. hefti 1962, bls. 391 – 404.

Hér var öðru sinni ráðist á „alla sanna listsköpun“, þ.e. tónlistarhefðir fyrri alda að mati Björns, með verkum Magnúsar og Þorkels. En þrátt fyrir að Björn hafi átt sér marga skoðanabræður meðal tónlistamanna í landinu þá urðu þessar aðvaranir hans vindhögg. Mikilvægust var sú staðreynd að ný íslensk tónlist eftir ung tónskáld var flutt af ungum íslenskum hljóðfæraleikurum. Ef Musica Nova hefði ekki verið stofnað, þá hefði þessi tónlist að öllum líkindum aldrei fengið að hljóma á þessum árum. Tónleikahaldarar, þ.e. Sinfóníuhljómsveitin, Kammermúsíkklúbburinn og Tónlistarfélagið hefðu aldrei opnað dyr sínar fyrir þessari nýju tónlist og því voru þessi skilyrði sem sköpuðust við stofnun Musica Nova ómetanleg í tónlistarsögu þessara aldar á Íslandi

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is