Eftirmáli

Ef skoðaðar eru heimildir um íslenskt tónlistarlíf frá því um 1920 til 1968 (árið sem Jón Leifs lést) með það fyrir augum að kortleggja samstarf Páls Ísólfssonar og Jóns Leifs og stöðu þeirra í íslensku tónlistarlífi kemur í ljós – að mínu mati – að þeir voru í rauninni góðir vinir. Án þess að framkvæma nokkra persóngreiningu á þeim tveimur, tel ég mig geta fullyrt að ekki aðeins í ofannefndu tilfelli um athugasemdir Jóns í garð Páls, heldur fjölda svipaðra athugasemda síðar í lífinu, megi lesa nokkuð um persónu Jóns. Í handskrifuðu bréfi úr persónlegu safni Páls Ísólfssonar skrifar hann m.a. um stöðu samskipta þeirra í upphafi:

Samskifti okkar J.L. voru í stuttu máli sem hér segir: Hann fór undir minni umsjá til Leipzig 1916 og komst þar inn á Konservatoríið fyrir mína milligöngu. Við bjuggum lengi á sama stað, skiftumst á skoðunum um músík og fleira og kom vel saman þótt sjónarmið væru oft ólík. Síðar skildust leiðir. Fór þá að bera á einhverskonar öfund hjá honum. Hann taldi mig í vegi fyrir sér, enda þótt við værum hvor á sínu starfssviði. (45)

Ef hlustað er á verk þessara tónskálda heyrist að hafsjór er milli sýnar þeirra á tónlist. Það sama á við um markmið þeirra í lífinu og á hvern hátt samskiptum þeirra við annað fólk var hagað. Ég hef þá skoðun að þessi hugsanlega athugasemd sem Jón Leifs vitnar til í bréfi til móður sinnar um Páls “innri mann” sé vanmat frá hans hendi. Ég hef þó enga ástæðu til að halda fram að Páll hafi ekki sagt það sem Jón vitnar til – bæði þetta, sem og margt annað í svipuðum dúr sem þeir eflaust hafa sagt hvor við annan á lífsleiðinni. En ég leyfi mér að efast um að það hafi verið ástæða þess að Jón sendi ekki inn kantötu á Alþinginshátíðina. Staðreyndin er að Páll Ísólfsson gerði meira en nokkur annar í íslensku tónlistarlífi til að hjálpa Jón Leifs til að ná fótfestu í samfélaginu. Í svarbréfi til Páls frá Jóni í janúar 1929 sem hann m.a.:

Já, ég er þér þakklátur, ef þú getur stuðlað að því að ég festi rætur í feðranna mold. Mér er það svo mikið tilfinninga- og áhuga- mál, að ég mundi jafnvel fórna öðrum óskum mínum og slá af kröfunum, ef þessi gerist þörf. Ef landar mínir rétta mér höndina, þá mun eg taka í hana, þó að ekki verði alt eins og eg frekast óskaði. (46)

45 Ódagsett bréf úr einkasafni Páls Ísólfssonar. Eftir innihaldi bréfsins álít ég það skrifað um miðjan 6. áratuginn.
46 Dresden í janúar 1929.

Hér kemur í ljós að þegar árið 1929 var Páll byrjaður að aðstoða Jón við að flytja til Íslands – en það er á hinn bóginn þetta með “óskir og kröfur” Jóns. Páll sýndi þetta síðar m.a. með því að gefa Jóni eftir stöðu sína hjá Útvarpinu, og þegar hann undirskrifaði yfirlýsingu þess efnis að engin ástæða væri til að trúa þeim ásökunum að Jón Leifs hefði nokkur tengsl hafi við Nazista í Þýskalandi, – að ekki sé minnst á þegar hann lék verk Jóns bæði á Íslandi og í útlöndum og gerði útvarpsþátt um hann og tónlist hans. Hann skrifaði svo seint sem árið 1962 bréf til orðunefndar þar sem hann bendir á að Jón Leifs hafi enn ekki fengið Fálkaorðunu fyrir störf sína að tónlistarmálum o.s.frv. Enda þótt Jón hafi haldið áfram að ráðast að Páli opinberlega, bæði persónulega og faglega, svaraði Páll aldrei í sama tóni. Þetta sýnir innri mann Páls.

Saga Jóns og Páls er enn ekki skrifuð, en ætla má að margir áhugaverðir hlutir kæmu fram, einnig varðandi íslenskt tónlistarlíf í heild sinni, þegar kafað verður niður í þátt þeirra á þeim vettvangi.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is