Eftirmáli

Í framansögðu hefur verið leitast við að rekja upphaf ýmissa þátta í íslensku tónlistarlífi frá árinu 1920-60. Af þessu yfirliti má vera ljóst að “alvöru” tónlistarlíf er mjög ungt í landinu, en á sama tíma hefur þróunin orðið ör – sérstaklega eftir miðja öldina. Miðað við önnur Norðurlönd, var hin músíkalska þróun á Íslandi hægferðugri fyrr á öldum – í sumum tilvikum miklu hægferðugri. Ástæður voru margar. Má þar fyrst nefna legu landsins og einangrun í margar aldir. Það kom þó ekki í veg fyrir menningarlíf að vissu marki – í sumum tilvikum háþróað þar sem um er að ræða bókmenntirnar. Íslendingar hafa alltaf skrifað –ekki aðeins rithöfundar heldur þjóðin öll. Má sjá dæmi þess í Handritadeild Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns sem hefur að geyma um 15.000 handritanúmer þar sem er að finna uppskriftir af sögum, kvæðum, leikritum, dagbækur, mannalýsingar, staðhátta- og þjóðháttalýsingar. Þessi handrit hafa að geyma sögu alþýðunnar í mörg hundruð ár.
Um tónlistariðkun þjóðarinnar fyrr á öldum er það að segja að þar er söngurinn í hávegum. Má þar til nefna að um helmingur áðurnefndra handrita, eða um 8.000, eru uppskriftir af kvæðum; kvæðabækur sem í sumum tilvikum hafa að geyma nótur. Er þá ónefndur hinn ótölulegi fjöldi rímna sem eru löng sögukvæði og voru alltaf kveðin.
Lítið eitt mun hafa verið til af hljóðfærum í landinu um aldabil og skal þar helst nefna Langspil sem er í ætt við hið norska Langleik og einnig íslenska fiðlu sem einstaka menn munu hafa getað leikið eitthvað lítilsháttar á, þá aðallega í tengslum við sönginn. Einhver hljómborðshljóðfæri eru nefnd í sögunni, svo sem Regal en það mun aðeins hafa verið eitt hljóðfæri og tengist einum manni.
Fátt er til af prentuðum veraldlegum bókum frá 17. og 18. öld. Þær bækur sem prentaðar eru tengjast flestar kirkjunni eða klerkastéttinni, og er um að ræða sálmabækur og messugjörðabækur ýmiss konar. Eru þær til í mörgum útgáfum. Hin alþýðlega menning, og þar með söngurinn var lítt prentað og eru því hin varðveittu handrit geysilega þýðingarmikil fyrir menningu þjóðarinnar.
Um almenna tónlistarmenntun var alls ekki að ræða í mörg hundruð ár. Það var eins með hana og hinar prentuðu bækur, að hún var aðallega tengd klerkastéttinni í landinu. Af þeim ástæðum er ekkert til af hljóðfæratónlist frá fyrri öldum á Íslandi. En söngurinn lifir með kvæðunum og myndar hann bakgrunn og undirstöðu tónlistariðkunar í landinu.
Ekki fer að bera á almennu tónlistarnámi einstaklinga fyrr en um miðja 19. öld. Er þá yfirleitt að tala um einstak menn – og í einstaka tilvikum konur – sem hafa lært eitthvað í hljóðfæraleik og söng. Yfirleitt eru tilnefndir eftir miðja öldina Pétur Guðjónsson sem var orgelleikari Dómkirkjunnar í Reykjavík, sem og bræðurnir Jónas og Helgi Helgasynir.

Einnig skal hér tilnefndur Sveinbjörn Sveinbjörnsson þó svo hann hafi aðallega starfað erlendis.
Á 20. öld eru tveir menn oftast nefndir fyrst, eins og getið er í upphafi skrifa þessara, en það eru Sigfús Einarsson og Páll Ísólfsson. Auk þessara nefndu manna voru ýmsir sem störfuðu að ýmiss konar tónlistarmálum, eins og kennslu á hljóðfæri, söng í einstaka skólum svo og kórstjórn. Enginn hafði þá tónlistarlegu menntun né yfirsýn fyrir aldamótin til að gera slíkt átak sem gert var í kringum 1930 og á árunum þar á eftir.
Tónlistin blundaði meðal þjóðarinnar – var “í hýði” – og beðið var eftir “tónlistarvorinu” í mörg hundruð ár. En svo þegar hún loksins vaknaði varð þróunin svo ör að á aðeins nokkrum áratugum varð þjóðin ekki síður gefandi en þiggjandi á tónlistarsviði heimsins. Er ekkert undarlegt þótt söngurinn beri þar hæst. Framsæknin er einnig mikil á öðrum sviðum.
Eitt er þó rétt að benda á og stendur upp úr í baráttunni fyrir þroska tónlistarlífsins í landinu. Ef ekki hefði komið fram brennandi áhugi einstaklinga til að gera betur þá værum við ekki komin svona langt. Grunnur þess tónlistarlífs sem nú er til í landinu er að mestu unninn í sjálfboðavinnu eða þá fyrir smánarlaun. Pólitískur skilningur og vilji til að veita fjármagni í íslenskt tónlistarlíf hefur oft á tíðum verið afskaplega takmarkaður og má finna mýmörg dæmi þess að einstakir þingmenn hafi beinlínis beitt sér gegn framgangi þess og þroska. Einnig virðast pólitísk loforð fyrir kosningar um fjárhagslegan stuðning ekki hafa neitt gildi nú frekar en áður. Tónlistarkennsla í hinu almenna skólakerfi nýtur einskis faglegs stuðnings frá menntamálaráðuneyti, form tónlistarkennslu á framhaldsskólastiginu (í þeim einstökum skólum þar sem boðið er upp á hana) er til háborinnar. En þrátt fyrir þetta blómstrar tónlistarlíf í landinu og er það að þakka brennandi áhuga einstaklinga og framtakssemi þeirra víða um land. Er þáttur þeirra allt of sjaldan undirstrikaður í umræðu um tónlistarmál.
En það var og er ekki aðeins við fjárhangslegan vanda að stríða og almennan stuðning hins opinbera. Miklir fordómar voru (og eru stundum) áberandi og fastheldni í gamlar hefðir. Á seinni hluta 6. áratugarins þegar vitund manna fór að vakna af alvöru fyrir nýrri tónlist, þurftu ungir menn að brjótast í gegnum múra hefðarinnar og fastheldninnar hjá bæði gagnrýnendum og almenningi. Ef ekki hefði enn einu sinni orðið vakning meðal baráttumanna og áhugasamra einstaklinga sem létu gagnrýni og fordóma lönd og leið þá er óvíst hve langt hefði liðið þar til að á Íslandi yrði flutt tónlist síðari hluta 20. aldarinnar og síðast en ekki síst tónlist hinnar yngstu kynslóðar íslenskra tónskálda. Með því að taka höndum saman og stofna með sér félagið Musica Nova þá stigu ungir hljóðfæraleikarar og tónskáld eitt stærsta skref framávið sem stigið hefur verið á síðari hluta 20. aldar – ekki síður mikilvægt skref en þegar Tónlistarfélagið í Reykjavík var stofnað. Ég mun nú rekja þann aðdraganda og lýsa því umhverfi sem þessi starfsemi hóf göngu sína í.

Til baka

Tónlistarsafn Íslands, Arngrímsgata 3, 107 Reykjavík | Sjá á korti
Sími 525 5754 / 824 6413 | Netfang: ts@tonlistarsafn.is